Um daginn sat ég á spjalli við konu, hverrar eiginmaður var illa haldinn af kinnholubólgum og henti hún nokkurt gaman af því hve illa hann bæri sig. Sjálf lenti ég einu sinni á sjúkrahúsi vegna illvígrar skútabólgu. Var svo veik að ég var mænustungin til að útiloka heilahimnubólgu. Ég er fremur húmorslaus þegar slys og veikindi eru annarsvegar og sá ekki alveg spaugið í því þótt manngreyið væri hálfvælandi undan slíkri andstyggð. Reyndar játa ég að sjálfsvorkunn mín í veikindum er á karlmannlegu plani að því gefnu að karlar séu í raun meiri eymingjar gagnvart kvefi og kvillum en konur.
Ég heyri konur mjög oft tala um að karlmenn beri sig illa í veikindum en sjálf hef ég aldrei orðið vör við einhvern afgerandi mun á kynjunum hvað þetta varðar. Held reyndar að karlar eigi það fremur til að afþakka lyf út á einhverja undarlega gerð af karlrembu. Konur taka allavega ekkert færri veikindadaga en karlar og sennilega fleiri.
Er það almenn reynsla fólks að karlar taki umgangspestum og öðrum lasleika verr en konur? Er það kannski bundið við ákveðna kvilla? Stafar óhemjugangurinn að einhverju leyti af því að þeir séu líklegri til að telja sjálfa sig ómissandi á vinnustaðnum? Eða er þetta bara mýta? Kannski af svipuðum toga og sú útbreidda hugmynd að konur tali meira en karlar, sem virðist ætla að halda velli þrátt fyrir að rannsóknir leiði annað í ljós.