Tell Your President

Ætlaði að henda útprentun af þessari bókarlufsu um dvölina í Palestínu í fráfarandi forseta í þessari Íslandsferð en hann er búinn að liggja í flensu greyskarnið og er svo að fara vestur á Ísafjörð í fyrramálið. Ég fæ samt að fleygja henni inn á borð hjá Örnólfi á morgun.

Reyndar frekar lamað að afhenda útprentun af rafbók en mér finnst ég þurfa að gera þetta einhvernveginn formlega. Ekki að það skipti máli, ég reikna svosem ekki með að hann Ólafur Ragnar fái svo mikinn frítíma á næstunni að hann muni liggja löngum stundum yfir dagbók einhvers mannréttindalúða en þetta var nú bara loforð sem ég gaf slökkviliðsstjóranum í Nablus í ágúst 2008. „Tell Your President“ sagði hann og þar sem mér var töluverti niðrí fyrir og reiknaði ekki með að Óli og Dorrit nenntu að hafa mig inni á gafli í viku, fór ég þá leið að skrifa bók.

Það tók ekki svona voðalegan tíma að skrifa hana, þetta er bara dagbók, en ég á ekki umbrotsforrit og búsett í útlöndum hafði ég ekki greiðan aðgang að Ingó. Allt tekur tíu sinnum lengri tíma en maður heldur. Frágangurinn tók 20 sinnum lengri tíma. Ég hefði einhvernveginn haskað þessu af fyrr ef ég hefði haldið að það skipti máli en maðurinn er góðkunningi ráðamanna í Peking, svo hvaða von er til þess að hann hafi áhuga á málefnum Palestínu? Góð afsökun fyrir mig.

Ojæja, það kemur annar forseti eftir þennan. Sennilega hugguleg sjónvarpskona. Aldrei hef ég heyrt að hún hafi áhuga á neinu sem skiptir máli en það getur svosem vel verið að hún hafi gífurlegan áhuga á Palestínu. Spurning hvort ég ætti að senda henni pdf skjal, bara svona fyrir mína eigin samvisku.

Össur kannski? Ekki finnst mér ESB hljóma vel en hann er allavega manna vísastur til að segja eitthvað á þeim vettvangi. En hann þarf engar lýsingar frá mér því hann veit svosem alveg hvernig þetta er með hana Palestínu. Eins og Ólafur Ragnar. Og Þóra. Eins og allt þetta fólk sem gæti gert eitthvað.

Share to Facebook