Morgunsól

Morgunsól

Er ég vakna við morgunsól,
verma geislar hennar augnlokin
og flæða inn í huga minn.

Birtu stafar á brumuð tré,
brjóta knappa þeirra laufin græn
og ilma af ferskri morgunbæn.

#Ég er sáttur við sjálfan mig.
Ég er sáttur við sjálfan mig,
og morgunsólina og þig.#

Syngja fugler sinn fagra söng,
fljúga heim í mó með grös og strá,
í lautum flétta hreiður smá.

Syndir lonta í silfurlæk
sólarkossum stirnir tæran hyl
er gárar flötinn af og til.

#Ég er sáttur við sjálfan mig.
Ég er sáttur við sjálfan mig,
og alla veröldina og þig.#

Angar moldin af morgundögg
mjúka körfu teygir blóm mót sól
og blærinn strýkur grund og hól.

Greiðir stúlka sitt gullna hár
geislar augna hennar verma brá
og vekja í mér nýja þrá.

Gímaldin samdi síðar annað lag við þennan texta.

Pandóra

Í nótt, þegar vötn mín vaka
og vindur í greinum hvín
og þúsund raddir þagnarinnar kvaka
hve ég þrái að opna sálar minnar skrín.

Og leysa úr viðjum angist, sorg og efa
uns ólguveður hvata minna dvín.

Og ást mína drepa úr dróma
eitt dulbúið sálarmein,
þá frelsissöngvar feigðarinnar hljóma
meðan fuglinn situr kyrr á birkigrein.

Þar hreiður sitt hann sterkum grösum greipir
sem græða þúfu, moldarbarð og stein,

við djúp minna dularsýna
um deyjandi fjallajurt.
Þó vil ég ekki opna vitund mína
því að vonin gæti líka flogið burt.

Löngu síðar gerði Gímaldin annað lag við þennan texta.

Fönix

Hvers er vert að kunna og skilja
hvað þig langar, hvert þig ber?
Ef þú þekktir eigin vilja
einfalt reyndist lífið þér.

Þegar þú sérð fuglinn fljúga
fjöllum ofar, mundu það
að alltaf mun hann aftur snúa
á sinn gamla hreiðurstað.

Fornra þjóða eiga fræði
fugl sem æðra frelsi kýs
og þótt í eldinn beint hann æði
úr öskunni hann aftur rís.

Þótt hann brenni bálið heita
birta sólar dregur hann,
eins og þá sem logans leita,
lífið sjálft þeim fugli ann.

Þér í hjarta þrálátt tístir
þessi fugl sitt frelsisstef
og veröldin að vonum þrýstir
vinarkossi á þitt nef.

Gímaldin samdi síðar lag við þetta kvæði og gaf út.