Gestapistill – Er nægilegt framboð af miðaldra oflátungum?

Björn Ragnar Björnsson skrifar:

Réttlæti, frelsi, jafnræði og lýðræði. Hátíðlegt! Stór orð, stór hugtök en því miður ekki stór raunveruleiki. Réttlæti hefur lengst af þurft að láta í minni pokann fyrir andhverfu sinni miklu oftar en góðu hófi gegnir. Óskandi væri að fregna af ósigrum réttlætisins þyrfti að leita hjá elstu mönnum. Þúsundir eða tugþúsundir Íslendinga á öllum aldri hafa af því beina reynslu síðustu tíu ár.

Frelsið er í ögn skárra formi, því okkur hefur á margan en ekki allan hátt miðað í frelsisátt. Samt þarf maður auðvitað að spyrja sig: Er maður sem beittur hefur verið óréttlæti eða á það á hættu raunverulega frjáls?

Jafnræði er nátengt réttlæti, þannig að þó að fullt jafnræði sé t.a.m. komið á milli kynja þá er sérhver ósigur réttlætis jafnframt ósigur jafnræðis. Lýðræði er okkur skammtað úr hnefa stjórnmálamanna og skammtarnir eru naumir. Það er deginum ljósara að hugmyndir ráðandi afla, þeirra sem réðu fyrr og þeirra sem ráða nú, að þeim hugnast ekki að almenningur snúi þessu sambandi við, að þjóðin geti sjálf tekið skömmtun valds í sínar hendur.

Ofanritað er svo hátíðlegt að einhverjum gæti dottið til hugar að sá sem það ritaði sé svo fullur af lofti að hann nái ekki að teygja tásurnar í snertingu við fast land. Svo er ekki, því allt ofangreint hefur beina skírskotun í hvernig lög við höfum, hvernig stjórn- og framkvæmdavaldi er beitt, í dómsvaldi.

Smæstu og stærstu ákvarðanir Alþingis eru ýmist í samræmi við okkar háleitu markmið, miða okkar átt að eða frá þeim. Hver á að borga skatta, hve mikið? Hver á að lifa við hungurmörk, gamlingjar, öryrkjar? Hver fær að veiða fiskinn, hver fær að ganga um landið? Hver hlýtur lækningu, hver borgar? Á framhaldsskólinn að vera þrjú ár? Á ríkið að ofsækja fólk fyrir skoðanir? Á að selja áfengi í Bónus? Á fólk að vera brennimerkt ef það hefur einhverntíma neytt ólöglegra efna þannig að yfirvöld veittu því eftirtekt, hvaða efni á að banna? Eiga yfirvöld að stuðla að því að fólk sé hneppt í skuldaþrældóm?  …

Það stjórnmálaafl sem ég treysti til að vinna af mestri einurð að meira réttlæti, meira frelsi, meira jafnræði og meira lýðræði er Píratar. Þess vegna er ég Pírati.

Oflátungurinn í mér hefur svo talið mér trú um að ég geti unnið eitthvert gagn í þessum efnum, að ég hafi mögulega einhverja þekkingu, reynslu eða getu sem gagnast má til að við þokumst nær heilbrigðara samfélagi.  Þess vegna er ég í framboði.

Nánari upplýsingar um mig og mínar skoðanir má finna á vef Pírata: https://piratar.is/kosningar/frambjodendur/bjorn-ragnar-bjornsson/

Höfundur er í framboði í prófkjöri Pírata vegna Alþingiskosninga árið 2017 í Reykjavík.