Þessvegna kýs ég ekki Borgarahreyfinguna frekar en aðra flokka

Margir hafa undrast viðbrögð mín við Borgarhreyfingunni og ég get svosem skilið að fólk sem er samdauna þeirri hugmynd að fulltrúalýðræði sé æðsta birtingarmynd réttlætis og frelsis telji Borgarahreyfinguna vera beinlínis róttækt skref í átt til þátttökulýðræðis. Flestir virðast ekki skilja að rót þeirrar spillingar og valdníðslu sem var forsenda efnahagshrunsins, og sem allt okkar afar vonda viðskiptasiðferði hvílir á, er sjálft stjórnkerfið.

Fjármálakerfið okkar, stjórnkerfið og flokkakerfið sjálft eru valdapýramídar sem byggjast á þeirri grunnhugmynd að sá sem hefur mikið, skuli hafa forgangsrétt á því að fá meira, hvort heldur er af völdum eða verðmætum. Kerfið þrífst á valdafíkn og ég efast um að það vímuefni sé til sem er meira ávanabindandi en valdið. Við búum í samfélagi sem er gegnsósa af annarsvegar þessari fíkn  í völd og auð og hinsvegar meðvirkni þeirra sem engin hafa völdin. Leiðin út úr þessum hugsunarhætti (eða veikindum eða hvað maður á að kalla það), getur ekki legið í gegnum kerfið sem elur á honum og styrkir hann, ekki frekar en fjárhættuspil er tæk leið út úr fjárhagsvanda eða ecstasy út úr þunglyndi.

Borgarahreyfingin er samsafn af fólki sem vill svo sannarlega vel. Það er gott og yndislegt fólk í þessum flokki, eins og reyndar í öllum flokkum. Þau eru þó ekkert yfir mannlegt eðli hafin og munu ekkert funkera betur í þessu rotna kerfi spillingar og valdníðslu en aðrir. Það er ekki hægt að ástunda samvinnu í kerfi sem er beinlínis hannað sem vígvöllur. Þau munu því missa sig í sama þvaðrið og annað gott fólk á þingi, eyða heilu dögunum í þref sem gegnir helst þeim tilgangi að hafa betur og grípa hvert tækifæri til að gera pólitíska andstæðinga sína tortryggilega.

Sú stefna Borgarahreyfingarinnar að leggja sjálfa sig niður þegar markmiðin hafi náðst, gengur einfaldlega ekki upp. Þetta hefði hugsanlega gengið ef þau hefðu haft eitt markmið og gefið sér þröngan tímaramma til að ná því en með því að setja sér mörg og óljós markmið er þessi hópur búinn að stofna ósköp venjulegan stjórnmálaflokk. Setjum sem svo að bið verði á því að þau nái markmiðinu: Rofin verði öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims. Ég sé fyrir mér að menn geti bæði greint á um hvað skuli teljast hagsmunatengsl og hvaða hagsmunatengsl séu óeðlileg. Það má því allt eins búast við að þetta mál velkist í  þinginu í mörg ár. Á þeim tíma munu koma upp mörg mál sem alþingismenn verða að taka afstöðu til. Þráinn Bertelson mun ekkert sitja árum saman á þingi án þess að setja fram kröfur um bætta þjónustu við sjúka og aldraða og ef ég þekki t.d. Birgittu rétt verða komin fram markmið um að við tökum afstöðu til mannréttindamála á alþjóðavettvangi. Ætlar einhver að segja mér að eftir 7 ár, þegar Borgarahreyfingin kemst loks að þeirri niðurstöðu að nú hafi öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims verið rofin, þá muni þetta ágæta fólk leggja flokkinn niður og hlaupa þar með frá þessum markmiðum sínum? Auðvitað ekki, en á þeim tíma verða þau líka löngu búin að missa allan áhuga á því að færa völdin til almennings. Ekki af því að þau séu ekki gott fólk, heldur vegna þess að völd eru félagsverur, vald sækir þangað sem vald er fyrir.

Um leið og fólk gengur til liðs við stjórnmálaflokk, verður það hluti af hjörð. Það gefur skoðanir sínar upp á bátinn fyrir hagsmuni flokksins, sem eru alltaf og óhjákvæmilega þeir að fá völd og viðhalda þeim. Við horfum á þetta gerast hjá Borgarahreyfingunni eins og öðrum flokkum og það á ótrúlega stuttum tíma. Birgitta Jónsdóttir, kona sem hefur barist ötullega gegn stóriðju, neitaði þannig að tjá persónulega skoðun sína á umhverfismálum á borgarafundi í gær! Þessi mikla baráttukona er bara skyndilega horfin. Kannski tekst henni að verða hrái laukurinn á pulsunni, rífa dálítið í lýðræðisbragðlaukana en því miður, hún er orðin hluti af pulsunni, hún mun tala fyrir aðra áður en hún talar fyrir sjálfa sig, sem er fullkomin mótsögn við hugmyndina um þáttökulýðræði. Birgitta er meðal þeirra Íslendinga sem ég hef virt hvað mest en í fullri hreinskilni, það verður engin stjórnkerfisbylting þótt hún og hennar félagar komist á þing.

Borgarahreyfingin er byggð á fallegri hugsjón sem gengur ekki upp. Hún er hluti af þessu pulsulýðræði okkar. Ég er svekktari út í Borgarahreyfinguna en nokkurn annan stjórnmálaflokk af því að ég bjóst við öðru af þessu fólki en að þau gengjust inn þá blekkingu að hægt sé að bylta kerfinu með því að spila með.Svo það er þessvegna sem ég kýs ekki Borgarahreyfinguna frekar en neinn annan flokk. Af því að hún er hluti af fulltrúalýðræðinu, þessu pulsulýðræði sem ýtir undir andvaraleysi almennings og færir æ meiri völd og auð á æ færri hendur.

One thought on “Þessvegna kýs ég ekki Borgarahreyfinguna frekar en aðra flokka

  1. —————————————————————–

    Birgitta neitaði ekki að tjá skoðun sína, hún sagði að skoðun hennar skipti ekki máli því það væri þjóðin sem ætti að ráða, ekki hún eða aðrir flokksmenn.  Ég held að allir viti að hún er á móti frekari stóriðju.

    Ég er sammála þér með að í Borgarahreyfingunni sé aðallega gott fólk.  Það verður því áhugavert að fylgjast með þeim á þingi.  Það er mín skoðun að ef meðlimir hennar spillist af þingsetu, þá sé það sönnun þess að núverandi stjórnkerfi gangi ekki upp.

    Borgarahreyfingin hefur ekki áhuga á að vera hluti af þessu fulltrúalýðræði sem þú talar um.  Hún vill auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslu svo fólk eins og ég og þú fáum að hafa eitthvað um málið að segja.

    Með því að kjósa ekki eða skila auðu ertu bara að kjósa alla flokka og suma frekar en aðra.  Þú getur logið því að þér að með því sértu að taka einhverja afstöðu, en staðreyndin er sú að þá hefur þú bara engin áhrif.

    Það er svosem ágætt að segja frá því í partíum og svona, en það er samt öllum bara alveg sama.

    Björn I (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 10:02

    —————————————————————–

    Ég ætla að kjósa Borgarahreyfinguna. Það er mín yfirlýsing. Ég er samt svo sammála þér að mörgu leiti. Enda hef ég alltaf sagt „byltingin fer ekki í framboð“

    Ég var að velta því fyrir mér um daginn, þegar stjórnarskránni var hent í ruslið, af hverju fór fólkið ekki niður á Austurvöll? Ég fór að spá í hvort ég hafi haft rangt fyrir mér og byltingin væri í raun og veru farin í framboð og væri þ.a.l upptekin við annað og hefði ekki tíma til að sinna tilgangi sínum.

    Málið er að við erum búin að sanna að við getum haft áhrif á annan hátt en í stjórnmálum og þetta hef ég sagt við forystumenn hreyfingarinnar og þetta er ástæða þess að ég er ekki sjálf í framboði.

    Ég ætla að kjósa þau. en ég vona að sú blekking sé ekki enn í gangi að borgarahreyfingin sé byltingin sjálf. Ég vona að Birgitta, Gunnar, Herbert, Lilja og þau öll, lesi þennan fína pistil og sýni að þau hafi bein í nefinu og kunni að taka gagnrýni

    Aðalheiður Ámundadóttir, 23.4.2009 kl. 10:08

    —————————————————————–

    Björn, ég skrifa um gagnsemi þess að skila auðu hér.

    Eva Hauksdóttir, 23.4.2009 kl. 10:25

    —————————————————————–

    Góð grein hjá þér.

    Ég er nokkuð á sama máli og þú varðandi Borgarahreyfinguna og ég er nokkuð viss um að Íslendingar koma ekki til með að eignast þann mann sem komist getur í gegnum „stjórnmálin“ óskaddaður.

    Ég hef meiri trú á því að B. Obama takist að ná fram, í gegnum alþjóðamálin, meiri breytingum á Íslandi en núverandi og verðandi stjórnmálamönnum á Íslandi.

    Ég hef um þrennt að velja í þessum kosningum:  a) Sitja heima b) Fara á kjörstað og skila auðu c) Fara á kjörstað og kjósa Borgarahreyfinguna.

    Eitt af þessu vel ég, en ég tek ekki ákvörðun fyrr en á laugardag.  

    Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 11:01

    —————————————————————–

    .. Það stendur líka í stefnuskrá þeirrar hreyfingar sem um ræðir að hún muni leggja sig niður þegar/ef  augljóst er að þeirra markmið nái ekki fram að ganga…

    því fleiri sem skila auðu því betri verður útkoma fjórflokksins..

    það er til hreyfing sem boðar persónukjör þvert á flokka og helst án flokka ,Meira vægi þjóðaratkvæðagreiðslna ofl oflofl.. fyrir utan að vera ekki heilaþvegin af flokkunum frá frumbernsku!!!

    Þjóðina á þing Páll ekki kasta atkvæði þínu á glæ!!!

    Hinrik Þór Svavarsson, 23.4.2009 kl. 11:40

    —————————————————————–

    Og hvenær er þetta ‘þegar’?

    Eva Hauksdóttir, 23.4.2009 kl. 12:05

    —————————————————————–

    Er eðli mannsins ekki treystandi? Ef maður frelast þá fær maður nýtt eðli! Blóð Jesús hylur alla synd. Það þarf hugarfarsbreytingu á Íslandi. Meiri heiðarleika. Hætta að stela. Hugsa um náungann. Semsagt allt þetta sem Jesús boðaði.

    Jón bóndi (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 13:10

    —————————————————————–

    Jón bóndi, Jesús var nú reyndar aldrei eini talsmaður þess að fólk ætti að vera heiðarlegt og samúðarfullt.

    Maður fær ekki nýtt ‘eðli’ við að ganga í trúfélag, bara nýja afneitun.

    Eva Hauksdóttir, 23.4.2009 kl. 13:36

    —————————————————————–

    Er ekki að tala um trúfélag. Beint samband milliliðalaust. That’s it. Prufaðu!

    Jón bóndi (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 13:50

    —————————————————————–

    Maður á kannski að vera þakklátur að fá ekki álög á sig frá norninni?

    Birgitta svaraði ákaflega vel spurningunum um ESB og stóriðju. Svör hennar komu að kjarna málsins: Hennar afstaða skipti ekki höfuðmáli, heldur hennar vilji til að tryggja að afstaða þjóðarinnar komi fram. Afstaða Evu Hauksdóttur skiptir síðan enn minna máli!

    Ekki setja álög á mig og enga þorskhausa takk. Plís.

    Friðrik Þór Guðmundsson, 23.4.2009 kl. 13:51

    —————————————————————–

    Hvernig má vera að mín afstaða skipti minna máli en afstaða Birgittu Jónsdóttur? Jú, vegna þess að Birgitta er komin á kaf í flokkapólitík og flokkapólitík gengur einmitt út á það að sumir einstaklingar séu mikilvægari en aðrir. Það viðhorf endurspeglast í öllum störfum stjórnmálaflokkanna og jafnvel málhefðin á Alþingi afhjúpar þá hugmynd að þingmenn séu ‘háttvirtir’, ólíkt hinum lítilsvirta skríl og ráðherrar hvorki meira né minna en ‘hæstvirtir’. Mun Borgarahreyfingin halda þá hefð í heiðri þegar á þing kemur, þrátt fyrir fullyrðingar um að álit einstakra manna skipti ekki máli.

    Þetta er nú lýðræðið sem við erum neydd til að styðja, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

    Eva Hauksdóttir, 23.4.2009 kl. 13:59

    —————————————————————–

    Góð grein hjá þér Eva. Ég er í grundvallaratriðum sammála þér, en hef hins vegar tekið þá aðstöðu að kjósa í þeirri von að hreyfingunni takist að breyta málunum.

    Þú hefur þá skoðun hins vegar að flokkar séu ónýtir og spillandi, og því sé það út í hött að nota flokk til að eyðileggja flokkakerfi. Mér finnst þetta áhugaverð pæling hjá þér.

    Ég held að Borgarahreyfingin sé einmitt ekki flokkur og megi alls ekki verða það. Ef hann verður þá, þýðir það að þú hafðir rétt fyrir þér.

    En hvað ef þú hefur rangt fyrir þér, væri ekki rétt að leyfa þeim að njóta vafans, og nota flokkakerfið til að leggja niður flokkakerfið ?

    Sérðu aðra leið betri?

    Þetta er eins og búið sé að smíða hamar með forláta vél, og síðan er hamarinn notaður til að rústa vélinni. Vandinn er bara sá að þá standur hamarinn kannski enn eftir…

    Þú ert föst í kviksyndi kosninga Eva, rétt eins og við hin. Annað hvort lætirðu þig bara drukkna eða berst aðeins á móti. Ég held að við eigum betri séns ef fleiri berjast á móti. En að það sé þversögn í því að berjast á móti þar sem við notum það sem við erum að berjast gegn er einfaldlega pæling sem er það djúp að hver þarf að sinna fyrir sig.

    Flott hugvekja!

    Ég kýs samt XO

    Hrannar Baldursson, 23.4.2009 kl. 14:05

    —————————————————————–

    skemmtilegar skoðanir hjá þér.

    ég mun kjósa Borgarahreyfinguna af þrennuum ástæðum:

    1) ég snerti fjórflokkinn ekki svo mikið sem með priki.

    2) ég nýti atkvæði mitt og skila ekki auðu.

    3) þrátt fyrir hártoganir um tímapunkta hefur flokkurinn markmið, önnur en álver og froðustjórnmál.

    ég hefði alveg getað valið Samfó. stefna þeirr samrýmist minni að mörgu leiti. bara of mörg fífl þar, eins og víðast hvar.

    um Þráinn vil ég segja þetta. hann hefur kannski ekki talað eins og rökfylltur bolti en hann hefur talað frá hjartanu. þannig fólk vil ég á þing. fólk með sterka réttætiskennd.

    Brjánn Guðjónsson, 23.4.2009 kl. 14:26

    —————————————————————–

    síðasti ræðumaður hjómaði nokkuð skynsamur þangað til hann sagði X-D. Svona svipað og fara með hina fullkomnu ræðu um mannúð og taka svo upp byssu og skjóta varnarlaust dýr.

    Hvernig getur verið hægt að vilja ekki kjóa Borgarahreyfinguna ?

    Ég er ósamala mörgum hér sem segjast vera sammála þér í kjarnanum. Ég er þér gersamlega ósammála. Ef maður ætlar ekki að treysta fólki sem hefur mánuðum samann unnið sjálfboðaliðastarf í aðdraganda húsáhaldabyltingarinnar, að þá mun maður aldrei treysta nokkurri manneskju í þessum heimi. Þetta er nákvæmlega sami andinn og að fara til útlanda að vinna með þeim sem eru að glíma við fátækt og hungursneyð. Allt af því maður vill gera heimin betri og er ekki að spá í sjalfann sig ! Ef maður treysti ekki vona fólki þá mun maður aldrei treysta nokkuru manneskju fyrir neinu. Það er ofureinfallt !

    Birgitta Jónsdóttir seldi ekki sannfæringu sína. Þvert á móti þá stóð hún með henni. Hún er að vonast til þess að Borgarahreyfinginn nái sem mestu fylgi til að hafa sem mest áhrif. Það er ekkert að því að vera smá pólitískur til að ná markmiðum sínum.

    Í kjarnann er þetta svona. Ef fólk hefur sýnt í VERKI í lífi sínu að það er með hugsjónir óháðar peningum og völdum. Að þá er það fólk langlíklegast til að breyta einhverju.

    Það hlýtur að vera sorglegt hlutskipti að geta aldrei kosið neina manneskju á ævinni vegna flokkaótta.

    Þú þarft að átta þig á því að þetta fólk vill ekki vera með flokka. Þau vilja valdið til fólksins. Ef þú skilar auðu þá ertu að gefa fjórflokkunum meiri völd. Það er þín arfleifð.

    Ég kýs Borgaraflokkinn X-O

    Í fysta skipti á ævinni lýður mér frábærlega með hvað ég er að kjósa.

    Már (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 14:31

    —————————————————————–

    Bíddu ég náði þessu ekki alveg. Skiptir afstaða frambjóðenda Borgarahreyfingarinnar ekki máli og afstaða almennra borgara enn minna máli.

    Ég veit að þetta er ekki það sem þú hafðir í huga en kommon… Það er allílagi að stökkva í vörn en gerið það þá málefnalega en ekki með einhverjum móral. Ef þið eruð öðruvísi en fjórflokkurinn, þá er lágmark að það skíni í gegn í andsvörum ykkar.

    Ég styð Borgarahreyfinguna – en ekkert stjórnmálaafl mun ég styðja í blindni, ekki heldur Borgarahreyfinguna. Ég hef rétt á því að gagnrýna þá sem ég styð og hef væntingar um að þeirri gagnrýni verði tekið öðruvísi en flokkarnir hafa gert hingað til.  Ég vona að ég verði ekki fyrir vonbrigðum.

    Aðalheiður Ámundadóttir, 23.4.2009 kl. 14:32

    —————————————————————–

    Og Brjánn, sem talað algerlega frá mínu hjarta. Einn helsti gallinn við þessar kosningar er að með aðstoð fjölmiðla eru þær farnar að snúast algerlega um froðu, en ekki um grundvallaratriði eins og traust, siðferði, lýðræði, heiðarleika, samfélag, bræðralag o.s.frv. Af þessum ástæðum hefur Borgarahreyfingunni ekki gengið sem best að koma sínum málum á framfæri á ‘borgarafundum’ (hvað er það by the way??), því eingöngu er spurt um froðu!

    Aðalheiður Ámundadóttir, 23.4.2009 kl. 14:35

    —————————————————————–

    Persónulega tek ég alltaf afstöðu og lít sem svo á að sá sem kýs ekki- kýs meiri hlutan. Þessvegna ætla ég að kjósa vinnstri græna eða borgarahreifinguna.

    Brynjar Jóhannsson, 23.4.2009 kl. 14:54

    —————————————————————–

    Már, hver sagði X-D???

    Það er ekki það að ég treysti ekki fólkinu. Ég treysti ekki kerfinu. Það væri ofurmannleg krafa til nokkurrar manneskju að þrífast innan þess án þess að fara annaðhvort á geðinu eða verða því samdauna.

    Þeir sem fara í sjálfboðastarf á svæði þar sem örbirgð, stríð eða önnur vandamál ríkja, eru ekki að breyta heiminum með því að taka þátt, heldur er þetta neyðarhjálp. Sumir reyna að breyta ástandinu innan frá með starfi fyrir SÞ eða aðrar alþjóðastofnanir en það skilar ákaflega litlu. Þeir sem breyta stjórnháttum eru ekki fólkið sem tekur þátt í kerfinu heldur þeir sem rísa gegn því.

    Eva Hauksdóttir, 23.4.2009 kl. 14:59

    —————————————————————–

    Sami rassinn undir þeim öllum. Herra hæstvirtur vanabí pólitíkus Friðrik Þórafhjúpaði sig þarna í einni setningu og staðfestir þar með að hvert orð sem þú segir Eva er satt. Animal farm, all over again

    X-autt

    Svanur Gísli Þorkelsson, 23.4.2009 kl. 21:36

    —————————————————————–

    kerfið býr ekki til fólkið. fólkið býr til kerfið

    þess vegna þurfum við Birgittu, Þráinn og öll hin til að bæta kerfið.

    ekki Sjóð 9, Engeyjarprinsinn eða þá alla.

    Brjánn Guðjónsson, 23.4.2009 kl. 21:53

    —————————————————————–

    Þetta er einmitt það sem ég er að vandræðast með þessa dagana. Mig langar að trúa á þessa fallegu hugsjón en eg held innst inni að hún sé fullkomlega óraunhæf.

    Mig langar t.d. að vita hvort Borgarahreyfingin væri tilbúin til þess að mynda stjórn og ef svo er með hverjum og hverjum alls ekki. Og hvaða mál þau eru þá til í að styðja til þess að koma sínum að og hvaða mál þau vilja alls ekki setja nafn sitt við. Er flokkurinn tilbúin til þess að vera í stjórnarandstöðu með Sjálfstæðisflokknum og leita stuðnings þangað með sín mál og styðja þá væntanlega á móti. Ætla þingmenn flokksins að hafa sitthvorar skoðanir á hlutunum eða munu þeir starfa sem atkvæðahjörð.

    Hvernig ætla þeir að halda sér hreinum í þessum spillingardrullupolli sem við nefnum alþingi. Ég leyfi mér að segja að það sé ekki hægt að koma sínum málum áfram þarna innandyra án þess að spila leikinn og styðja mál annarra gegn þeirra stuðningi í þínum málum og ef þú spilar leikinn HVAÐ ERTU ÞÁ? Hinn klassíski íslenski stjórnmálamaður kannski, þeir eru nú líklega flestir þarna af því þeir höfðu/hafa hugsjónir alveg eins og frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar.

    Ég myndi a.m.k. vilja heyra frá Borgarahreyfingunni að þeir séu búnir að velta þessum málum fyrir sér og hverjar þeirra siðareglur verði þegar á alþingi er komið. Ætla þau að bera undir hreyfinguna öll mál áður en þau greiða atkvæði á þingi?

    Takk fyrir greinina, gott að sjá að það eru fleiri að spá í þessu

    Hippastelpa, 24.4.2009 kl. 00:14

    —————————————————————–

    Sæll Eva. Ég sá snemma að hverju stemdi, var að vona að menn tækju sér ekki far með öldunni og við yrðum sterkt afl áfram. Við vorum sterk sem þrýstihópur, en mannlegt eðli er samt við sig. Ég er búinn að standa marga vaktina í þessum mótmælum en kannast ekki við marga af svokölluðu „Búsáhaldabyltinga mönnum“ .Baráttukveðja. Árni Hó

    Árni Kristjánsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 00:22

    —————————————————————–

    Óskiljanleg þessi endemisvitleysa að fólk hafi einhver áhrif með að skila auðu!

    Bull held ég!

    Kristján H Theódórsson, 24.4.2009 kl. 00:23

    —————————————————————–

    Fyrir tíu árum eða svo ákvað eg að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn. Þar var hugsjónafólk sem vildi gera vel.  Sérstaklega var þar tekist á um mesta óréttlæti íslandssögunnar kvótakerfið.  En það var samt margt gott sem var unnið að og málefnin góð.  Það sem gerðist í fyrsta lagi var að samfélagið (fjölmiðlarnir) ákváðu að þaga þessa hreyfingu í hel.  Hinir flokkarnir svokallaðir fjórflokkar ákváðu það sama.  Fyrir hverjar einustu kosningar síðastliðin tíu ár hefur Frjálslynda flokknum verið spá dauða.  Skoðanakannanir í lámarki og svokallaðir stjórnmálafræðingar keppst um að reyna að drepa flokkin niður.

    Íslendingar eru í flestum tilfellum algjörir þverhausar, þeir vilja bara hafa sinn fjórflokk í friði, og ókey það má svo sem koma eitt svona gæludýraauka eitthvað með, en bara eitt.  Sem skýrir af hverju fólk hér á blogginu keppist nú við að hygla Borgarahreyfingunni með því að segja að hún TAKI VIÐ AF FRJÁLSLYNDA FLOKKNUM, sem einu sinni enn er við dauðans dyr að mati sérfræðinganna.

    Og þá spyr ég; er það eitthvað náttúrulögmál að það séu bara fjórir flokkar á þingi og einn smá auka.  Af hverju geta ekki verið til dæmis sex eða sjö flokkar þar inni.  Gæti ekki verið að breiddinn í hugsun yrði fjölbreyttari og öðruvísi með fleiri sjónarmið innanborðs.

    Nei við erum eitthvað svo mikið þverhyggjufólk, þess vegna kviknar ekki neitt nýtt, heldur pössum við vandlega upp á að allir fari nú í sama farið.  Það er helst fólk eins og Eva sem hugsar öðruvísi.  Og ég, við nornir reyndar.

    En ef íslendingar væru víðsýnni og hugsuðu meira praktískt, þá byggjum við sennilega öll í kúluhúsum, sem eru ekki bara praktískasta aðferðin við að byggja hús, heldur líka andlega meira rými.  Hve margir á Íslandi búa í slíkum húsum? ef til vill tíu fjölskyldur… eða minna.

    Nei meðan við erum svona þröngsýn og þver gerist ekki neitt af viti.  Við erum endalaust að eltast við eigið skott, ríka og fallega fólkið og samsömum okkur við það eins og þjónkun við Sjálfstæðisflokkinn sýnir greinilega.

    Og þá segi ég, Guði sé lof fyrir fólk eins og Evu Hauksdóttur sem þorir að hugsa öðruvísi og ekki bara hugsa, heldur lætur skoðun sína í ljós.

    Ég er ánægð með fylgi Borgarahreyfingarinnar, og vona að hún komi vel út í kosningunum á laugardaginn.  Ég vona líka að minn flokkur komi vel út, og jafnvel lýðræðishreyfing Ástþórs, því ef þessi nýju framboð og Frjálslyndir koma vel út, þá er það sýnilegt að fólk hefur ákveðið að þora að fara aðrar leiðir en vanalega.   Þá á lýðræðið smásjens, annars ekki.

    Þá getum við bara gleymt því að það sé hægt að vera hér í lýðræðissamfélagi án spillingar, því ég er alveg sammála því sem Eva Hauksdóttir segir hér að framan, vald spillir, og um leið og fólk er farið að finna hve valdið er notalegt, þá er svo erfitt að ganga til baka, jafnvel þó það sé besta fólk með góðar hugsjónir.  Hvað þá eftir 18 ára slímsetu við kjötkatlana.  Það ætti að setja þak á hve lengi manneskjur geta setið á alþingi helst ekki lengur en tvö kjörtímabil.  Svo þessi spilling nái ekki að byrgja mönnum sýn og þeir fari að líta á þjóðina sem leppa sína sem eru þar eingöngu til að þjóna ráðamönnum, og fá náðarsamlegast að kjósa þá aftur fjórða hvert ár.  Með sömu lygina og loforðafroðusnakkið að vopni.

    Takk fyrir mig og gleðilegt sumar.

    Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.4.2009 kl. 00:32

    —————————————————————–

    Sammála þér Eva, frá mínum bæjardyrum séð er það kerfið sem er gallað…það skiptir engu máli hvaða flokkur er í meirhluta, meðan sama kerfið er til staðar, þá hjökkum við í sama farinu. Hversvegna vill Borgarahreyfingin ekki aðskilja löggjafa- og framkvæmdavaldið að fullu og öllu?

    Ég tek einnig undir það að af því  fólki sem stendur til boða, lýst mér einna best á Borgarahreyfinguna, en í gegnum tíðina hefur maður fengið hverja sönnuina á fætur annari fyrir því að hugsjónirnar eru það fyrsta sem er verslað með þegar komið er á þing. Besta fólk veslast upp og gufar upp í flokkakerfinu…kerfinu sem hefur aðeins einn tilgang..að viðhalda sjálfu sér.

    Haraldur Davíðsson, 24.4.2009 kl. 00:41

    —————————————————————–

    Að skila auðu, er = dautt atkvæði.   Það er skylda okkar að kjósa, vegna þess að kosningarrétturinn er ekki sjálfgefinn.  Þar er ekki langt síðan konur fengu ekki að kjósa, ekki viljum við svoleiðis lýðræði?   X-O  Þjóðin á þing.

    Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.4.2009 kl. 01:39

    —————————————————————–

    Táknmynd fjórflokkanna endurspeglast á lista Borgarahreyfingarinnar, þ.e. 1. sæti í Reykjavík norður. Er virkilega einhver svo einfaldur að halda að útbrunninn framsóknarmaður sem fór í fýlu og það a.m.k. tvisvar við flokkinn sinn komi til með að breyta miklu? Að auki skal sá sami ríghalda í opinberan bitling sem öllum er það þiggja til skammar. Ég hefði gjarnan viljað sjá áhrif Borgarahreyfingarinnar verða að veruleika og allt gott sem þar er sett fram en því miður þá er Þráinn Bertelsson ekki sá boðberi og ég bý í Reykjkavík norður.

    Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 09:10

    —————————————————————–

    Mér finnst það nú frekar meðmæli með Þráni en hitt að hann skuli hafa áttað sig á ruglinu hjá Framsókn. Ég væri alveg vís með kjósa hann í persónukjöri en þetta gylliniæðarflokkakerfi snerti ég ekki með járntöngum og sótthreinsunarklút.

    Eva Hauksdóttir, 24.4.2009 kl. 09:40

    —————————————————————–

    Sæl Eva.

    Ég ætla að KJÓSA og það ætla ég svo sannarlega gera. Og ég ætla að kjósa Borgarahreyfinguna X – O. Ég vil fá breytingar og uppstokkun á kerfinu.

    Ég er sammála þér í flestöllu sem þú minnist á, en að skila auðu er ekki rétt afstaða. Ég hef verið virkur í mótmælum í kjölfar hrunsins og ég vil fá rótækar breytingar á lýðræðinu.

    Borgarahreyfingin er nýtt afl og ÓMENGAÐ af spillingu.  Það er stóra málið í þessu. Það er engin skuggaleg fortíð hjá Borgarahreyfingunni. Hún er ný og fersk. Hún er hrein upp fyrir haus.

    Við sem kjósum Borgarahreyfinguna erum fólk sem er búið að fá sig fullsatt af spillingu og sérhagsmunum og við munum fylgjast vel með okkar fólki á þingi og veit því það aðhald sem þarf til. Ég er róttækur í skoðunum og ég líð ekkert kjaftæði frá mínu fólki á þingi. Ég treysti á það að þessir fulltrúar okkar taki til hendinni og láti ekki gömlu flokkana komast upp með neitt múður.

    VIÐ VERÐUM AÐ NOTA KOSTNINGARÉTTIN.

    Þeir sem skila auðu tryggja óbreytt ástand og það er EKKI hægt að sætta sið við það.

    Við getum að sjálfsögðu mætt á Austurvöll og mótmælt og það er aldrei að vita nema við gerum það en núna höfum við tækifæri í kostningum til að ná fram breytingum og það skulum við gera og kjósa Borgarahreyfinguna. X – O.

    Eggert. (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 00:19

    —————————————————————–

    Hvað fær þig til að halda að Borgarahreyfingin nái meiri árangri en aðrir innan sama kerfis? Heldurðu að t.d. Samfylkingarfólk og vinstri græn telji sig ‘líða eitthvert kjaftæði’ frá sínum þingmönnum?

    Það er nákvæmlega sama hvað þú kýst, hvort þú skilar auðu eða situr heima; það sem þú færð alltaf er valdapýramídi, þar sem á toppnum tróna örfáir menn, faldir á bak við stórfyrirtæki, sem stjórna öllum hinum og segja bara trúnó og leyndarmál þegar þú vilt fá að vita hvað gengur á.

    Á 80 dögum hefur ekki eitt einasta mál verið afhjúpað, þrátt fyrir yfirlýsingar um gegnsæi og allt upp á borðið. Það er ekki af því að Jóhanna sé svo spillt, heldur af því að við búum við ónýtt kerfi. Birgitta mun ekkert svipta hulunni af því hvers vegna hryðjuverkalögum var beitt gegn Landsbankanum. Þráinn mun ekkert uppræta spillingu því hún er innbyggð í kerfið.

    Að segja að við verðum að nota kosningaréttinn er svipað og að segja að við verðum að setja hæfan bílstjóra undir stýrið á ónýtum bíl. Það sem við þurfum að gera er að skipta fyrst um bíl áður en við veljum bílstjóra.

    Eva Hauksdóttir, 25.4.2009 kl. 02:37

    —————————————————————–

    Nákvæmlega! Loksins heyri ég gagnrýna, mannlega hugsun! Eitthvað sem á skilið að vera kallað því nafni annað en þvættingurinn sem heyrist vanalega í hinni svokallaðri almennu umræðu. Hugsun sem ekki er hlekkjuð, mótuð og skilyrt af hinum ráðandi stéttum og núverandi stjórnskipulagi, hugsun sem þorir virkilega að komast til botns í hlutunum og draga fram og fordæma það sem, samt sem áður blasir við öllum en enginn sér vegna þess tangarhalds sem búið er að ná, ekki bara á fólkinu í landinu og eignum þess heldur huga þeirra. Það myndi ég segja að væri það ógnvænlegasta við núverandi ástand. Því hvað er í raun og veru peningar og eignir? Tilbúin tengsl sem eru aðeins raunveruleg innan núverandi skipulags. Peningar eru samt í rauninni alls ekki slæmir í sjálfu sér, ekki á meðan að við áttum okkur á því hvað þeir raunverulega eru: ekki neitt. Þegar þessi grundvallar sannleikur glatast og við förum að trúa því að það sem við sköpuðum sé eitthvað raunverulegt, eitthvað lögmál sem fyrirfinnst í heiminum (markaðslögmálin?), þá er eitthvað gríðarlega mikið að samtímanum, eins og flestir skynsamir menn hafi held ég löngu áttað sig á. Það sem er samt alvarlegast er að fólk, vegna ofantalinna atriða áttar sig ekki einu sinni á alvarleika málsins.

    Ekki það að það sé einhver barnaleikur að brjótast út úr hugmyndafræði samtímans. Margir (Hegel, Lacan, Foucault t.d.) hafa bent á að sá draumur að komast undan hugmyndafræði í eitt skipti fyrir öll, að komast út úr valdatengslunum og kúguninni sé í raun og veru ekki mögulegt. Við getum að sjálfsögðu hrist af okkur tiltekna hugmyndafræði eins og t.d. rússneska byltingin sýndi okkur, en vandamálið er að við förum þá alltaf inn í aðra sem tekur við. Þetta er bara hluti af grundvallarformgerð mannlegrar tengsla og samfélaga.

    En þrátt fyrir það þarf maður ekki að vera svartsýnn. Margir hafa viðurkennt þessa staðreynd en samt sem áður bent á að, þrátt fyrir að nútíma, vestræn, (frjálslynd), tæknisamfélög hafa algjört tangarhald á almenning, völd sem eru tryggari en allt sem við höfum séð hingað til, þá er samt von. En skiptar skoðanir eru um möguleika okkar á breytingum, Herbert Marcuse t.d. reiddi sig á stúdenta og taldi að þeir væru þeir einu sem hefðu tækifæri til að koma á einhverjum breytingum. Theodor Adorno var mun svartsýnni og taldi að tími byltingarinnar væri liðinn, við hefðum farið framhjá tímapunktinum þar sem hefði verið hægt að breyta hlutunum og nú súpum við seyðið af því í kviksyndi hugmyndafræði nútíma vestrænna ríkja. Í rauninni er sú stjórnun og kúgun sem við sjáum í nútímanum bara afleiðing af hugsjónum upplýsingarinnar, það er bara núna sem við fáum að finna fyrir þeim í verki, upplýsingin innihélt alltaf fræ þeirrar kúgunar og stjórnunar sem við sjáum í kringum okkur í dag. Heimspekin ætti því að einbeita sér að róttækri og djúpri samfélagsgagnrýni í þeim tilgangi að afhjúpa hugmyndafræðina sem síast inn í alla mannlega hugsun og stjórnar henni.

    Ok, svolítið langt comment, ég var bara svo ánægður með postið þitt, það hitti naglann svo á höfuðið, einmitt þegar ég var farinn að gefa upp vonina á að fólk gæti í rauninni hugsað, nýtt sér það sem við köllum mannlega hugsun, það er bara ekki á allra vitorði að það er svo mun meira en almennt er talið.

    En ég held að þetta sé gott í bili, en vildi bara segja í lokin: takk fyrir Eva! Vegna þessarar færslu er ég ekki alveg eins svartsýnn 🙂

    Helgi H. (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 04:54

    —————————————————————–

    Borgarahreifingin er flott hreifing.

    En sá viðtal við Þráinn Bertelsson þar sem hann var spurður hvort hann ætlaði að afþakka 1.8 milljónir á ári sem hann fær sem heiðurslistamaður eða hvað sem það heitir, ef hann kemst á þing þar sem hann fær borgað yfir hálfa milljón, plús nefndarstörf þá getur tékkinn farið upp í 6-7 hundruð þúsund á mánuði.

    Svarið var nei. Hann ætlar að halda heiðurspeningunum … en hann lofaði samt að eyða þeim ekki í vitleysu. Þó það… 

    Hvað segir það við öryrkja og ellilífeyrisþega sem eru að fá á milli 130 og 150 þúsund MAX .. á mánuði.

    Fannst þetta soldið sérstakt.

    AceR, 25.4.2009 kl. 16:46

    —————————————————————–

    Eva er málefnaleg að vanda og ég skil nákvæmlega hvað hún er að tala um.

    Eina sem ég veit er að við ræðum þessa hættu mikið. Og það að við séum meðvituð um hana og höfum af því áhyggjur er það sem róar mig mest hvað þetta varðar.

    Okkur langar til að ná því að þingmenn og grasrótin séu eitt. Okkur dreymir um að hreyfingin sem stendur utan þings grípi inn í ef okkur grunar að fólkið okkar á þingi sé að stíga í átt til hefðbundinna refskáka og byrjað að hallast að þessum hugsjónadoða og hagsmunapot….. fallast á að fylgja málum gegn…blabla… allur þessi subbuskapur.

    Okkur dreymir um að verða öðruvísi en þú gerir ráð fyrir Eva. Kannski tekst okkur það, kannski ekki…. En við ætlum svo sannarlega að leggja okkur öll fram

    Heiða B. Heiðars, 26.4.2009 kl. 05:48

    —————————————————————–

    Jæja ég vona það líka Heiða mín, sannarlega.

    Eva Hauksdóttir, 26.4.2009 kl. 10:11

Lokað er á athugasemdir.