320 dögum síðar

 

Benjamin Julian tók myndina

Sennilega hefur mér aldrei orðið minna úr verki en árið 2018. Mánuðum saman gat ég ekki einbeitt mér að neinu nema Hauki og Kúrdistan. Ég finn enn ekki fyrir sérstökum áhuga á öðrum hlutum þótt ég haldi nokkurnveginn eðlilegri einbeitingu.

Ég fann aldrei neitt sérstakt á mér eins og mér skilst að allar alminilegar mæður finni þegar synir þeirra eru að sögn dánir en ekki grafnir. Draumfarir voru ágengar en tákngildi þeirra ekkert. Særði einhverja með því að afþakka skyggnilýsingar en er eiginlega fokk sama. Finn hvorki fyrir von né vonleysi.

Gleðin yfir því að hafa fengið meira en 30 góð ár með litla drengnum mínum sem síðar varð einn af mínum bestu vinum ætti að toppa missinn en 10 mánuðum síðar er ég enn ekki komin þangað. Þakklæti í garð þeirra mörgu sem hafa sýnt mér og öðrum aðstandendum hlýhug sinn og samstöðu toppar þó óánægju mína með afgreiðslu stjórnvalda á málinu. Það hjálpar mér a.m.k. að vita til þess að fólk hugsi til okkar.  Og samhygðin var ekki aðeins tjáð með hlýjum orðum heldur líka í verki. Systkini mín og nokkrir úr vinahópnum lögðu nótt við dag til þess að hafa upp á öllum sem gætu gefið upplýsingar eða varpað einhverju ljósi á málið og jafnvel bláókunnugt fólk bauð fram aðstoð við að koma okkur í samband við fólk á svæðinu. Margir stjórnmálamenn hafa líka sýnt okkur samstöðu. Í lok apríl lýsti Guðmundur Andri Thorsson þeirri skoðun á Alþingi að það mætti ekki skilja aðstandendur Hauks eftir með þá tilfinningu að stjórnvöld stæðu ekki heilshugar með þeim. Mér þykir afskaplega vænt um það og ekki síður að Margrét Tryggvadóttir skyldi taka málið aftur upp í nóvember og benda á rétt ríkis og aðstandenda til að fá upplýsingar um það hvað varð um líkið (en Tyrkir halda því fram að Haukur sé látinn og hljóta því að vita það). Utanríkisráðherra svaraði því sama og venjulega að hann hefði gert allt sem í hans valdi stæði. Við fréttum það í fjölmiðlum að athugun Borgaraþjónustunnar á málinu væri lokið. Við höfum aldrei fengið skýringar á því hversvegna má ekki leita til alþjóðastofnana um aðstoð við að afla svara frá Tyrkjum, hvort heldur um það hvað varð um líkamsleifar þeirra sem féllu í Afrín eða hversvegna Rauða Krossinum var ekki leyft að leita.

Fyrir utan fólk sem ég þekki persónulega var einn stjórnmálamaður sem strax hafði beint samband við mig og bauð fram aðstoð. Það var Ögmundur Jónasson. Ég hef alveg látið hann Ögmund heyra það í gegnum tíðina þegar ég hef verið óánægð með hann en hann lét það greinilega ekki hafa nein áhrif á sig. Hann kom á beinu sambandi milli fjölskyldunnar og talsmanns Kúrda hjá Evrópuþinginu, sem talaði við bæði mig og Hilmar í síma og sendi bréf. Nú í janúar kom Ögmundur svo á fundi með þremur talsmönnum Kúrda og bauð mér m.a.s. heim til sín til að hitta þau. Sá fundur hefur nú skilað þeim árangri að tölvan hans Hauks er komin til Evrópu og við reiknum með að hún komi til Íslands fljótlega. Takk Ögmundur, innilega.

Nú vonum við bara að hægt verði að endurheimta gögn. Ég er hóflega bjartsýn á það en það er hugsanlegt. Kannski er þar eitthvað að finna sem varpar frekara ljósi á það sem Haukur var að hugsa og gera í Sýrlandi og þetta ár sem hann var að undirbúa för sína þangað.

Ég veit svosem ekki hvort maður jafnar sig nokkurntíma á ástvinamissi, í þeirri merkingu að hann hætti að stinga en ef allt er eðlilegt heldur fólk nú samt áfram að vera til. Og þá meina ég ekki í þeirri merkingu að druslast einhvernveginn í gegnum lífið og sinna því sem þarf að sinna af nauðsyn eða vana fremur en áhuga. Mig er farið að langa að gera „eitthvað“ en veit ekki alveg hvað. Allavega ekki það sem ég á að vera að gera. Finn ekki fyrir neinum fítonsanda. Langar ekkert nema að skoða þessa tölvu. Finna kannski dagbókarfærslur, kannski skrýtnar hugrenningar eða einhver þessara kvæða  sem ég kann ekki nema að hluta. Ég reikna ekki með fleiri orðaskiptum eða fleiri faðmlögum en mögulega eigum við eftir að sjá eitthvað um það hvernig skoðanir hans og hugmyndir breyttust síðasta árið. Kannski, en bara kannski, leynist þar einhver fjársjóður. Kannski ein lítil frásögn. Kannski eitt ljóð enn.