Í gærkvöld hélt ég erindi í Friðarhúsinu. Efnið var nýnazismi. Ég gerði smá könnun fyrir sjálfa mig í tengslum við kvöldið. Ég hafði sérstaklega samband við 20 manns á fb til að vekja athygli á fundinum, 10 konur og 10 karla sem ég var handviss um að hefðu áhuga. Í tveimur tilvikum bað ég þá sem ég sendi póst að láta maka sinn vita líka.

3 karlar og 4 konur höfðu ekki svarað mér á sunnudag og 3 karlar og 6 konur höfðu afþakkað (ekki af áhugaleysi heldur vegna anna og/eða veikinda.) Ég bauð öðrum 6 körlum og 10 konum til viðbótar. Laust eftir miðnætti aðfaranótt mánudags höfðu 5 konur til viðbótar látið vita að þær kæmu ekki og 2 karlar voru óvissir. Ég bauð 5 konum og 2 körlum í viðbót með þessum litla fyrirvara.

Ég bauð semsagt sérstaklega 26 konum (þ.a. einni í gegnum maka) og 19 körlum (þ.a. einum í gegnum maka.)

Af þeim sem ég bauð mættu 6 karlar og þrjár konur. Af þeim sem sögðust ætla að mæta en mættu ekki var 1 karl og 1 kona. Ég taldi ekki aðra gesti en mæting var mjög góð og karlar greinilega í miklum meirihluta, það virðist ekki einu sinni þurfa að bjóða körlum sérstaklega til að þeir láti sjá sig á fundum grasrótarhreyfinga.

Spurningin er, hverjum er það að kenna að svo fáar konur mættu?

Þegar þetta er skrifað eru færslur dagsins skv bloggáttinni 80 greinar eftir karla, 23 eftir konur ef vefrit sem birta fréttir af öðrum miðlum og annað efni sem ekkert nafn er við eru ekki meðtalin. Vefirnir bleikt.is og Pjattrófurnar slaga hátt í að vega á móti öllum hinum.

Á hinni jafnréttissinnuðu Smugu eru bloggpistlar á fremstu síðu 14 eftir karla 6 eftir konur. Aðsendar greinar fremsta síða; fjórar eftir karla 3 eftir konur, restin ekki á hreinu. Á forsíðu fastra penna eru 9 greinar eftir karla, 1 eftir konu.

Spurningin er hverjum er það að kenna að konur birta svo miklu færri greinar en karlar?
Hildur Lilliendahl er enn ekki farin að lesa Fréttablaðið. Ég les það ekki heldur en ástæðan er nú aðallega sú að mér finnst lágt hlutfall af efni þess áhugavert.

Spurningin er þessi: Hverjum er það að kenna að konur eru svona lítið áberandi í Fréttablaðinu eða ef því er að skipta fjölmiðlum almennt?

Mynd: xxolaxx, Pixabay