Maður sem lögreglan vill gjarnan fylgjast náið með ef því verður við komið, kemur að máli við unga konu og býður henni vinnu í útlöndum. Yfirvaldið sjálft, sem er eingöngu undir sínu eigin eftirliti, sendir ungum manni bréf og boðar hann til vinnu í útlöndum.

Vinnan sem ungu konunni er boðin er á gráu svæði gagnvart lögunum og því hugsanlegt að hún standi illa að vígi ef hún er beitt órétti. Vinnan sem ungi maðurinn er kvaddur til felur í sér löglegt leyfi yfirmanns hans til að beita hann aga sem í skársta falli jaðrar við líkamlegt ofbeldi.

Unga konan getur afþakkað boðið en sér þennan kost sem leið út úr fátækt sinni. Ungi maðurinn á yfir höfði sér refsingu ef hann neitar að taka starfinu og finnst það því varla koma til greina enda þótt hann lækki í launum við það.

Vinnan sem ungu konunni stendur til boða hefur í för með sér áhættu á því að vinnuveitandinn hafi hana undir hælnum og hún getur átt erfitt með að óhlýðnast honum. Vinnan sem ungi maðurinn er skyldugur til að gegna er þess eðlis að hann getur nánast enga sjálfstæða ákvörðun tekið og óhlýðni við yfirmann er einfaldlega ólögleg.

Vinnan sem unga konan hugleiðir að þiggja hefur í för með sér betra aðgengi að vímuefnum og aukna hættu á því að verða fyrir öllum tegundum ofbeldis. Vinnan sem ungi maðurinn er skyldugur til að gegna, hefur í för með sér aukna hættu á slæmum geðsjúkdómum, varanlegri örorku og dauða.

Unga konan getur kært vinnuveitanda sinn til lögreglu ef hann brýtur gegn mannréttindum hennar. Ungi maðurinn getur kært vinnuveitanda sinn til hans sjálfs ef hann brýtur gegn mannréttindum hans.

Vinnan sem ungu konunni býðst er þess eðlis að hún getur reiknað með að samfélagið fordæmi hana sem siðlausa, sjúka eða viljalaust fórnarlamb ef hún þiggur hana. Vinnan sem ungi maðurinn er boðaður til er þess eðlis að hann getur reiknað með að vera álitinn heigull, föðurlandssvikari eða félagslegur öryrki ef hann hafnar henni.

Vinnan sem ungu konunni stendur til boða felst í því að fara úr brókinni fyrir framan ókunnuga karla. Vinnan sem ungi maðurinn er skyldugur til að gegna felst í því að drepa fólk.

Annað þeirra er álitið þræll, hitt hetja og sannast þar hið fornkveðna að fólk er fífl.