Laugardagsmorgunn

Blóð mitt hrópar á súkkulaði og kaffi.

Nýkomin heim frá Haffa. Velsofin samt. Snertiþörfin helltist yfir mig í gærkvöldi af óstjórnlegum krafti. Bætti ekki úr skák að ég drakk tvö rauðvínsglös svo ég var  óökufær. Mundi eftir tveimur vinum sem ekki eiga kerlingar en annar var að vinna og hinn í útlöndum. Haffi hafði ekki svarað sms eða símtölum frá mér vikum saman svo ég var alveg búin að gefa hann upp á bátinn. En svo hringdi hann sjálfur og
bað mig að koma.

-Ég er blóðug niður á læri og langar ekki að gera neitt nema kúra, sagði ég.
-Þurfum ekki að njótast. Ég vil bara hafa þig hjá mér og vera góður við þig, sagði hann.

Furðulegt að þessi fyllibytta skuli nota svona fágað orðbragð um kynferðislegar athafnir.

Hann var sjálfur í glasi og gat ekki sótt mig. Bauðst ekki til að redda mér fríum leigubíl þótt einhver félaga hans hljóti að hafa verið á vakt. Ég hefði átt að segja honum að hoppa upp í rassgatið á sér en mig vantaði snertingu svo sárlega að ég fékk Spunkhildi til að skutla mér til hans. Það var eitthvað mikið að hjá honum en karlmenn tjá sig ekki með orðum heldur snertingu. Þurfa fullnægingu til að geta talað um óþægilega hluti. Furðumargar konur sem vita það ekki.

-Ekki tala. Kysstu mig bara, sagði hann og hellti yfir mig hálfum lítra af sleipiefni sem hann hélt að væri nuddolía. Honum tókst loks að stynja því upp að hann væri í krísu. Barnsmóðir hans er ástfangin af honum en hann vill ekki búa með henni og hefur heldur ekki kjark til að særa hana. Auk þess vantar hann konu en þar sem drykkjan stjórnar lífi hans algjörlega getur hann ekki myndað tengsl. Greygarmurinn. Ófær um að takast á við svona stórbrotin vandamál.

Ég krafðist skýringa á því hvers vegna hann svaraði ekki símanum þegar ég hringdi. Hélt að hann hefði kannski lent í grjótinu eða inni á Vogi. Hann neitaði hvorutveggja. Bar því við að hann væri svo hræddur um að verða ástfanginn af mér og þar sem ég vilji ekkert meira með hann hafa sé ekki skynsamlegt að hittast of oft. Myass, hann hefur ekki rassgat meiri áhuga á mér en ég á honum.

-Hættu þessu bulli Haffi minn. Ég sé ekki að við eigum nokkuð það sameiginlegt sem geri samband raunhæft hvort sem er. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að ég fari að gera kröfur til þín. Þér er óhætt að svara símanum þessvegna, sagði ég.

Hann lét mig lofa því að fara ekki frá honum áður en hann vaknaði.
Hefur alltaf orðið ferlega svekktur út í mig fyrir það. Hann fór að vinna kl 8. Ég sendi honum sms um 9 leytið og bað hann að koma og aka mér heim. Ást hans á mér ristir nú ekki dýpra en svo að hann svarar ekki símanum og hefur enn ekki svarað þessum sms boðum. Ég tók leigubíl heim, frá sömu stöð og hann ekur fyrir, borgaði 2000 kr. fyrir það. Ég er ekkert ofurhress yfir því, venjulega þarf ég ekki að borga með mér.

Þótt hann sé óttalegur aumingi held ég að það sé eitthvað meira að hjá honum en hann vill segja mér. Þessi framkoma skýrist ekki af alkóhólisma og aumingjaskap einum saman. Sennilega hefur hann verið í jafnbráðri þörf fyrir snertingu og ég sjálf og drukkið í sig kjark til að hringja. Ég held satt að segja að hann hafi meiri þörf fyrir að vakna hjá konu en fullnægja kynhvötinni þótt honum finnist það svosem gott líka. En það er gott að kúra hjá honum og mér finnst svolítið sætt hvað hann notar ástúðlegt orðfar. Kannski ég ætti að prófa að rukka hann fyrir að sofa hjá honum, án kynlífs, ég get nátturúlega ekki rukkað hann fyrir dráttinn en varla getur það flokkast sem vændi að vakna við hliðina á einhverjum gegn greiðslu.