Þegar vottar Jehóva banka upp á

Um daginn talaði ég við konu sem er svo hrædd við áhrif neikvæðra hugsana og tilfinninga að hún þorir varla að horfa á fréttirnar. Það er sko svona rosalega öflugt þetta aðdráttarlögmál að maður bara síkrítar til sín ógæfu ef maður horfist í augu við stríð og aðrar óþægilegar staðreyndir. Ég velti því fyrir mér hvað hún ætlar að gera ef hún kemur á slysstað. Þakka ‘the Universe’ fyrir að allir í báðum bílunum séu heilir á húfi og aka burt án þess að athuga málið, svona til að laða ekki að sér fleiri slys?

Elskan. Vondar tilfinningar eru eins og trúboðar. Þær banka upp á í þeim tilgangi að fylla hausinn á þér af kjaftæði og það er alger óþarfi að bjóða þeim inn. En ef húsvörðurinn í blokkinni þinn er mormóni eða vottur Jehóva, þá felur þú þig ekkert þegar hann bankar upp á. Þú ferð til dyra og athugar hvað hann vill þér. Sennilega er hann bara kominn til að gera þér aðvart um eitthvað sem þú þarft að bregðast við. Biðja þig að taka þátt í að hreinsa lóðina eða segja þér að á morgun verði skrúfað fyrir vatnið vegna viðgerða.

Það er engin skynsemi í því að hundsa neikvæðar tilfinningar. Hlutverk þeirra er eins og hlutverk húsvarðarins, að fá okkur til að bregðast við einhverju sem gæti annars komið okkur í vandræði eða fengið okkur til að taka vondar ákvarðanir. Svo þegar neikvæðar hugsanir banka upp á, farðu þá til dyra og hlustaðu á erindið. Hafðu bara hugfast að húsvörðurinn er með helling af ranghugmyndum og ef tilgangur hans er sá að segja þér að heimsendir sé að nálgast og þú getir reiknað með að fara til helvítis nema þú breytir kynhegðun þinni eða tónlistarsmekk, ekki þá bjóða honum inn.

Neikvæðar hugsanir eru ekki hættulegar nema maður leyfi þeim að koma inn ranghugmyndum hjá sér. Hvað vill þessi tilfininning þér? Það er það sem skiptir máli. Ef tilfinningin segir þér að þú sért feitabolla eru það þá gagnleg skilaboð eða bara einhver þvæla? Ef þú ert sannarlega feitabolla, segðu þá takk fyrir að láta mig vita, og gerðu svo eitthvað í því. Ekki neita að opna bara af því að skilaboðin eru óþægileg. Þú þarft ekkert að bjóða feitunni í kaffi og láta hana eyðileggja fyrir þér daginn, skilaboðin eru komin til þín og húsvörðurinn ætlar hvort sem ekkert að leysa verkefnið fyrir þig, hann á bara að láta þig vita.

En hvað ef þú ert alls engin feitabolla en feitan bankar samt upp á? Nú þá er húsvörðurinn kominn út fyrir starfsvið sitt. Ef húsvörðurinn kemur til að segja þér að heimsendir sé í nánd og þú á leið til helvítis, ætlarðu þá að bjóða honum inn? Ef ekki, segðu þá feitunni, ljótunni, blönkunni eða hver svo sem böggarinn er, að þú hafir ekki áhuga. Lokaðu svo dyrunum og talaðu við einhvern skemmtilegri.

Og ef skaðinn er skeður, ef þú ert búinn að hleypa heimsendafólkinu svo oft inn að það er farið að ganga inn óboðið eða setja fótinn milli stafs og hurðar þegar þú ætlar að afþakka heimsóknina, þá getur verið að þú þurfir að reka það burt með harðri hendi, það gæti jafnvel gengið svo langt að þú þyrftir að leita hjálpar. Oftast, langoftast, virkar þó það sama á neikvæðar hugsanir og á trúboða; að brosa stirðlega í kurteisisskyni og segja; nei takk, ég hef bara engan áhuga á hlusta á þetta.

Share to Facebook

One thought on “Þegar vottar Jehóva banka upp á

  1. —————————-
    Þetta er góður pistill sem gaman væri að sem flestir læsu. Gagnlegt jafnvel.
    En facebook-sendi-græjan hjá þér er í einhverju ólagi.

    Posted by: Toggi | 29.03.2011 | 8:10:28

    —————————-

    Takk 🙂

    Ég er fáfróð um tölvur og tækni og kann ekkert að stilla þetta. Ég lendi sjálf í vandræðum með að senda á fb þegar ég nota firefox en ef ég nota explorer get ég sent. Ef einhver veit hvernig stendur á þessu og hvað ég þarf að gera til að laga þetta, þá þigg ég leiðbeiningar með þökkum.

    Posted by: Eva | 29.03.2011 | 10:17:04

    —————————-

    Takk fyrir þennan pistil Eva mín.
    Góð lesning.

    Posted by: Guðrún Þorleifs | 29.03.2011 | 10:28:14

    —————————-

    Orð að sönnu en hægara sagt en gert (sjaldan er ein klisjan stök hjá mér).

    Posted by: baun | 29.03.2011 | 20:42:58

    —————————-

    Jamm, það er ekki alltaf auðvelt að bægja niðurbrjótandi hugsunum frá sér og kannski á það ekkert að vera auðvelt. En það er jafn galið að reyna að afneita þeim og að velta sér upp úr þeim. Ef fólk hættir að fylgjast með fréttum af því að þær eru svo neikvæðar, endar þá ekki bara með því að það má heldur ekki flytja fréttir sem eru neikvæðar?

    Posted by: Eva | 29.03.2011 | 22:23:28

    Umhugsunarefni: af hverju eru aðallega fluttar neikvæðar fréttir?

    Posted by: Margrét | 29.03.2011 | 23:19:48

    —————————-

    Góð spurning Margrét Rósa. Þetta er nú svosem efni í heila bók, eða jafnvel bókaflokk.

    Ég held að það sé ekki til neitt eitt einfalt svar en ég er nokkuð viss um að ein stærsta ástæðan fyrir neikvæðum fréttaflutningi er sú að við búum í samfélagi þar sem fáir ráða of miklu. Það leiðir til mjög neikvæðra atburða sem er nauðsynlegt að almenningur sé meðvitaður um. Auk þess getur það af sér neikvætt hugarfar; tortryggni og dómhörku fremur en uppbyggilega gagnrýni, vonleysi og vanmáttarkennd fremur en baráttuvilja.

    Tilgangur frétta er sá að halda okkur upplýstum og gefa okkur kost á að bregðast við, þessvegna þurfa fjölmiðar að fylgjast grannt með bralli ráðamanna. Völdum fylgir spilling og fréttamenn sem sjá um að afhjúpa þá sem stjórna örlögum okkar, virðast alltaf að nógu að taka. Margt af því neikvæðasta í fréttum, t.d. stríð, mengunarslys og efnahagshrun, stendur í beinu sambandi við þá staðreynd að fáir hafa völd til að taka afdrifaríkar ákvarðanir.

    Við sjáum líka mikið af neikvæðum fréttum af atburðum sem ekki stóð í mannlegu valdi að afstýra, t.d. náttúruhamförum en ef við gætum losað okkur við allt ógeðið sem fylgir valdabröltinu, yrðu neikvæðar fréttir mun færri. Ef við gætum losað okkur við stríð og stórfyrirtækjastefnu væri og auk þess til nóg af peningum og mannafla til að draga úr slæmum afleiðingum náttúruhamfara, slysa og annarra hörmunga. Ekki af því að við yrðum ríkari, heldur af því að gildismatið myndi breytast.

    Ég held að samfélag sem nærist á efnishyggju og valdabrölti, stuðli mjög að öfundssýki, illgirni og hnýsni og það leiðir bæði til þess að almenningur verður áhugasamari um hneykslismál en það sem vel er gert. Hægt er að mjólka frétt af dónakalli í margar vikur og einkalíf fræga fólksins vekur endalausan áhuga, einkum það ljótasta við það. Mér finnst eðlilegt að reyna að loka augunum fyrir slíkum fréttum því varla varðar það almannahag þótt hafi sést i nærbuxur einhverrar stjörnunnar. Okkur varðar hinsvegar um stríð og stórslys og það er nákvæmlega ekkert jákvætt við að loka augunum fyrir ábyrgð okkar.

    Maður temur sér ekki jákvætt hugarfar með því að forðast að horfast í augu við hörmungar. Það væri hinsvegar góð æfing í jákvæðni að skrifa fleiri athugasemdir við jákvæðar fréttir og forðast þátttöku í umræðu sem hefur ekki annan tilgang en þann að troða einhvern í svaðið eða halda uppi þrasi sem leiðir ekkert nýtt í ljós.

    Posted by: Eva | 30.03.2011 | 7:47:15

Lokað er á athugasemdir.