Við gætum nú alveg hrópað húrra ef það væru bara kynjahlutföllin í fjölmiðlum sem gefa þá mynd að heimurinn snúist fyrst og fremst um karla. En maður þarf ekki að fletta í gegnum mörg blöð til að sjá að jafnvel þar sem konur eru nefndar, eru þær aukapersónur, óvirkar eða handbendi karla, mun oftar þolendur en gerendur. Karlar eru skúrkar, hetjur og álitsgjafar, konur viljalítil verkfæri í valdatafli, fórnarlömb og puntudúkkur. Þetta á sannarlega ekkert bara við um Fréttablaðið.

Mér finnst hinsvegar hæpið að ásaka fjölmiðla, því sorrý Stína, þessar ímyndir eru ekkert bundnar við ritstýrða fjölmiðla. Af einhverjum ástæðum sýna konur minni áhuga á pólitík en karlar. Það má vissulega benda á að fjölmiðlar gætu tekið þátt í að breyta því með því að gefa konum meiri gaum en á meðan konur sýna ekki áhuga á því sjálfar að vera virkir þátttakendur í því að skapa samfélag sitt, þá er ekki grundvöllur fyrir því að reka fjölmiðla sem gera konum jafn hátt undir höfði og körlum. Nema þá tímarit sem snúast frekar um dægurmál og sérstök áhugasvið kvenna en pólitík.

Það er áhugavert að skoða kynjahlutföll í fjölmiðlum. En ég held að sé mikilvægara að skoða hvað hægt er að gera til að efla áhuga kvenna á samfélagsmálum. Nú er Nýtt líf búið að fá ritstjóra sem hefur dálítið aðra sýn en flestir þeir sem hingað til hafa ritstýrt kvennablöðum. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni. Mun Nýtt líf fjalla um konur sem pólitískt afl, gerendur, hetjur og skúrka? Ég hef fulla trú á því að blaðið verði lestarhæft undir ritstjórn Þóru. En mun konum þykja það áhugavert? Eða mun salan detta niður og dálkar á borð við „tíu leiðir til að gleðja hann í rúminu“ og „allt um það nýjasta í naglalökkum“ teknir upp til að bjarga blaðinu frá gjaldþroti?

Ég er satt að segja ekkert of bjartsýn. Mér tókst nokkuð vel að sniðganga kvennablöð þar til bleikt.is og Pjattrófurnar fóru að þvælast fyrir mér allsstaðar. Ég vissi að mínar vinkonur eru kannski ekki þversnið þjóðarinnar en mér datt ekki í hug að þær vikju svona langt frá norminu. Nú er ég farin að halda að konur séu bara svona tómar. Eða er það eitthvað allt annað en normið sem birtist á bleikklámssíðunum? Ef svo er, hversvegna er bleikt.is alltaf meðal vinsælustu vefritanna skv. blogggáttinni? Pjattrófurnar lenda ekki eins oft á lista en ég gæti trúað því að flestir fari inn á þá síðu í gegnum dv fremur en bloggáttina svo það segir nú lítið. Af einhverjum ástæðum á bleikt klám gífurlegum vinsældum að fagna. Og það er ekki vegna þess að þar birtist konur sem virkt samfélagsafl.