Áramótaheitið

Ég hef alveg staðið við að taka myndir en þær eru allar ömurlegar og mig langar ekki að birta þær. Lét mig hafa það fyrstu dagana af því að ég hélt að ég þyrfti bara að læra á vélina og ætlaði ekki að finna mér neina afsökun. En það er ekki ég sem er vonlaus. Borghildur kom í gær og sannreyndi að það er myndavélin sem er drasl. Við erum að fara heim í dag og þar er betri sími með myndavél sem er örugglega töluvert betri. Það er reyndar frekar fúlt að alla daga það sem af er árinu hef ég haft eitthvert tilefni til að mynda og má búast við að það verði heldur minna um hopp og hí á næstu vikum en ég verð þá bara að taka myndir af Einari.

Ég er ekkert að flytja til Íslands

Síðustu tvo daga hafa margir komið að máli við mig. Ekki samt til að hvetja mig til að fara í framboð heldur til að spyrja hvort við Einar séum að flytja til Íslands, svona í ljósi þess að hann ætlar að gefa kost á sér í prófkjöri, hjá Pírötum að sjálfsögu.

Ég er í skóla hér í Glasgow og er ekkert að flytja til Íslands í vetur að minnsta kosti. Ef svo fer að Einar lendi á þingi þá verður hann auðvitað að flytja til Íslands og ég á þá frekar von á því að ég yrði þar næsta vetur. Mig langar ekkert til þess en mig langar heldur ekki að vera langtímum án hans.