Má karl flengja konu sína ef hún undirritar samkomulag?

Til er fólk sem setur ofbeldisskilmála inn í hjúskaparsáttmála sinn. Eða kannski er ofbeldi ekki rétta orðið, þar sem ekki er um ofbeldi að ræða þegar upplýst samþykki liggur fyrir. Líkamleg tyftun verður nú samt ofbeldi um leið og viðfang meiðinganna dregur samþykki sitt til baka, þannig að jú, við getum kallað þetta ofbeldisskilmála.

Ég er að vísa til svokallaðra CDD sambanda. Skammstöfunin stendur fyrir „Christian Domestic Discipline“ eða „kristilegan húsaga“. Hugmyndin á bak við þetta fyrirbæri er sú að Gvuð hafi gefið eiginmanninum húsbóndavald yfir fjölskyldu sinni. Karlinn er í leiðtogahlutverki á heimilinu. Honum ber að elska konu sína og fórna sér fyrir hana og hann ber ábyrgð á velferð hennar, öryggi og framfærslu. Hann ber einnig ábyrgð á hegðun hennar að sama marki og foreldrar bera ábyrgð á hegðun barna sinna. Samkvæmt þessari hugmyndafræði ber karlinum einnig skylda til að setja konu sinni reglur og vald til að fylgja ákvörðunum sínum eftir. Konunni ber að lúta húsbóndavaldi og ef hún óhlýðnast fyrirmælum síns ektamaka, eða sýnir honum ekki tilhlýðilega virðingu, er það húsbóndaskylda hans að refsa henni, venjulega með flengingu.

Á netsíðum af þessu tagi er fullyrt að þessi lífsstíll snúist ekki um erótískan leik, heldur raunverulegt húsbóndavald. Neðst á þessari síðu má meira að segja finna leiðbeiningar um það hvernig karlinn eigi að bera sig að við flenginguna ef konan er ekki samvinnuþýð.

Ég reikna með að þeir séu til sem taka svona sambönd alvarlega og efist ekki um rétt húsbóndans til að hirta konuna gegn vilja sínum enda hafi hún gengið sjálfviljug inn í slíkt samband. Samt sem áður heitir það ofbeldi, því lögum samkvæmt má ekki lemja fólk gegn vilja þess. Má þá einu gilda hvað Gvuð hefur um málið að segja; við erum að tala um vestrænt réttarkerfi og Gvuð ræður ekki hér. Kona sem sætir refsingu sem hún frábiður sér, getur því leitað til dómstóla og beri eiginmaðurinn á þá leið að hann hafi  flengt hana samkvæmt sínum húsbóndarétti, verður hann fundinn sekur um ofbeldisverk, jafnvel þótt konan hafi skrifað undir ævilangt samkomulag um að undirgangast refsingar samkvæmt hans ákvörðun. Slíkir gjörningar hafa einfaldlega ekkert gildi fyrir dómi. Það sem er slæmt við svona samninga er að mannleg tilhneiging til að virða samkomulag verður til þess að  fáar konur í þessari stöðu leita til dómstóla.

Fyrir mörgum árum tók ég íbúð á leigu. Í samningnum stóð skýrum stöfum „leigan skal ekki gefin upp til skatts“. Leigusalinn vildi endilega hafa þetta inni, til þess að hafa réttinn örugglega sín megin. Ég skrifaði bara undir. Hvað haldið þið að hefði gerst ef ég hefði þinglýst samningnum og gefið leiguna upp?

Það væri hægt að finna mörg fleiri dæmi um samkomulag sem hefur ekkert lagagildi, en ég læt þetta duga í bili.

Notendaskilmálar Snjáldurskinnu 

Þegar fólk ákveður að nýta sér þjónustu netfyrirtækja, t.d. samskiptavefja á borð við Facebook, samþykkir það ákveðna notendaskilmála. Yfirleitt er þessum skilmálum ætlað að tryggja að fyrirtækið verði ekki gert ábyrgt fyrir misnotkun og að undirstrika einkarétt fyrirtækisins á vörumerki og öðrum auðkennum.

Hvað Facebook varðar má strangt til tekið túlka notendaskilmála á þann veg að um leið og maður skráir sig inn á vefinn sé allt sem maður hleður inn eða deilir orðið eign fyrirtækisins. Margir virðast trúa þessu. Af og til koma upp tröllasögur um að Facebook ætli sér að selja auglýsendum fjölskyldumyndirnar okkar  og er viðvörunum dreift samviskusamlega, dögum saman.

En það skiptir engu máli hvaða notendaskilmála maður kann að hafa undirritað; Facebook er kannski okkar tíma Gvuð en Facebook er nú samt sem áður ekki löggjafi. Facebook getur ekki selt myndirnar okkar af því að það stenst ekki lög.

Má birta skjáskot?

Í umræðu síðustu daga hefur borið töluvert á því sjónarmiði að þar sem Facebook sé einkafyrirtæki hafi það rétt til að setja notendum reglur um það hvað megi og megi ekki gera á vefnum. Facebook sé í fullum rétti með að takmarka aðgang Hildar Lilliendahl, þar sem hún hafi brotið gegn umgengnisreglum með því að birta skjáskot.

Reglur um birtingu skjáskota eru settar í þeim tilgangi að vernda höfundarrétt og friðhelgi einkalífs. Ég efast um að Facebook sé lagalega stætt á því að banna fólki að birta skjáskot, þegar tilgangurinn er augljóslega bein tilvitnun. Það getur verið ástæða til að birta skjáskot frekar en að hafa texta beint eftir innan gæsalappa, því myndræn framsetning, svo sem uppsetning texta, broskallar og aðrar myndir, fjöldi „læka“ og fleira, er æ sterkara einkenni á netsamskiptum og þessir þættir geta haft merkingu. Það er í öllu falli umdeilanlegt hvort reglur Facebook um þetta standast fyrir lögum. Það er þó ekki fyrir neina aukvisa að ætla að fá úr því skorið þar sem Facebook nýtur þess valds sem felst annarsvegar í ríkidæmi og hinsvegar í því að vera ómissandi; Facebook getur auðveldlega ráðið allt Boston Legal liðið í sína þjónustu og þeir eru áreiðanlega margir sem nota þennan samfélagsvef minna en Hildur Lilliendahl sem frekar myndu beygja sig undir reglur en eiga á hættu að yrði lokað á þá, jafnvel þótt þeir hefðu fjárhagslega burði til að standa í málaferlum.

 Facebook er opinber umræðuvettvangur

Það skiptir ekki nokkru máli hvort Facebook er einkafyrirtæki eða eitthvað annað; það er samt opinber fjölmiðill. Margt bendir til þess að pólitísk ritskoðun eigi sér stað hjá Facebook, og nei, það er ekki eins og ef Sigurjón bannar gestum að bölva heima hjá sér eða ef Sambíóin henda gestum út ef þeir eru með háreysti. Pólitísk ritskoðun felur nefnilega alltaf í sér mismunun á ómálefnalegum grundvelli og slík mismunun er bönnuð. Hún brýtur meira að segja í bága við mannréttindasáttmála. Fólk getur ekki afsalað sér rétti sínum til að birta pólitísk skilaboð á Facebook, allavega ekki á meðan pólitísk skilaboð hafa ekki verið vandlega skilgreind.

Ég veit ekki hvort netfyrirtæki er lagalega stætt á því að banna fólki að birta skjáskot. Hitt veit ég að Facebook er í dag vettvangur fyrir opinbera umræðu hvort sem Facebookgvuðinn ætlast til þess eður ei. Stöðuuppfærslur og samskipti á veggjum þekktra einstaklinga rata reglulega í fréttir og jafnvel þótt Facebook geti refsað notendum sínum fyrir að birta skjáskot á Facebook-vefnum sjálfum, er ótrúlegt að hægt yrði að lögsækja einhvern fyrir að birta sama efni á öðrum vettvangi ef tilgangurinn væri augljóslega að sýna beina tilvitnun.

Mannréttindavillan

Síðustu daga hef ég einnig rekist nokkrum sinnum á rökin; það eru ekki mannréttindi að vera á Facebook og þessvegna á fólk bara að hlýða skilmálum eða hypa sig eitthvert annað.

Ég veit ekki hvort er til fræðiheiti yfir máflutning af þessu taki en ég hef kallað þessi rök „mannréttindavilluna“. Hugmyndin er þessi; ef það er ekki heilagur réttur þinn þá má yfirvaldið bara fara sínu fram. Fleiri dæmi um þessa undarlegu rökvillu: Það eru ekki mannréttindi að hafa aðgang að áfengi, þessvegna á ekki að vera bar á Hrafnistu. Það eru ekki mannréttindi að eiga börn, þessvegna á staðgöngumæðrun að vera ólögleg. Þetta eru svo vond rök að ef ég ætti að útskýra í smáatriðum hvað er athugavert við þau, yrði þessi pistill ekki undir 10.000 orðum. Í bili læt ég nægja að benda á að það hefur enn ekki verið skilgreint sem mannréttindi að hafa aðgang að fæðu. Þar með hlýtur yfirvaldið að mega banna okkur að rækta jörðina, eða hvað?

Nauðsyn þess að setja lög um netmiðla

spankÞótt þess sé ekki getið í mannréttindasáttmálum gegnir aðgangur að samfélagsumræðu mikilvægu hlutverki fyrir lýðræði og upplýsingafrelsi. Stórfyrirtæki reyna stundum að setja tjáningar- og upplýsingafrelsi skorður með alls kyns þvingunaraðgerðum, jafnvel ólöglegum.  Þess er t.d. skemmst að minnast að greiðslukortafyrirtæki neituðu að taka við greiðslum til Wikileaks.

Fleiri þvingunaraðgerðir af pólitískum toga viðgangast; ég veit þess dæmi frá Bretlandi að greiðslur inn á stuðningsreikning Bradley Manning hafa verið stöðvaðar hvað eftir annað enda þótt sami viðskiptavinur hafi ekki lent í vandræðum með neinar aðrar greiðslur. Tilviljun? Við getum víst lítið fullyrt um það en engar skýringar hafa fengist.

Þegar valdastrúktúr samfélagsins breytist myndast þörf fyrir nýjar reglur. Reglur sem setja hinum voldugu mörk og skikka þá til að virða réttindi annarra. Löggjafinn hefur komið því svo fyrir að ef fólk skrifar undir samninga um að það afsali sér rétti til launa og hvíldar, eða lofi því að gefa leiguna ekki upp til skatts, hafa slíkir gerningar ekkert lagagildi. Sé það rétt sem margir hafa haldið fram á síðustu dögum að Facebook sé stætt á því að skerða tjáningarfrelsi umfram þær takmarkanir sem lög kveða á um, þar sem notendur hafi undirgengist skilmála fyrirtækisins, þá þarf að setja lög sem gera þá skilmála jafn fráleita og samkomulag hjóna um að eiginmaður megi flengja konu sína.

En það verður kannski ekki gert nema almenningur mótmæli því alræðisvaldi sem þetta fyrirtæki er að reyna að taka sér.

 

5 thoughts on “Má karl flengja konu sína ef hún undirritar samkomulag?

  1. Ég held að tilurð þessarar reglu sé mun einfaldari en flestir hafa verið að giska á, og sé gróflega hægt að skipta í tvennt.

    1. Að taka skjáskot af ummælum annars notanda og endurbirta sniðgengur allar aðgangsstýringar viðkomandi notanda.
    2. Það er ekki hægt fyrir Facebook að þýða og yfirfara texta af skjáskotum.

    Varðandi #1, þá er ekki óskiljanlegt að Facebook vilji sem best tryggja að þær aðgangsstýringar sem notendur velja sér séu virtar af öðrum notendum, innan lögsögu Facebook (þeim er slétt sama hvar annars staðar menn pósta þeim). Jafnvel þó almenn skynsemi segi okkur öllum að aðgangsstýringar séu á endanum engin trygging fyrir leynd og að allt sem fer á internetið, hvar sem það annars er, sé de facto á opinberum vetvangi. Að auki eru svona birtingar örugglega algeng uppspretta klögumála og deilna, sem Facebook hefur engin tök á að leysa fyrir fólk af öllum þjóðernum, sem tala ótal tungumál, og hafa óteljandi málstaði og skoðanir að verja, sem starfsfólk Facebook hefur enga burði eða ástæðu til að setja sig inn í. Ekki má gleyma að enginn þessarra notenda borgar krónu fyrir aðganginn og er frjálst að vera annars staðar. Þjónustustarfsfólk kostar pening (sérstaklega þegar þú þarft fólk af mjög mörgum þjóðernum og vera með starfsstöðvar dreifðar víða) og Facebook er með milljarð notenda.

    Varðandi #2, þá eru skjáskot erfið að því leytinu að það er ekki einu sinni hægt að afrita textann af þeim og renna í gegnum þýðingarvél eða önnur forrit, þannig að jafnvel þó starfsfólk Facebook gæti eða nennti að taka afstöðu í skjáskotaklögum milli notenda, þá er það ekki vinnandi vegur. Sumir hafa bent á að sum þessarra skjáskota séu tekin úr kommentakerfum annara vefja sem notast við FB innskráningu og séu því opinber og sýnileg öllum, burtséð frá aðgangsstýringum, og að sumir séu með opinn vegg. En aftur, þá er ómögulegt að sannreyna það með góðu móti ef þú hefur bara skjáskot í höndunum. Ekki myndi maður nenna að setja upp kínverkt lyklaborð t.d. og reyna að apa eftir nafn af skjáskoti svo maður gæti flett viðkomandi notanda upp og séð hvar hann hefur póstað, eða til að þýða hvað þar stendur. Skjáskot eru þar að auki auðveld fórnarlömb falsara með aðgang að MS paint.

    Ég er nokkuð viss um að enginn hjá Facebook skilur íslensku eða hefur sett sig inn í deilur Hildar og eintakanna í albúminu. Ég held að reglan sé einfaldlega hugsuð út frá hagsmunum þjónustubatterís Facebook, og hönnuð til að afgreiða öll klögumál tengd skjáskotum á einu bretti.

  2. Mér finnst líka ótrúlegt að einhver hjá FB hafi sett sig inn í mál Hildar. Þar fyrir bjóða þessar reglur og einkum það að þeim sé framfylgt án þess að notandinn fái tækifæri til að tjá sig, upp á það að hópur taki sig saman um að klaga fólk út af fb.

    Mér er nákvæmlega sama þótt við borgum ekki fyrir aðganginn að fb, þetta fyrirtæki þrifist ekki án notenda. Það að einhver sé réttlaus á fb eftir uppákomu eins og þessa er svona svipað og ef manni væri meinaður aðgangur að Kringlunni fyrir að hafa hlaupið upp rúllustiga í þeim tilgangi að endurheimta stolið veski. Þú borgar ekki inn í Kringluna og þú mátt ekki hlaupa upp rúllustiga en það væri samt óréttlátt að fá á sig bann í slíku tilfelli.

  3. Samúð okkar skiptir þá eflaust litlu :). Þessar reglur eru einfaldasta og praktískasta lausnin sem þeir komast upp með eins og er. Þeir meta það þannig að þetta fæli ekki nógu marga frá til að það skipti þá máli og á meðan svo er halda þeir sínu striki.

    En svo held ég að fyrirtæki sem býður upp á gjaldfrálsa þjónustu í öllum löndum heimsins og er með milljarð notenda geti ekki boðið upp á mjög persónulega þjónustu eða staðið í að gerast dómarar í öllum deilumálum notenda. Það er einfaldlega ekki raunhæft og það er pínu erfitt að halda því fram að þeim beri skylda til þess. Það sama á við alla sýndarveruleikaheima á netinu og vefsíður.

  4. Já það er líklega réttast að sætta sig bara við veldi stórfyrirtækja og vera ekkert að reyna að koma áliti sínu til skila. Því færri maurar sem trufla risann því meiri frið hefur hann til þess að stjórna heiminum.

Lokað er á athugasemdir.