Í gærkvöld og dag hef ég séð þessari mynd dreift á Snjáldrinu. Mynd sem í fljótu bragði lítur út fyrir að sýna tölfræðilegar staðreyndir en er þó ekkert annað en áróðursmynd sem er ætlað að telja áhorfandanum trú um:
a) Að það sé ofboðslega hættulegt að vera kona.
b) Að karlar séu konum stórkostlega hættulegir.
c) Að ástarsambönd séu konum hættulegri en hernaður og hryðjuverk körlum.
d) Að kvennamorð séu viðurkennd hegðun í Ameríku.
Með því að tengja saman hryðjuverk, stríð og kvennamorð skapar áróðursmeistarinn þau áhrif að heimilisofbeldi sé sambærilegt við hryðjuverk og hernað. Hvort tveggja séu aðgerðir voldugra þjóðfélagsafla, ætlaðar til þess að undiroka stóra hópa fólks með ofbeldi og morðum.Yfirskriftinni What War on Women? er ætlað að vekja okkur þá tilfinningu að við séum öll í ægilegri afneitun gegn stóru vandamáli, stríðinu gegn konum. Að í rauninni sé hér um að ræða hatursfullt samsæri gegn helmingi mannkynsins. Að karlmenn sem hópur herji á konur og líti þær sömu augum og óvinaþjóð. Að markmið karla sé að drepa sem flestar konur. Að makar okkar gegni beinlínis hlutverki í þessu stríði; hlutverki böðulsins. Að heimilisofbeldi sé þjóðarmorð í dulargervi. Þjóðarmorð sem við afneitum eða látum viðgangast af einskæru kvenhatri.
Augljósar rökvillur
Auðvitað sjá allir í gegnum þetta sem á annað borð hafa greindarvístölu yfir sjávarmáli. Langflestar konur eiga einhverntíma á ævinni í ástarsamböndum. Stór meirihluti kvenna á í nánum samböndum við karlmenn árum saman. Hinsvegar gegnir örlítill minnihluti bandarískra karla herþjónustu í Afghanistan árum saman, auk þess sem það eru fyrst og fremst óbreyttir borgarar sem falla í stríði en ekki hermenn.
Samkvæmt þessari mynd falla 1000 amerískar konur fyrir hendi maka síns árlega. Það samsvarar einni íslenskri konu. Enginn heilvita maður telur það ásættanlegt. Það er þó lítið vit í því að bera saman þá sem falla í stríðsátökum og þá sem falla fyrir hendi maka síns og með þessari aðferðafræði er hægt að sanna hvaða vitleysu sem er. Árlega deyja 10-12 manns í bílslysi á Íslandi. Það hlýtur þá samkvæmt þessu að vera „stríð gegn vegfarendum“. Fleiri nauðganir eiga sér stað í heimahúsum en fangelsum, þar með hlýtur fangelsi að vera mun öruggari staður en heimili.
Hálfsannleikur er lygi
Afbökunin á sannleikanum kemur ekki aðeins fram í þessum fjarstæðukenndu tengingum. Myndin felur líka í sér lygar sem eru mjög dæmigerðar fyrir haturshreyfingar. Lygar sem er komið til skila með því að segja aðeins hálfan sannleikann. Hálfur sannleikur er nefnilega oftar en ekki lygi. Það er t.d. meiri lygi en sannleikur að kalla sjálfsvörn líkamsárás og ég nota því hiklaust orðið lygi um slíkan hálfsannleika.
Lygin í þessari mynd er sú að aðeins konur séu myrtar. Að karlar falli í stríði og hinir sem ekki eru í stríði séu heima að drepa konurnar sínar. Nei það er ekki sagt hreint út en það er gefið í skyn með hálfsannleika. Með því að gefa aðeins upp tölu þeirra kvenna sem hafa verið myrtar af mökum sínum en láta eins og það sé algerlega óþekkt að karlar séu myrtir hvað þá að konur drepi maka sína. Það er lygi. Samkvæmt þessari skýrslu eru konur 41% makamorðingja og karlar 47% þeirra sem falla fyrir hendi maka síns.
Karlar drepa oftar en konur og karlar eru mun líklegri til að falla fyrir hendi annars karls en fyrir hendi konu. Samkvæmt þessari samantektarrannsókn voru tæplega 33% þeirra kvenna sem voru myrtar í Bandaríkjunum árið 2004 fórnarlömb karlkyns maka sinna en aðeins 3% þeirra karla sem voru myrtir féllu fyrir hendi konu sinnar eða kærustu. Það að konur myrði karla sjaldnar en karlar konur segir þó ekki allt. Hátt á sautjánda þúsund morða eru framin í Bandaríkjunum árlega og þegar haft er í huga að milli 70% og 80% manndrápsfórnarlamba eru karlar er hugmyndin um „stríð gegn konum“ fremur langsótt.
Heimskan sem handbendi
Enda þótt allir sem kæra sig um það sjái í gegnum hatursáróður af þessu tagi er hann síður en svo skaðlaus. Þótt við gerum okkur röklega grein fyrir lyginni situr tilfinningin eftir; tilfinningin um konuna sem hið eilífa fórnarlamb og karlinn sem ofdekraðan ofbeldismann. Látum það vera, okkur hlýtur að vera til þess treystandi sem hugsandi verum að stjórnast ekki af tilfinningu sem við vitum að er afleiðing af sóðalegum áróðri. En það er bara ekkert við því að búast í því flóði rangra upplýsinga og áróðurs sem á okkur dynur að allir sem sjá heimsku af þessu tagi staldri við og hugsi.
Myndin hefur nefnilega fræðilegt yfirbragð sem getur auðveldlega blekkt grunnhyggið fólk og hrekklaust. Hún lítur út eins og samantekt á tölfræðilegum staðreyndum. Eins og hún tilheyri rannsóknarskýrslu. Og það er einmitt þannig sem haturshreyfingar vinna; þær gera heimskuna að handbendi sínu, með því að ljá þvælunni úr sér fræðilegt yfirbragð.