Ég var mjög ung þegar ég þvældi mér í ástarsamband við mér eldri mann. Ég var dauðástfangin af honum og hann kom illa fram við mig. Særði mig oft og illa. Ég held reyndar að þetta samband hafi sett varanlegt mark á mig. Það er samt fyrst núna sem það er að renna upp fyrir mér að með þeirri hegðun sinni að standa í kynlífssambandi við ástfanginn ungling, án þess að ætla að giftast mér og eignast með mér börn, var maðurinn í raun að beita mig kynferðisofbeldi.
Löngu síðar varð ég yfir mig ástfangin af mér yngri manni sem dömpaði mér. Ég var þá búin að ganga í gegnum ákveðin áföll og var ekki í ástandi til að takast á við ástarsorg. Sorgin í mér vakti upp gamalt trauma og ég var lengi að jafna mig. Lengi leit ég svo á að maðurinn væri tllitslaus asni en að viðbrögð mín ættu sér fyrst og fremst skýringu í flóknu samspili meiddrar sjálfsmyndar og afleiðingum gamalla áfalla. Það er fyrst nú sem ég er að átta mig á því að í raun og veru var þetta ofbeldissamband.
Nótt eina fyrir langalöngu vaknaði ég í vitlausu rúmi. Blindfull og við hliðina á einhverjum manni sem ég hefði sennilega ekki farið með heim með ef ég hefði verið edrú. Mig rámaði óljóst í að hafa slagað flissandi upp í leigubíl með manni sem sjálfur var slagandi. Ég panikeraði. Klæddi mig í ofboði og fór án þess að kveðja, hafði ekki hugmynd um hvar í bænum ég var stödd og var nokkra stund að átta mig á því. Ég afskrifaði þennan atburð sem fylliríisrugl og reiknaði með að maðurinn hefði verið með dómgreindina á svipuðu stigi og ég sjálf. Nú er ég hinsvegar búin að læra að aðeins konur missa dómgreindina við óhóflega áfengisneyslu. Konur verða bjánar af því að drekka og því ennþá ófærari um að afþakka kynlíf en venjulega, karlar verða hinsvegar ennþá ofbeldisfyllri en venjulega. Það er því fyrst núna sem ég geri mér grein fyrir því að þarna fór fram nauðgun. Hvort okkar nauðgaði hinu er svo hugsanlega vafamál en þar sem ég var ósátt við þetta eftir á hefur hann væntanlega nauðgað mér.