Ung að árum lærði ég þjóðkvæði sem mér fannst álíka óhugnanlegt og Ókindarkvæði. Það hefst á línunni einum unni ég manninum og segir sögu ungrar stúlku sem á sér elskhuga í meinum. Faðir hennar kemst að því, ber hana hrottalega og gefur hana svo ríkum manni. Sá ríki verður besti vinur hennar og hún sem áður spann hör á torg og bar um nætur napra sorg, spinnur á daginn silki og lín og hvílir í örmum herra sín um nætur. Heppin!

Það sem mér fannst svo óhugnanlegt við kvæðið var ekki lýsingin á barsmíðum föðurins eða það að hún hefði verið gefin gegn vilja sínum, heldur hitt að kvæðið virtist ort í uppeldisskyni, til að kenna ungum konum að sætta sig við nauðungarhjónabönd. Um 13 ára aldurinn var ég viss um kvæðið væri eftir karl því mér fannst fráleitt að nokkur kona gæti hugsað á þennan hátt. Síðar áttaði ég mig á því að karlar ortu ekki um reynsluheim kvenna, þetta er sennilega kvæði eftir konu sem hefur gengið í gegnum eitthvað svipað en sætt sig við aðstæður sínar. Það er nefnilega það sem fólk sem býr við nauðung gerir, það sættir sig við það sem það sem það fær ekki breytt.

Í vetur dundaði ég mér við að þýða skáldsögu. Sögu konu sem er þvinguð í hjónaband en lærir að sætta sig við það. Eiginmaðurinn reynist hinn mesti afbragðsmaður sem ber hana á höndum sér og sambúðin er á margan hátt góð. Eftir hálfrar aldar hjónaband er hún m.a.s. farin að elska hann pínulítið.

Ég býst við að þetta sé þannig í löndum þar sem nauðungarhjónabönd tíðkast, fólk sættir sig bara við þau. Nema sumir. Og það er þessvegna sem við Íslendingar getum valið okkur maka án afskipta fjölskyldunnar; vegna þess að í gegnum tíðina hafa verið til hugrakkir einstaklingar sem sættu sig ekki við það, fólk sem neitaði, fólk sem flúði að heiman til að forða sjálfu sér frá slíkum örlögum.

Í Nepal er enn við lýði sá hugsunarháttur að ef konu sé tryggt efnislegt öryggi megi láta hamingju hennar í hjónabandi liggja á milli hluta. Að nauðungarvændi sé bara allt í lagi, allavega ef kúnninn er sá sami á hverjum degi. Þessi hugsunarháttur var líka við lýði á Íslandi á sínum tíma en sá tími er liðinn. Allsstaðar nema hjá útlendingastofnun, sem sér ekkert athugavert við ofbeldi og kúgun, svo fremi sem óhæfan beinist gegn útlendingi.

Versta tegund kynþáttahyggju er ekki sú sem kastar grjóti, heldur sú prúða en illa dulda aðskilnaðarstefna sem ávallt metur þægindi Vesturlandabúans meir en velferð, mannréttindi og jafnvel líf ‘hinna’. Sú tegund kynþáttahyggju sem tekur hvaða ranglæti sem vera skal upp á arma sína ef það getur mögulega þjónað því markmiði að staðfesta yfirburðastöðu hinna hvítu, ríku og voldugu. Jafnvel viðhorf sem ekki hafa verið við lýði á Íslandi í meira en hundrað ár. Það er sú tegund kynþáttahyggju sem gegnsýrir alla starfsemi útlendingastofnunar.