Versta syndin

Birtingarmyndir dauðasyndanna sem samfélagseinkenna hafa verið mér hugleiknar í dag.

Hrokinn birtist í hverskyns valdníðslu. Við glímum við vandamál vegna hroka mannsins gagnvart náttúrunni. Lítill hluti einnar þjóðar telur sig svo rosalega innundir hjá Gvuði að það réttlæti bæði landtöku og þjóðarmorð. Borgarstjórn Reykjavíkur er skipt út álíka oft og tesíunum í Nornabúðinni og ekki eru kjósendur spurðir álits.

Öfundin kemur fram sem endalaus rógburður og hnýsni í einkalíf fræga fólksins. Heilu tímaritin og sjónvarpsstöðvarnar þrífast á því að ala á öfund og illgirni í garð þeirra sem njóta velgengni.

Sinnuleysi bæði almennings og yfirvalda sem horfa aðgerðalaus upp á ofbeldi, kúgun, örbirgð og aðrar þjáningar er kannski ljótasta birtingarmynd letinnar, þunglyndisins eða hvað við viljum kalla það.

Reiðin viðheldur endalausum styrjöldum og skærum með tilheyrandi manndrápum, slysum, sjúkdómum, fátækt, mengun og niðurlægingu. Ofbeldi sprettur af reiði, grimmd sprettur af reiði og reiðin er smitandi.

Ágirndin er svo almenn og óhófleg að jafnvel margt hátekjufólk skuldar meira en það á. Hattvæðingin stuðlar beinlínis að því að auðug stórfyrirtæki yfirtaki alla möguleika fátækra þjóða á því að framfleyta sér og á litla Íslandi geta örfáir menn ráðið því hvaða smáfyrirtæki og jafnvel þó nokkuð stór fyrirtæki lifa af.

Óhófsneyslan er ekki lengur bundin við einstaklinga heldur samfélagsvandamál sem veldur heilsubresti, jafnvel hjá börnum. Velmegunarsjúkdómar eru stór fjárhagslegur baggi á samfélaginu og sukkið birtist einnig í spillingu stjórnmálafólks og annarra valdamanna.

Kynferðisleg misnotkun og kúgun eru einnig menningareinkenni. Í mörgum samfélögum er kynlífsþjónusta eina leið fátæklinga (jafnvel barna) til að lifa af. Ríkari þjóðir viðhalda ástandinu í stað þess að gefa fólki aðra valkosti og klámvæðingin ýtir undir þá hugmynd að það sé í lagi að svala fýsnum sínum á dýrum, börnum og dópistum. (Ég tek samt fram að ég vil ekki láta banna klám, ekki frekar en kleinuhringi eða borgarstjóraskipti.)

Í rauninni er hægt að tengja flest samfélgasmein dauðasyndunum sjö. Þó er eitt sem er ekki beinlínis hægt að flokka sem neina af þessum syndum en ég held að sé kannski versta bölið. Það er hlutverk höggormsins. Hlutverk freistarans sem í dag birtist í misheiðarlegri sölumennsku. Hvernig stendur á því að það hefur aldrei verið flokkað sem dauðasynd að beita öllum þekktum sálfræðilegum aðferðum til að telja fólki trú um að það verði að fremja dauðasyndir til að eygja möguleikann á hamingju?

 

 

Share to Facebook

One thought on “Versta syndin

  1. ——————-

    Þegar stórt er spurt…

    Posted by: Kristín | 11.03.2008 | 23:05:02

    —   —   —

    Bara eitt sem ég skil ekki.

    Ber þá framvegis að tala um dauðasyndirnar fjórtán?
    Eða dauðasyndirnar sjö eldri og yngri?

    Posted by: HT | 12.03.2008 | 11:00:29

    —   —   —

    P.s.

    Kannski full drýgindalegt að segja að það sé bara eitt sem ég skil ekki í þessu máli öllu…

    Posted by: HT | 12.03.2008 | 11:02:46

    —   —   —

    Ég veit ekki hvernig þeir í Vatíkaninu hugsa þetta. Fjölmiðlum ber ekki einu sinni saman um hverjar þessar nýju dauðasyndir séu. Ég veit heldur ekki hvernig þeir ætla að afgreiða þetta sjálfir. Ætli þeir búist við að stjórnarmeðlimir Alcoa gangi til skrifta og heiti iðrun og yfirbót? Eða verða skriftabörn hér eftir spurð hvort þau flokki sorpið?

    Posted by: Eva | 12.03.2008 | 11:33:02

    —   —   —

    Mætti ekki kasta þeim gömlu fyrir róða og taka upp þær nýju? Þessar gömlu voru einungis upphugsaðar til að halda fáfróðum og guðhræddum múgnun þægum og vinnandi.

    Posted by: Gillimann | 12.03.2008 | 14:31:12

     

    —   —   —

    Ég sé að þú hefðir átt að fara í guðfræði Eva. Þú hefur alla vega hæfileikana til þess.

    Skemmtilegar vangaveltur. Það er rétt hjá þér að gömlu dauðasyndirnar dekka þær nýju en ætli það fari ekki framhjá flestum? Held að almenningur sé ekki eins fær í guðfræði/siðfræði og þú. 🙂

    Posted by: Þorkell | 12.03.2008 | 22:08:37

     

    —   —   —

    Skilur ekki neitt í Vatíkanu í þessu máli ? Dauðasyndirnar eru :
    Luxuria (extravagance, later lust), Gula (gluttony), Avaritia (greed), Acedia (sloth), Ira (wrath), Invidia (envy), and Superbia (pride).
    Þetta kom fram hjá Gregory 1 páfa á árunum 590 til 604 e. krist svo þetta hefur legið fyrir um nokkurn tíma. Það er hins vegar athyglisverður púnktur að maður verði sekur um dauðasynd persónulega fyrir aðgerðaleysi gagnvart ranglæti heimsins almennt.

    Posted by: Guðjón Viðar | 13.03.2008 | 10:02:19

     

    —   —   —

    Ég var að svara HT, sem spurði hvort ætti að tala um dauðasyndirnar 14 eða hinar gömlu og nýju. Hef ekkert séð frá Vatíkaninu um það mál.

    Posted by: Eva | 13.03.2008 | 17:45:10

Lokað er á athugasemdir.