Af hverju svona dýrt?

Í landamærabúðinni í Þýskalandi er hægt að fá 5 lítra kassa af rauðvíni á 40 kr danskar. Það er líka hægt að fá dýrt vín en þetta ódýrasta er allsekkert það versta sem býðst.

5 lítra kassinn endist mér í 5-6 vikur og þegar áfengisneyslan kostar tíkall á viku, fer maður að líta á áfengiskaup sem hluta af eðlilegum heimilsrekstri. Ég reiknaði ekkert með því að halda þessum drykkjuskap áfram hér í Noregi en við fórum í vínbúð í dag í fyrsta sinn á árinu og þótt ég vissi að verðlagið væri lítið skárra en á Íslandi, gekk hreinlega fram af mér. Ódýrasti 3ja lítra kassinn var á 269 kr. sem samsvarar 256 dönskum. Það var tegund sem kostar milli 50 og 60 kr í Þýskalandi.

Ég geri ekki kröfu um að geta drukkið rauðvín daglega og leit alltaf á áfengiskaup sem lúxus á meðan ég bjó á Íslandi. Ég vissi að rauðvín er töluvert dýrara í Noregi en Þýskalandi en eftir að hafa vanist öðru finnst mér áfengisokur ekkert eins sjálfsagt og áður. Mig langar að vita í hverju þessi hroðalegi verðmunur liggur. Og líka af hverju fólk sættir sig bara við hann.