Ef Norðmenn banna Ögmundi að bjarga þrælum ….

Ögmundur Jónasson má eiga það að hann svarar bréfum. Það gera ekki allir stjórnmálamenn. Í dag svaraði hann stuttu erindi frá mér um málefni strokuþrælsins frá Máritaníu. Hann er ósáttur við umræðuna um störf sín og bendir mér á að lesa grein sem hann birtir í dv í dag sem svar við ásökunum um að hann skýli sér bak við Dyflinnarákvæðið.

Grein Ögmundar lýsir skilningi á vanda flóttamanna og það er svosem í samræmi við hans orðræðu í gegnum tíðina. Ögmundur hefur alltaf látið sig mannréttindamál varða og ég trúi því að hann vilji í einlægni koma málefnum flóttamanna í betra horf. Ögmundur er hinsvegar að vinna fyrir ráðuneyti sem er í eðli sínu hægri sinnað og hann er um leið yfirmaður útlendingarstofnunar sem er sprottin af hugmyndafræðinasista og byggir beinlínis á kynþáttahyggju. (Haukur Már Helgason birti fantagóða grein um uppruna útlendingastofnunar í 2. tbl. Rósta, ég finn hana ekki á netinu en bendi áhugasömum á að hafa samband við rostur.org til að kaupa eintak af blaðinu.) Ögmundur er því í erfiðri aðstöðu. Samkvæmt hinni huldu starfslýsingu ber honum að hrekja sem flesta útlendinga af landi brott og fyrst þá sem verst eru staddir en samkvæmt samvisku sinni og persónulegri ímynd ætti hann að vernda fyrst og spyrja svo.

Ögmundur bendir á að sumir þeirra sem sækja um hæli séu misindismenn á flótta undan réttvísinni. Rétt er það og skítt að skuli ekki bara vera hægt að greina það með þvagprufu hvort um er að ræða alvöru glæpon eða hvort maður hefur t.d. unnið sér það til óhelgi að vera samkynhneigður eða hafa óæskilegar stjórnmálaskoðanir. Reyndar skulum við hafa í huga að þetta:

tn.image070.jpg.mid

er dæmi um það sem Ögmundur kallar hér því hljómfagra nafni „réttvísi“ en jájá, flest okkar langar meira að hjálpa þeim réttlátu og göfugu en einhverjum skúrkum og hættan er sú að ef við slökum á kynþáttahyggjunni muni alvöru sakamenn slæðast með hælisleitendum sem eru okkur meira að skapi. Það er sá fórnarkostnaður sem við greiðum fyrir þá stefnu að láta meintan þolanda njóta vafans.

Ögmundur treystir Norðmönnum til að afgreiða umsókn storkuþrælsins frá Máritaníu réttlátlega. Hann treystir þeim enda þótt Mouhamde Lo hafi þegar fengið neitun um hæli þar. Hann getur kært niðurstöðuna til dómstóla, segir Ögmundur en fer ekki nánar út í það hversu raunhæft það er fyrir þræl í Máritaníu að kæra norsk yfirvöld. Ojæja, kannski fær hann frídag á meðan hann er að jafna sig eftir geldinguna og getur þá skrifað kærubréf á wolof, Norðmenn hljóta að þekkja einhvern Frakka sem getur snarað því yfir á norsku fyrir þá svo það ætti ekki að vera vandamál að taka kæruna fyrir og afgreiða hana af réttlæti. Jamm, kæra bara, þetta er sama svarið og fyrirrennari Ögmundar, hún Ragna Árnadóttir sem einnig vildi flóttamönnum allt hið besta, svo sem sjá má af þeirri ákvörðun hennar að neita unglingi sem hún rak til Grikklands um að fá að taka símann sinn með sér, gaf No Borders þegar þau kvörtuðu undan þeirri ákvörðun að senda flóttamenn í óviðunandi aðstæður. Þeir áttu semsé bara að kæra úrskurð útlendingastofnunar, mállausir og peningalausir í Grikklandi, þar sem líf flóttamanna gengur út á að bíða annað hvort allan daginn í biðröð til þess eins að fá synjun um hjálp eða að leita ólöglegra leiða til að draga fram lífið. Enda sagðist Ragna ekki hafa ástæðu til að ætla annað en að vel yrði hugsað um þá í Grikklandi, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar mannréttindasamtaka um allt annan veruleika.

Þegar flóttamaður sækir um hæli, er það á hans ábyrgð að sanna að hann hafi verið beittur harðræði eða sé í hættu í heimalandi sínu. Þetta reynist oft útilokað og fólki er synjað um hæli á þeirri forsendu að yfirvöld í heimalandinu kannist bara ekkert við að hafa ofsótt hælisleitandann, geti ekki staðfest að honum hafi verið haldið í fangelsi án dóms og laga eða að hann hafi verið pyntaður. Með sömu vinnubrögðum væri eðlilegt að kvennaathvarfið neitaði að hýsa konu ef maki hennar vildi ekki staðfesta að hafa lamið hana.

screen-shot-2013-11-02-at-10-47-54-amÞessi kona heitir Mende Nazer Hún er strokuþræll frá Súdan, ævisaga hennar er í senn átakanleg og fögur.

Mende var á 13. ári þegar menn réðust inn í þorpið hennar, brenndu hús, nauðguðu konum, drápu karla og höfðu börn á brott með sér. Hún var hrifin úr verndandi faðmi föður síns og hneppt í þrældóm. Alvöru þrældóm þar sem hún var þrælkuð, innilokuð, barin, svipt öllum réttindum barns og manneskju og látin sæta verri niðurlæginu en nokkurt annað húsdýr. Annað já, því hún leit ekki á sjálfa sig sem manneskju eftir 8 ára harðræði.

Eftir 6 ár var Mende send til Bretlands til að þjóna systur húsmóður sinnar. Eftir að hafa lifað sem þræll í Bretlandi í tvö ár, tókst Mende að ná sambandi við fólk utan heimilisins og fékk aðstoð til að flýja. Hún sótti um hæli en var synjað. Rök breskra yfirvalda voru þau að súdönsk stjórnvöld könnuðust bara ekkert við að leggja blessun sína yfir þrælahald!

Einn þeirra staða sem Mende og önnur fórnarlömb mannræningjanna gistu á leið sinni til „eigendanna“ voru búðir á vegum hersins. Það var sendiráðsmaður sem útvegaði vegabréf svo hægt væri að senda hana til Bretlands. Þetta fannst yfirvöldum í Bretlandi ekkert koma málinu við, yfirvöld í Súdan sögðu jú sjálf að þetta væri bara vitleysa í stelpunni.

Mende fékk að lokum hæli í Bretlandi en það var bara vegna þrýstings frá breskum almenningi. Fólk mótmælti ákvörðuninni um að senda hana heim (þar sem hún gat átt von á lífláti eða einhverju þaðan af verra fyrir að segja til „eigenda“ sinna) og blaðamaður tók að sér að rita sögu hennar. Mende er á lífi í dag en það er ekki útlendingaeftirlitinu í Bretlandi að þakka.

Ögmundur, elsku kallinn sem áreiðanlega vill vel, fetar nú sömu slóð og yfirvöld í Bretlandi. Ef maðurinn getur ekki fært fram óyggjandi sannanir fyrir því að hann sé í lífshættu, er best að láta Norðmenn bara um hann enda eru þeir réttlátir menn sem munu eflaust taka við honum ef hann getur fært fram óyggjandi sannanir fyrir því að honum verði refsað með geldingu eða jafnvel dauða ef hann snýr heim.

Ögmundur veit auðvitað hvaða afstöðu góðar manneskjur taka þegar þolanda og geranda ber ekki saman. Góðar manneskjur láta meintan þolanda njóta vafans þegar hann biður um vernd en meintan geranda þegar farið er fram á refsingu. Ögmundur veit líka að þegar einhver leitar til manns vegna þess að aðrir sem hann hefur beðið um hjálp ætli ekki að láta hann njóta vafans, þá segir maður honum ekki að fara í rass og rófu, heldur hlustar maður á hann, jafnvel þótt það þýði að maður þurfi að leita til samtaka á borð við No Borders og biðja um aðstoð til að finna túlk.

Kæri Ögmundur. Þú hefur rétt fyrir þér. Það er engin ástæða til að móðga frændur okkar í Noregi með því að grípa fram fyrir hendurnar á þeim enda bið ég þig ekki um það. Skrifaðu þeim frekar kurteislegt bréf með broskalli, segðu að þig langi alveg óskaplega mikið til að mál Mouhamde Lo verði afgreitt á Íslandi. Spurðu fallega hvort þeir séu tilbúnir til að líta fram hjá Dyflinnarreglunni en ef þeir vilji frekar sjá um hann sjálfir þá munir þú virða það. Þú gætir jafnvel sagt að þar sem við byggjum stefnu okkar í málefnum flóttamanna á norskri fyrirmynd, langi okkur að sýna þakklæti okkar með því að bjóðast til að taka við nokkrum mönnum sem þeir vilja losna við. Ég skal skrifa bréfið fyrir þig ef þú vilt Ögmundur, ég hef nógan tíma 🙂

Kæri Ögmundur, ef Norðmenn neita okkur um að taka við Mouhamde Lo, þá lofa ég að biðja þig ekki framar að bjarga flóttamönnum. Það sem meira er, ég skal flytja til Noregs, þótt ég hafi síðast í gær sagt að þar vilji ég ekki búa. Ég gæti nefnilega séð ástæðu til að tjalda fyrir framan dómsmálaráðuneytið þeirra ef þeir hafna boði þínu um að bjarga mannslífi.

Á morgun efnir hreyfingin No Borders til samstöðuaðgerðar fyrir Mouhamde Lo. Ég kemst ekki sjálf en hvet þá sem láta sig líf annarra varða að minnast þess að Mende Nazer er frjáls kona í dag vegna þess að valdalaus meðalmenni mótmæltu ákvörðun yfirvalda um að senda hana aftur til Súdan. Mætið á staðinn og biðjið Ögmund að ræða við Norðmenn um það hvort væri ekki möguleiki að fá að taka við hælisumsókn þessa manns og ef þið getið ekki mætt, skrifið honum þá. Ég hef á tilfinningunni að Norðmenn hafi um nóg annað að hugsa þessa dagana og verði bara fegnir að fá hjálp.