Það er sko vegna þess að litlar telpur hafa oftar áhuga á brúðum og litlir drengir á bílum. Steríótypísk fullorðin kona vill eiga bíl til að komast á milli staða, steríótýpískur karlmaður vill eiga bíl af því að það gleður hjarta hans. Sú hin sama kona kjáir framan í smábörn og finnst þau yndisleg í eðli sínu. Karlinn álítur sitt eigið barn reyndar fullkomnustu veru í heimi en fær ekkert sérstakt kikk út úr því að þrífa botninn á börnum vina sinna.

Ég veit ekki hversvegna þetta er svona og þegar Haukur fæddist trúði ég því staðfastlega að þetta væri eingöngu uppeldislegt. Ég skipti um skoðun 7 árum síðar. Mínir drengir áttu nefnilega brúður og þeir léku sér heilmikið að þeim. Ekki reyndar með því að klæða þær, mata og bía þeim í svefn, heldur voru þær notaðar sem fangar í indiánaleik.