Þetta snýst ekki bara um Láru Hönnu

Því miður ríkir lítill metnaður gagnvart málfari og ritstíl á íslenskum fjölmiðlum og daglega birta íslenskir netmiðlar erlendar fréttir og greinar sem eru svo illa þýddar að maður fer hjá sér af skömm yfir því að verða vitni að öðru eins.  Hér eru nokkur nýleg dæmi.

Þó það var ekki létt, þá stoppaði Hathfield að borða kolvetni, sem breytast í glúkósa í líkamanum. Krabbamein elskar glúkósa og þarfnast hans sárlega. Ef þú hættir að gefa því glúkósa þá drepst krabbameinið. “Mér þykir það furðulegt að læknavísindin eru fyrst að fatta þetta núna” segir hann.

lkl.is

Jæja þetta er kannski ekki „alvöru“ fjölmiðill en sá næsti er gífurlega vinsæll ef marka má Blogggáttina.

 

Það tók ekki langan tíma fyrir Robert Pattinson að fara út á djammið og hitta stúlkur. Aðeins viku eftir að leikaraparið í stormasama sambandinu hættu saman sást hann úti á lífinu. Sást til leikarans um kl. 1 eftir miðnætti á Roosevelt hótelbarnum í L.A. drekkandi kokteila og daðra við fallega, dökkhærða stúlku þrátt fyrir að ekki hafi verið um snertingar að ræða.

bleikt.is

Bleikt er auðvitað „bara“ afþreyingarvefur svo það er kannski ekki við því að búast að þar séu gerðar kröfur um vandaðar þýðingar en jafnvel fréttamiðlar birta svotil daglega gullkorn á borð við þessi:

 

Bönnuð frá kennslustofu eftir að hafa reynt ítrekað við nemanda

Fyrirsögn á dv.is

Hamburg var að vinna leikinn örugglega og hegðunin óskiljanleg. Nincevic lá eftir rotaður og fossblæddi úr honum. Í fyrstu var óttast að hann væri með brotið kinnbein en svo var ekki. Hann fékk þó alvarlega heilahristing og stóran skurð á andlitið.  „Það var risastór hola á andlitinu á honum,“ sagði Igor Vori, leikmaður Hamburg, eftir leikinn en Nincevic fékk fimm sentimetra skurð í andlitið.

visir.is

 

„Öll okkar eru að starfa í skattakerfi sem hefur verið mjög langvarandi og var sett upp fyrir fjölda ástæðna sem ég og aðrir skiljum ekki, en svona virkar alþjóðlega skattaumhverfið,“ bætti Schmidt við.

mbl.is

 

Oftast eru þýðingar á vef Ríkisútvarpsins nokkuð góðar en þó eiga slysin sér stað þar líka.

Hlutabréf rétta úr kútnum í Japan

Fyrirsögn á ruv.is

 

Þýðingar eru vandasamt starf og það segir nokkuð um það hversu vanmetið það er að vefmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega skuli ekki leggja áherslu á að ráða góða þýðendur og jafnvel láta nægja að renna erlendum greinum í gegnum þýðingavél.

Þegar sjónvarpsstöð segir upp samningum við sína reyndustu þýðendur getum við reiknað með að textasetning á sjónvarpsefni verði álíka góð og þýðingar á netmiðlunum. Skjátextagerð er ekki samskonar vinna og þýðingar á auglýsingatexta, blaðagrein eða skáldsögu. Þýðandinn þarf oft að stytta textann og sum verkefni þarf auk þess að vinna hratt. Jafnvel fólk sem hefur einhverja reynslu af þýðingum þarf þessvegna þjálfun til þess að vinna góðan skjátexta.

Sjálfsagt finnst sumum sjónvarpsáhorfendum alveg nóg að merkingin komist til skila en sjónvarpsstöð sem reynir ekki að mæta kröfum þeirra sem vilja lesa vel unninn skjátexta gæti alveg eins losað sig við færa myndatökumenn og ráðið nýgræðinga í staðinn. En vonandi nýtur starf myndatökumannsins ofurlítið meiri virðingar en störf þýðandans og prófarkarlesarans. Þau störf eru greinilega ekki hátt skrifuð.

Einnig birt hér

Share to Facebook