Einar ætlar í prófkjör fyrir Pírata

Einar ætlar í prófkjör fyrir Pírata.  Og vill svo skemmtilega til að þegar hann sagði mér það var ég einmitt að ljúka við að setja upp nýtt og glæsilegt bloggsvæði fyrir hann og vista þar alla gömlu Eyjupistlana hans með almennilegri flokkun og efnisorðum.

Ég er haldin sértæku fundaóþoli og gæti ekki hugsað mér að vera þingmaður sjálf. Á pínulítið erfitt með að trúa því að það geti verið skemmtilegt og finnst undarlegt að maður sem nýtur jafn miklis frelsis í starfi og Einar langi til þess að vinna í því drullusvaði sem Alþingi er þessi árin. En hann er eldhugi, trúir í alvöru á grunngildi Pírata, getur losnað úr vinnu ef hann skyldi komast á þing og er ákveðinn í því að beita sér fyrir almennilegri tiltekt í auðlindamálum, upplýsingamálum, húsnæðismálum o.fl. Hann hefur líka ótrúlegt úthald í fundasetur og samningaviðræður og lætur stjórnvöld og valdafólk ekki komast upp með að svara ekki spurningum. Ég efast ekki um það yrði gagnlegt að fá hann á þing en ekki ætla ég að lofa því að hann muni aldrei móðga neinn.

Einar fer yfir helstu áherslumál sín hér. Ég vona að sem flestir Píratar gefi honum atkvæði í prófkjöri flokksins. Auðvitað vona ég svo, hvort sem Einar kemst áfram eða ekki, að sem flestir kjósi Pírata í komandi Alþingiskosningum. Hreyfingin hefur eflst mikið á síðustu tveimur árum, mikil málefnavinna farið fram og margt frábært fólk gengið til liðs við Pírata. Það er enginn annar flokkur sem leggur sérstaka áherslu á gagnsæi í stjórnsýslunni, netfrelsi og borgaraleg réttindi en auk þess hafa Píratar öðrum flokkum fremur lagt áherslu á að bráðabirgðastjórnarskránni, sem hefur nú verið í gildi í 73 ár, verði skipt út. Sú stjórnarskrá sem nú er í gildi er að mörgu leyti góð en sum ákvæði hennar eru ákaflega loðin og mikil óvissa um það hvernig beri að túlka þau. Það er löngu tímabært að kyssa hana góða nótt og taka upp nýja stjórnarskrá sem hæfir okkar tímum, um leið og við endurræsum Ísland.