Hver eru áhugamál kvenna ef ekki karlmenn og naglalakk? Um hvern fjárann ætti kvennaþáttur að fjalla ef ekki þetta tvennt, skreytt með barnauppeldi, blómarækt og innanhússhönnun?Hmmm… hvað með leiklist, sálarfræði, mannsheilann, menningu Grikkja til forna, heilbrigðiskerfið, þverflautur, verðbréfamarkaðinn, tígrisdýr, afríska matargerð og hellaskoðun?

Ja, sko jújú, konur hafa áhuga á þessu öllu saman en málið er að þetta eru allt saman efni sem höfða líka til karla og eiga þ.a.l. ekki heima í þætti sem á að markaðssetja fyrir konur.

Gott og vel konur hafa frekar áhuga á naglalakki en karlar. Þessvegna er ekki hægt að búa til sjónvarpsefni sem höfðar til kvenna nema gera naglalakk að þungamiðju. Á sama hátt einskorðast það sjónvarpsefni sem höfðar til karla við hraðskreiða bíla, vindla, fótbolta og lausgyrtar fegurðardísir.

Eða hvað?

Af einhverjum ástæðum virðist ríkja meiri tilhneiging til að tala um konur sem markhóp en karla. Karlar eru allskonar og hafa allskonar áhugamál. Konur aftur á móti, þær eru konur fremur en persónur. Maður heyrir t.d. sjaldan talað um karlaráðstefnur enda þótt fjöldinn allur sé haldinn af ráðstefnum þar sem stór meirihluti bæði frummælenda og gesta eru karlar og viðfangsefnið sé viðskipti, hátækniiðnaður eða önnur svið þar sem karlar eru í meirihluta. Við notum frekar heiti sem tengjast viðfangsefninu, t.d. iðntæknisýning eða viðskiptaþing þar sem karlar eru ríkjandi.

Ég held að fáir karlar létu það fara í taugarar á sér að heyra talað um fá og þröng svið sem áhugamál karla. Ég er efast að margir myndu kippa sér upp við það þótt auglýstur yrði sjónvarpsþáttur um allt sem karlar hafa áhuga á, svo sem billjard, bíla og skverlegar skvísur. Já reyndar yrði ég ekki hissa þótt meiri viðbrögð kæmu frá konum. Af hverju fer það þá svona fyrir brjóstið á mér að heyra talað um naglalakk sem áhugamál kvenna?

Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að við tölum miklu frekar um konur sem einhverskonar heild. Karlar eru skilgreindir eftir störfum sínum. Þeir eru vísindamenn, verkamenn eða tónskáld áður en þeir eru karlar. Konur eru hinsvegar fyrst og fremst konur en svo getur konan kannski líka verið vísindamaður, verkamaður eða tónskáld, svona þegar naglalakkið er þornað.

Karlar eru norm. Að tala um áhugamál karla er nánast eins og tala um áhugamál fólks. En ætli það myndi samt ekki vekja viðbrögð ef kynntur yrði sjónvarpsþáttur sem fjallar um „allt sem iðnaðarmenn hafa áhuga á, svosem fótbolta, bíla og klám“?

Nei, þetta er kannski ekki alveg sambærilegt en kemst samt nálægt því. Kona er ekki norm á sama hátt og karl. Við erum ennþá „the second sex“ og sumar okkar eru að verða dálítið pirraðar á því.