Aldrei skrifa neitt um karlmann nema hann sé uppspuni frá rótum. Það kitlar svo í þeim hégómagirndina að fá svoleiðis athygli, sagði vinkona mín og ég hef svosem heyrt þetta áður.

Fyrir uppgangstíma feminismans voru gefnar út bækur um það hvernig ungar stúlkur ættu að hegða sér til að verða gjaldgengar eiginkonur. Boðskapurinn var í megindráttum ‘haltu kjafti og vertu sæt’. Konan átti að taka tillit til þarfa karlsins. Þjóna honum af kostgæfni og angra hann sem minnst með eigin vandamálum. Hugarflækjum skyldi hún halda fyrir sjálfa sig. Þessi uppskrift átti að tryggja henni ást og öryggi. Hún hafði ekki rétt á að biðja um meira en ef hún var heppin fékk hún kannski blóm líka.

Ég dag kveður við annan tón. Í dag eiga konur að gera kröfur til karla. Þær eiga að hafa sjálfstæðar skoðanir og sinna sjálfum sér sem mest. Samt er langt því frá að bókaflóðið hafi hjaðnað. Þvert á móti er endalaust framboð á bókum fyrir konur, um það hvernig þær geti landað rétta manninum. Og alltaf snýst galdurinn um að sýna honum hæfilegt afskiptaleysi, láta hann eltast við sig, leyfa honum ekki að kynnast sér of náið, fórna sem minnstu fyrir hann. Að vísu á konan enn sem fyrr að vera prúð. Menntuð, snyrtileg, með sitt á hreinu og engin mella. Hún á líka að hrósa honum þegar hann gerir eitthvað rétt, til að styrkja jákvæða hegðun (þannig temur maður hunda) og enn í dag á það við að þreyta hann ekki með óþarfa kjaftæði og gera ekki kröfu um meiri samveru en hann hefur áhuga á. Það má heldur ekki krefjast þess að hann tali hreint út um tilfinningar sínar, heldur á að laða hann til þess, eins og hann sé viðkvæmt eilífðarblóm í sálfræðimeðferð. Allra síst má kona nokkru sinni gefa karli til kynna að hún vilji fá á hreint hvert sambandi stefni. Það á hún að finna út með öðrum leiðum en að stilla honum upp við vegg.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort hafi í rauninni nokkuð breyst á 60 árum. Hvort við konur séum nokkuð minni ambáttir kynjaímynda en áður fyrr. Enn í dag er stöðugt verið að selja konum þá hugmynd að þær þurfi helst háskólapróf í sálarlífi karlmanna til að vera elsku þeirra verðar. Eini munurinn er sá að í dag er talið vænlegast til árangurs að gefa honum stöðugt skilaboðin ‘þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað.’

Glætan spætan að ég vilji láta hugsanlega hégómagirnd þeirra karlmanna sem á einhvern hátt vekja áhuga minn, stjórna því hvað ég skrifa. Ef ég hef ekkert álit á manninum og ætla mér ekki að mynda nánari tengsl við hann, hversvegna ætti ég þá að taka það nærri mér þótt hann fari á egóflipp yfir því að lesa eitthvað frá mér sem hann getur tengt við sjálfan sig? Og ef mér þykir vænt um hann, af hverju ætti ég þá ekki unna honum þess að finnast hann eitthvað merkilegri fyrir þá sök að ég hafi eytt 20 mínútum af ævi minni í að skrifa um hann?

Ég elska karlmenn. Ég hata karlmenn. Oft hvortveggja í einu. Ég hef stundum gaman af þeim, finnst stundum hundleiðinlegt að eiga samskipti við þá. Ég myndi væntanlega ekki verja tíma mínum í samskipti við karlmann, nema vegna þess að mér þyki hann á einhvern hátt áhugaverður. Hugsanlega vekur hann ekki áhuga minn fyrir neitt annað en að vera tiltækur félagsskapur þegar ég er einmana, en aumt væri mitt eigið sálarlíf ef ég gæti ekki allavega fundið áhugaverðan flöt á minni eigin upplifun af honum.

Svo hér er gjöf til allra minna manna. Til hvers þess manns sem ég hef elskað, hatað, fyrirlitið eða fundið samkennd með. Til hvers þess manns sem hefur skemmt mér, drepið mig úr leiðindum, strokið fingurgómum niður bakið á mér, talað við mig, þagað með mér, glatt mig, sært mig, gengið á eftir mér, hunsað mig eða sýnt mér óþægilega ágengni. Til hvers þess manns sem hefur kennt mér eitthvað um manneskjuna, kennt mér eitthvað um sjálfa mig eða bara fyllt nokkrar mínútur af lífi mínu með nærveru sinni. Ég játa það hér og nú, ég hef óendanlega áhuga á tegundinni og þú sem eitt, sérstakt eintak, vaktir athygli mína um stund, veittir mér jafnvel innblástur og já ef þér finnst þú merkilegri fyrir vikið, þá ertu það líklega. Sem karlmaður ertu í mínum huga einn af leyndardómum tilverunnar. Stundum heillandi, stundum ógeðfelldur, oftar en ekki óttalega sorglegur asni sem mér þykir vænt um af því að sorglegir asnar eru svo mannlegir. En hvort sem þú vekur mér yndi eða andúð, hefurðu gefið mér tilefni til að skrifa og það er, þegar allt kemur til alls, haldreipi hamingju minnar.

Svo skál bróðir, njóttu athygli minnar, þú ert hennar sennilega verður.