Svei okkar samfélagi sem hlutgerir lifandi manneskjur, jafnvel heilu samfélagshópana.

Svei þeim sem framleiða íþróttastjörnur, poppstjörnur, kvikmyndastjörnur, fegurðardísir, america’s-next-top-model, viðskiptajöfra og tölvunörda. Hvað er Jón Gnarr í hlutverki Lýðs Oddssonar annað en tákn fyrir taumlausa efnishyggju, eyðslusemi, eigingirni, innistæðulausa sjálfumgleði byggða á auðæfum sem hann fékk upp í hendurnar án þess að hafa nokkuð fyrir þeim sjálfur? Er Lýður Oddsson trúverðug ímynd? Ónei, hann er ýkt staðalmynd, erkitýpa búin til til þess að kitla hégómagirnd okkar. Við viljum allt sem Lýður Oddsson hefur en erum þess samt fullviss að við séum ekki alveg jafn lágkúruleg.

Jón Gnarr kann að halda því fram að hann hafi tekið hlutverk Lýðs að sér sjálfviljugur og að hann sé ánægður í starfi plebbaleikarans. En hafði hann nokkurt raunverulegt val þegar honum bauðst þetta hlutverk? Er ekki maðurinn gjaldþrota vesalingur sem hlýtur að taka hverju verkefni fagnandi? Athugum líka að þarna fékk Íslensk getspá til liðs við sig mann sem opinberlega hefur lýst því yfir að hann hafi misst stjórn á fjármálum að því marki að það verði að teljast sjúklegt. Þarna er því verið að níðast á veikleika manns sem á við geðsjúkdóm að stríða. Mótmælum harðlega þeirri misnotkun sem aðstandendur Íslenskrar getspár beittu Jón Gnarr með því að tæla hann með gylliboðum til að koma fram sem hinn dæmigerði plebbi, handbendi kapítalisma og karlrembu. Látum ekki viðgangast að gróðapungar fái óáreittir að hösla fórnarlömb úr röðum íslenskra skuldasafnara.

Jón Gnarr kann að halda því fram að hann vilji alls ekki láta bjarga sér frá þessu hlutverki en látum ekki blekkjast af hans áliti. Margt bendir nefnilega til þess að þeir sem missa stjórn á efnishyggjunni í sér á fullorðinsárum hafi hlotið skaðlegt viðhorf til fjármála með uppeldinu. Hugsanlega hafa foreldrar Jóns litla spillt honum með ofdekri eða það sem verra er, vanrækt hann tilfinningalega og reynt að bæta það upp með efnislegum hlutum. Látum ekki fórnarlamb vanrækslu og ofdekurs ákveða sjálft hvaða starfsvettvang það velur sér á fullorðinsárum.

Íslendingar sameinumst: Björgum Jóni Gnarr úr viðjum siðspillandi og niðurlægjandi hlutverks efnishyggjuplebbans.

—————————–

Á þeim tíma sem þetta var ritað stór Jón Gnarr í heilagri herferð gegn klámi. Hafði m.a. sett upp dagskrá í Borgarleikhúsinu sem var sérstaklega beint gegn klámi.