Er refsivert að fara í stríð á eigin vegum? (Svar við spurningu Ragnars Önundarsonar)

Myndin er af Wikimedia Commons. Hún sýnir íbúðahverfi í Raqqa eftir framgöngu Islamska ríkisins.

 

Maður að nafni Ragnar birti í dag svohljóðandi spurningu á opnum vegg á Facebook:

Er Íslendingum, hverjum og einum, heimilt að taka þátt í stríði, án þess að landið eigi í stríði ? Manndráp í stríði eru þeim sem þau framkvæmir og kvaddur hefur verið til herþjónustu af landi sínu, refsilaus, séu reglur virtar. Mér sýnist að ef íslenskur borgari, málaliði, drepur mann í stríði erlendis, þà sé það refsivert, þ.e. manndráp af ásetningi. Það vefst fyrir nálægum löndum að veita slíku fólki sem vill snúa heim viðtöku. Eðlilegt er að banna fólki þátttöku á eigin vegum í stríðsátökum og refsa þeim sem snúa heim á ný.

 

Er Íslendingum, hverjum og einum, heimilt að taka þátt í stríði, án þess að landið eigi í stríði ? Manndráp í stríði…

Posted by Ragnar Önundarson on Miðvikudagur, 6. mars 2019

 

Spurningunni er greinilega beint að minni fjölskyldu (það hafa ekki borist neinar fréttir af öðrum Íslendingum en Hauki syni mínum sem hafa farið í stríð á eigin vegum í marga áratugi) en spyrjandi hefur gengið þannig frá málum að aðeins þeir sem eru á vinalista hans á Facebook geta svarað. Stórkostleg samræðutækni. Hvað um það, í lýðræðissamfélagi eru fleiri leiðir til að koma skilaboðum áleiðis en að ávarpa þá beint sem ekki vilja heyra.

Svar mitt er þetta:

Nei, Ragnar, engum er heimilt að taka þátt í stríði án blessunar ríkisvaldsins. Og já, það er eðlilegt að þátttaka í stríði á eigin vegum sé refsiverð a.m.k. ef manntjón hlýst af. Hitt er svo annað mál að í dómsmálum skiptir samhengi öllu máli. Öllu. Og það eru til sjónarmið sem við vissar aðstæður vega þyngra en lagabókstafurinn. Til að mynda er manni það verk refsilaust sem hann vinnur í nauðvörn. Það flokkast ekki sem nauðvörn að taka upplýsta ákvörðun um að ferðast til átakasvæðis og taka upp vopn en í 13. gr. íslenskra hegningarlaga kemur annað sjónarmið til:

Það verk er refsilaust, sem nauðsyn bar til að unnið væri í þeim tilgangi að vernda lögmæta hagsmuni fyrir yfirvofandi hættu, þótt með því séu skertir aðrir hagsmunir, sem telja verður að miklum mun minni.

Það verður alltaf matsatriði hvaða hagsmunir teljast öðrum meiri eða minni. Haukur sonur minn gekk til liðs við hersveitir Kúrda. Hann fór ekki í þeim tilgangi að drepa neinn, heldur til að halda hryllilegustu grimmdarseggjum okkar tíma í nokkurri fjarlægð frá venjulegu íbúðarhverfi í Raqqa. Hann vissi að afleiðingarnar af því gætu orðið þær að hann yrði einhverjum af liðsmönnum Islamska ríkisins að bana. Hann var tilbúinn til að taka þá áhættu því hann taldi þá hagsmuni öfgasinnaðra Islamista, að lifa af árásarstríð, miklum mun minni en þá hagsmuni heimsbyggðarinnar að koma í veg fyrir útbreiðslu Kalífaveldis (sem um leið stefndi að heimsyfirráðum). Hann taldi þá hagsmuni að stöðva þjóðarmorð á Yazidi fólkinu og vernda óvopnaða borgara, þ.á.m. börn, frá drápsæði Islamska ríkisins, mun mikilvægari en líf þeirra sem ganga fram með skefjalausu ofbeldi, brenna fólk lifandi, krossfesta það, hálshöggva opinberlega og neyða bæði sín eigin börn og börn fórnarlambanna til að horfa á dýrðina.

 

Tvö keimlík samstöðumál

Þetta var ekki í eina skiptið sem sonur minn setti mannréttindi ofar lagabókstafnum. Það er ekki löglegt að hlaupa inn á flugbraut og það á ekki að vera löglegt. En það gerði hann nú samt, sumarið 2008, ásamt félaga sínum Jason Slade. Tilgangurinn var sá að bjarga mannslífi. Og það breytir samhenginu.

Í dag réttar Héraðsdómur Reykjavíkur yfir tveimur konum, Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur. Þeim er gefið að sök að hafa staðið upp í kyrrstæðri flugvél, í þeim tilgangi að hindra ólöglega brottvísun flóttamanns, sem var einmitt á flótta undan Boko Haram, öfgahreyfingu sem vill koma á Islömsku ríki í Afríku. Nú finn ég engin lög sem banna það að fólk standi upp í kyrrstæðri flugvél en ekki útiloka ég að dómurinn telji mögulegt að fella þennan gjörning undir eitthvert ákvæði refislaga. Verði það niðurstaðan þá gildir það sama og í öllum dómsmálum – samhengi skiptir öllu máli. Það eru augljóslega ríkari hagsmunir að vera ekki sendur í klærnar á Boko Haram, en hagsmunir flugfélags eru af því að hefja flugtak á þeirri mínútu sem ætlað var.

 

Samhengið skiptir öllu

Mannréttindabarátta útheimtir lögbrot, sama hvaða mannréttindi verið er að vernda. Það var kolólöglegt á sínum tíma að berjast gegn fasistum á Spáni. Það var líka ólöglegt að forða Gyðingum, hommum, vottum Jehóva og öðrum fórnarlömbum nazismans frá Helförinni. Og fólki var refsað fyrir það. Grimmilega. Í dag lítum við á þetta fólk sem hetjur en ekki glæpamenn.

 

Alþjóðasamfélagið hefur gjörsamlega brugðist Kúrdum og það er ekki í fyrsta eða annað sinn sem fórnarlömb þjóðarmorða og glæpa gegn mannkyni þurfa að treysta á aðstoð sjálfboðaliða á eigin vegum. Á síðustu árum hafa nokkrir ríkisborgarar Vestur-Evrópskra ríkja snúið heim frá Sýrlandi og Írak eftir þátttöku í baráttu Kúrda gegn Islamska ríkinu. Þetta fólk er lögsótt og í nokkrum tilvikum hefur því verið refsað. Samhengið skiptir máli, liðsmenn Islamska ríkisins hafa þannig fengið mun harðari dóma en þeir sem stóðu gegn þeim. Dómstólar hafa samt sem áður sýnt því ótrúlega lítinn áhuga hversu mikla hagsmuni þetta fólk var að verja. Ekki aðeins hagsmuni Kúrda, heldur einnig hagsmuni ríkja sinna af því að þurfa ekki að glíma við útbreiðslu Islamska ríkisins til Evrópu og þá hagsmuni að þurfa að taka á móti ívið færri flóttamönnum en annars hefði orðið. Samhengis er aðeins gætt að litlu leyti, en ekki sem skyldi.

Dómstólar eiga að gæta samhengis. Það á ekki bara við um þá sem ótilneyddir hætta lífi sínu í stríði heldur einnig um  aðra aðgerðasinna sem grípa til ólöglegra aðgerða til að verja mannréttindi. Það á t.d. við um mál Jórunnar og Freyju. Ég vona að dómaranum í máli þeirra beri gæfa til þess að sinna þeirri skyldu sinni að huga að samhenginu og setja mannréttindi ofar hagsmunum flugfélagsins.

Aðalmeðferð í samstöðumál Jórunnar og Freyju er hafin í Héraðsdómi Reykjavíkur. Almenningur hefur rétt til að fmæta í réttarsal og fylgjast með. Það er líka ein leið til að sýna samstöðu. Í kvöld kl 20 verður svo stuðningsfundur á Lækjartorgi þar sem þess verður einnig minnst að ár er síðan fréttirnar af Hauki bárust. Kveikt verður á kertum í minningu þeirra flóttamanna sem hafa látist án þess að komast í öruggt skjól. Ég hvet alla sem láta sig mannúðarmál varða til að mæta. Því mannúð er mikilvægari en nokkur lagabókstafur og samstaða er ekki glæpur.