Loksins, loksins!

Ég hef gagnrýnt feminista harðlega á síðustu árum. Ég hef gagnrýnt hugmyndafræðina en rauði þráðurinn í henni er sú skoðun, að skýra megi nánast öll vandamál samfélagsins í ljósi þess að karlar sem hópur vilji kúga konur. Ég hef líka gagnrýnt baráttuaðferðirnar sem einkennast annarsvegar af gölluðum rannsóknaraðferðum og rangtúlkun gagna og hinsvegar af ofstækisfullum árásum á þá sem ekki eru sammála feministum.

En nú kveður skyndilega við nýjan tón. Á miðvikudagskvöld hóf göngu sína útvarpsþátturinn Kynlegir kvistir á útvarpsstöðinni X-inu. Þáttastjórnendur eru tvær ungar konur sem kenna sig við feminisma og þema þáttarins er kynjapólitík, kynjafræði og kynlíf. Þær heita Anna Tara Andrésdóttir og Katrín Ásmundsdóttir.

annatara2

Í þessum fyrsta þætti buðu þær tveimur karlmönnum, stjórnendum þáttarins Harmageddon, að segja álit sitt á feminisma. Þeim félögum Frosta og Mána lá mikið á hjarta og kom fram í máli þeirra að þeim þættu þeir feministar sem leitt hafa umræðuna síðustu ár, hneigjast til pólitískrar rétthugsunar og vinna gegn bættum samskiptum kynjanna. Ég get sannarlega tekið undir það með þeim. Feministar hafa ekki sýnt mikinn áhuga á því að eiga samræðu við samfélag sitt heldur hafa þeir sett sig í hlutverk predikarans og reynt að stjórna allri umræðu um kynjamál. Það er því fagnaðarefni og kemur ánægjulega á óvart að konur sem kenna sig við feminisma skuli láta það verða sitt fyrsta verk í nýjum útvarpsþætti að spyrja karla álits, án þess að gera neina tilraun til að snúa út úr orðum þeirra eða finna á þeim höggstað.

Næsti viðmælandi var Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður Feministafélagsins. Hún fékk áhugaverðar spurningar. Ekki spurningar sem bjóða upp á hugleiðingar um það hvað konur eigi voðalega bágt, heldur spurningar um sýn feminista á sjálfa sig, til dæmis, hvort felist hræsni í því að tala gegn útlitsdýrkun en vilja samt líta vel út og hver hafi valdið til þess að skilgreina feminisma. Spurningar sem vekja von um að innan feministahreyfingarinnar sé að vaxa afl sem er tilbúið til að endurskoða hugmyndir sínar og orðræðu og skoða áhrif menningarinnar á gjörðir okkar án þess að setjast í dómarasæti.

Þættinum lauk með erindi um endaþarmsmök. Ég álít sjálfa mig nú alveg sæmilega frjálslynda en ég játa að tepran í mér átti eilítið erfitt með þann kafla. Eða ekki bara eilítið erfitt, eiginlega frekar mikið erfitt. Sem er kannski einmitt merki um að ástæða sé til að opna þá umræðu. Við erum vön því að tengja endaþarmsmök við sóðaskap og hrottalegt kynlíf. Kannski er þarft verk að endurskoða þá afstöðu. En aldrei hefði mér dottið í hug að feministar tækju að sér að hefja þá umræðu.

annatara3

Kannski, kannski, kannski. Kannski er að koma fram kynslóð feminista sem vill eiga samræðu við samfélag sitt í stað þess að predika yfir því. Hreyfing sem endurskoðar hugmyndir sínar. Hreyfing sem í stað þess að reyna að uppræta klám og gefa forskrift um það hvernig kynlífi við eigum að lifa, kallar eftir meiri fjölbreytni og hvetur það fólk sem hefur áhuga á klámi til að velja það klám sem lætur því og félögum þess líða vel, fremur en að hafa þann áhuga til marks um andstyggilegan karakter eða dapurlegan siðferðisþroska.

Kannski er eitthvað jákvætt að gerast í kynjaumræðunni. Ég hlakka til að heyra hvernig þær Anna Tara og Katrín líta á hugmyndina um feðraveldið og hvort þær telja hagsmunum kvenna best borgið með því að konur yfirtaki það valdakerfi sem við búum við. Kannski hafa þær víðari sýn á þau mál líka en þeir sem mest hafa tjáð sig um kynjamál á síðustu árum. Þessi fyrsti þáttur lofar að minnsta kosti góðu.