Fólk deyr ef það drekkur ekki

hungerstrike

Þegar ég sá fréttir af hungurverkfalli unga flóttamannsins Ghasem, frá Afghanistan, hristi ég höfuðið. Hungurverkfall er þjáningafull og stórskaðleg mótmælaaðferð sem bitnar fyrst og fremst á mótmælandanum sjálfum og hefur sjaldan áhrif fyrr en ástandið er orðið lífshættulegt. Fólk heldur ekki hungurverkfall út nema örfáa daga nema það sé raunverulega tilbúið til að deyja fyrir málstaðinn og það þarf margra vikna svelti til þess að ástandið verði nógu alvarlegt til að yfirvöld taki mark á því.

En Ghasem er ekki bara í hungurverkfalli. Hann hætti líka að neyta vökva. Og það breytir ansi miklu. Fólk verður fljótt lífshættulega veikt ef það neytir ekki vökva, enda er Ghasem þegar búinn að lenda inni á sjúkrahúsi í tvígang.

Þessum dreng er alvara. Kannski skiptir máli að hann er aðeins tvítugur og hefur verið á flótta frá sextán ára aldri. Fjögur ár eru langur tími fyrir svo ungan mann. Og sjö dagar eru langur tími fyrir hvern sem er þegar hann neytir hvorki fæðu né vökva. Það er kannski hægt að halda í honum lífinu með því að gefa honum vökva og næringu í æð en fólk lifir ekki nema sjö til tíu, í mesta lagi tólf daga án þess að neyta að minnsta kosti vökva. Og  þótt ástandið sé svona alvarlegt hefur innanríkisráðuneytið ekki brugðist við.

Í dag, mánudaginn 28. apríl, kl 11, ætla stuðningsmenn Ghasems að hittast fyrir utan innanríkisráðuneytið að Sölvhólsgötu 7 og skora á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, að bregðast við kröfu hans um að mál hans verði tekið til efnislegrar meðferðar á Íslandi. Ég hvet alla til að mæta, og við sem ekki getum mætt sýnum stuðning okkar á annan hátt, t.d. með því að senda tölvupóst á innanrikisradherra@irr.is og/eða undirrita þessa áskorun.