Vilhjálmur er samt ennþá bjánakeppur

Það ku víst vera alveg ægilega ólöglegt að kalla mútur mútur og óþokka óþokka. Ég má því ekki kalla Gunnar Birgisson holdtekju valdhroka og spillingar, Heiðar Má dyndilmenni eða óhóflegar styrkveitingar frá hagsmunaaðilum mútur. Það er kolólöglegt að segja svoleiðis og ekki viljum við nú brjóta lögin.

Hugsanir og tilfinningar eru hinsvegar ekki ólöglegar og varla hægt að lögsækja mig fyrir þær.

Orðið mútur er það fyrsta sem kemur upp í huga minn þegar ég sé þessa upptalningu. Skilji nú enginn orð mín á þann veg að ég sé að brigsla Guðlaugi Þór um mútuþægni. Þetta eru ekki einu sinni meintar mútur eða grunur um meintar mútur, ég er aðeins að tjá mín eigin hugrenningartengsl.

Ég hef sagt að Gunnar Birgisson sé spilltur og haldinn valdhroka. Ég get ekki sagt að ég finni til iðrunar en batnandi konu er best að lifa og nú hyggst ég fara að lögum. Ég er því hætt að fullyrða að hann sé það sem mér finnst hann vera en ef ég væri myndlistamaður myndi ég búa til holdlistaverk úr rotnu kjöti, láta það minna á Gunnar og kalla það ‘hugarburð minn um holdtekju spillingar og valdhroka’. Varla er hægt að banna hugarburð eða hvað?

Ég get heldur ekki fullyrt að Heiðar Már sé dyndilmenni. Hitt er svo annað mál að kvæðið um Trínu litlu tindilfættu er eitt af mínum uppáhalds barnakvæðum og þegar ég syng línuna ‘drifhvít hjörðin fram hjá streymir og dillar smáum dyndlum’ sé ég sauðmúgann fyrir mér í líki hjarðar og forystusauðirnir hafa andlit nokkurra ríkra kalla úr bönkum og viðskiptalífi. Á meðal þeirra er golsótt skjáta með andlit Heiðars Más, og hún leiðir hjörðina beint ofan í gjótu, dillandi dyndlinum sínum litla. Ætli sé hægt að lögsækja fólk fyrir að segja frá þessháttar sýnum?

Neinei, ég fullyrði ekki framar að menn séu það sem mér finnst þeir vera, því ekki viljum við nú eyða tíma dómstóla í tittlingaskít. Ég fullyrði því ekki að Heiðar Már sé dyndilmenni, enda þótt ég sjái hann þannig fyrir mér.

Ég fullyrði hinsvegar að Vilhjálmur Egilsson sé bjánakeppur. Mér finnst það nefnilega svo augljóst að ég treysti því að jafnvel íslenskir dómsstólar (sem í mínum hugmyndaheimi eru gjörspilltir, án þess að ég gerist slíkur lögbrjótur að fullyrða að þeir séu það í hinum raunverulega raunveruleika) kæmust að sömu niðurstöðu.

 

One thought on “Vilhjálmur er samt ennþá bjánakeppur

  1. ——————————-

    Vel að orði komist.

    Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 29.04.2011 | 11:31:18

Lokað er á athugasemdir.