Svar til Sigurjóns

Á bloggsíðu Heimis L. Fjeldsted hefur skapast áhugaverð samræða milli mín og Sigurjóns Vilhjálmssonar um áliðnaðinn. Þar sem við Sigurjón erum komin nokkurn veg frá efninu sem Heimir lagði upp með, finnst mér hálf óviðkunnanlegt að einoka bloggið hans undir þá samræðu. Ég kýs því að svara Sigurjóni hér.Sæll Sigurjón

Þú veltir því fyrir þér hversvegna hreyfingin heiti Saving Iceland og kenni sig við náttúruvernd, þegar mannréttindi á öðrum svæðum jarðarinnar skiptir hana svo miklu máli.

SI hefur það að meginmarkmiði að forða náttúru Íslands frá því að vera lögð í rúst. Annað stórt markmið er að þrýsta á álfyrirtæki og ríkisstjórnir um að virða rétt fólks til lífsafkomu, öryggis og heilbrigðis. Við getum ekki litið á Ísland sem einangrað fyrirbæri, umhverfisáhrif á Íslandi koma öllum við og umhverfisáhrif á Jamaica koma öllum við líka. Það sama á við um meðferðina á manneskjum, Samhliða og í tengslum við Saving Iceland starfa ýmsar hreyfingar í sama anda og ber þar fyrst að nefna Saving Trinidad & Tobago.

Ég er sammála þér um það að stjórnvöld ættu ekki að láta þetta viðgangast. Eitt vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er það að valdið er smámsaman að flytjast frá ríkisstjórnum og yfir til stórfyrirtækja. Rík fyrirtæki geta auðveldlega falsað gögn, kúgað og mútað og blekkt. Jafnvel á Íslandi frjálsrar fjölmiðlunar, komast stórfyrirtæki upp með svona blekkingarleiki:

án þess að stjórnvöld og fjölmiðlar átti sig á því. Og þegar spilling og fáfræði bætist við andvaraleysið, gerast ljótir hlutir. Það sem hefur breyst á Jamaica er að báxítnámum hefur fjölgað. Það sama á við um Ástralíu.

Af hverju heldurðu að myndböndin sem ég benti á séu frá 1992? Ég er alls ekki að rengja þig og það er alveg hroðalegur galli hjá JEBO að tímasetja ekki efni sitt almennilega, en ég hélt að Rusal hefði keypt Windalco 2007 og á fyrsta bandinu kemur fram að nú eigi Rusal Windalco. Ég hélt þessvegna að þetta væru frekar nýleg nýlegbönd. Endilega leiðréttu mig ef mér skjátlast. Hér eru tenglar á greinar sem er ekki aftan úr fornöld en ég er ekki með neinar glænýjar heimildir fyrir framan mig. http://www.corpwatch.org/article.php?id=14201http://epubl.luth.se/1404-5508/2003/087/LTU-SHU-EX-03087-SE.pdf

Vandamálin eru því miður ekkert bara á Jamaica og Indlandi. Fátæklingar um allan heim þjást vegna yfirgangs stóriðjunnar, fyrir nú utan það að framtíð jarðarinnar er bara í stórhættu. Við getum ekki, sem siðferðisverur, horft fram hjá þessu, bara vegna þess að stóriðjan skapar nokkur störf á Íslandi. Við verðum að þrýsta á ríkisstjórn Íslands um að hætta að greiða götu fyrirtækja sem hegða sér svona. Við verðum líka að beita fyrirtækin beinum þrýstingi en bíða ekki bara eftir að stjórnvöld átti sig.

Share to Facebook

One thought on “Svar til Sigurjóns

 1. ——————————–

  Þakka fyrir svörin.

  Ég hef ekki beinlínis neitt annað fyrir mér en að mér heyrðist á einu myndbandinu talað um 1992, hvort sem það var þá aftan úr forneskju eða samtímasaga.  Auk þess eru mynd- og hljóðgæði það slæm að manni gæti dottið í hug að um væri að ræða gamlar upptökur.  En, ég get ekki staðið og fallið með því.

  Ég hef persónulega ákveðna samkennd með málstaðnum sem þú tíundar hér að ofan og ég er alveg hjartanlega sammála því að stórfyrirtæki eigi ekki að stjórna stjórnvöldum í neinu ríki, sérstaklega lýðræðisríki.  Það er oft illa farið með fólk í nafni framfara og þróunar, ,,stóru heildarinnar“, þar sem hagsmunir beggja togast á.  Til að mynda voru hundruð þúsunda fólks flutt nauðungarflutningum frá svæðinu þar sem stóra vatnsaflsvirkjunin og stíflurnar í Gulafljóti standa nú.  Það er slæmt að heyra og fæ ég alltaf ákveðinn sting þegar ég heyri af hörmungum fólks sem lendir í slíku.  Ég bara rétt vona að það hafi fengið jafngott eða betra jarðnæði í staðinn, en stjórnvöld í Kína eru ekki þekkt fyrir neina linkind gagnvart sínum borgurum.  Við búum sem betur fer ekki við slíkar aðstæður.

  Nú er það líka svo að áliðnaðurinn (eins og flestur iðnaður) mengar, hvort sem er báxítnámurnar eða vinnslan sjálf, að ógleymdu fullvinnsluferlinu.  En þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning: Eigum við að hætta að nota ál?  Hvað með stál?  Stáliðnaðurinn mengar líka og vafalaust verður fólk fyrir verulegu raski hans vegna.  Svo vaknar líka spurningin: Er hægt að vinna þetta einhvern veginn öðruvísi, þannig að ekki hljótist skaði af í umhverfinu, eða að fólk fái algjörlega að vera í friði?  Ég er ekki viss…

  Fyrir mér lítur þetta út fyrir að vera barátta gegn stórfyrirtækjum, fremur en náttúruvernd.  Þ.e.a.s. að hún sé eins konar skálkaskjól fyrir hinni fyrrnefndu.  Ég get þó ekki fullyrt að sú sýn sé endilega rétt, eða svo klippt og skorin.  Hins vegar fyndist mér að fólk eigi að kalla hlutina réttum nöfnum.

  Þá komum við að baráttuaðferðunum sem notuð eru.  Ég get ekki sett mig á bakvið þær, nema að litlu leyti.  Fólk er að leggja sig og aðra í hættu með þessum aðgerðum (hlekkja sig við vinnuvélar og fleira í þeim dúr) og stundum jafnvel hreinlega að skerða frelsi samborgara sinna, sbr. atvikið fyrir austan þegar starfsfólk verkfræðistofu var læst inni með fleyg.  Þessar baráttuaðferðir varpa skugga á málstaðinn og taka athyglina burt frá honum.  Alla vega sýnist mér það.

  Sumsé: Málstaðurinn góður, aðferðirnar ekki jafn góðar.

  Pís át! 

  Sigurjón, 24.7.2008 kl. 14:14

  ——————————–

  Náttúruvernd og mannréttindabarátta haldast í hendur.  Náttúrverndarsjónarmið voru hvatinn að því að Saving Iceland hreyfingin var mynduð en síðan hefur komið inn margt fólk með aðra þekkingu en þá sem fyrstu SI liðarnir höfðu og eftir því sem við lærum meira, því betur sjáum við að það er ekki hægt að aðgreina þetta tvennt. Ég vona að það sé ekki meðvitað hjá þér hvað það hljómar illa að nota orðið ‘skálkaskjól’ í þessu sambandi því mér finnst það enginn skálksháttur að vinna að mannréttindamálum. Sú áhersla þarfnast ekki réttlætingar, fremur en áherslan á umhverfisvernd.

  Ég veit ekki nóg um stáliðnaðinn til að vilja fullyrða að það sé æskilegt að leggja miklu meiri áherslu á hann. Ég veit þó að til að endurvinna ál þarf aðeins 5%-10% af þeirri orku sem notuð er í frumvinnsluna og að það þarf ennþá minni orku til að framleiða stál en að endurvinna ál. Það er ekki við því að búast að meginhluti áls verði endurunninn á meðan álfyrirtækin fá nánast frítt land á Indlandi (tekið frá þeim bástöddustu sem hafa ekki einu sinni næga menntun til að skrifa kvörtunarbréf) og nánast fría orku á Íslandi.

  Ég held ekki að það sé raunhæft að við hættum að nota ál. Ég held hinsvegar að það sé alveg nóg komið. Að hverju þarf heimurinn svona miklu meira ál í dag en fyrir 50 árum? Vorum við óhamingjusöm áður en við fórum að sturta í okkur gosdrykkjum (úr áldósum og plastflöskum) í lítravís á hverjum degi? Áttu framhaldsskólanemar svona bágt þegar þeir þurftu að taka strætó í skólann?

  Þetta er ekki bara spurning um umhverfisstefnu og mannréttindi. Við verðum líka að temja okkur pínulítið meiri hófsemi. Þótt ég hafi megna andúð á þeirri þróun að stórfyrirtæki stjórni heiminum, þá berum við líka mikla ábyrgð sem neytendum og verðum að byrja á sjálfum okkur. Við getum ekki tekið afstöðu gegn umhverfisspjöllum en verið afstöðulaus gagnvart neyslunni. Við verðum bæði að draga úr neyslu okkar almennt og einnig að nota efni sem valda ekki jafn hroðalegum umhverfisspjöllum, jafnvel þótt þau séu dýrari.

  Eva Hauksdóttir, 24.7.2008 kl. 15:14

  ——————————–

  Varðandi aðgerðina á Reyðarfirði sem þú vísar til, þá ríkir heilmikill misskilningur um hana. Þetta er eina aðgerðin sem hefur verið gerð í nafni Saving Iceland sem misheppnaðist gjörsamlega en það er algerlega út í hött að líkja henni við gíslatöku eins og sumir hafa gert.

  Hugmyndin var upphaflega sú að loka skrifstofu yfirmannsins svo hann kæmist ekki inn, en ekki að loka fólk inni. Fyrir misskilning og skort á skipulagi fór aðgerðin úr böndunum og einhver setti fleyg undir hurð. Gott ef ekki stól líka. Fyrir mér hljómar þetta nú meira eins og fát en hryðjuverk. Reyndar voru aðrar dyr opnar um leið og hinum var lokað, svo það var í raun enginn lokaður inni en þar sem þær dyr voru venjulega lokaðar á þessum tíma, má vera að einhver hafi talið sig vera innilokaðan. Enginn sýndi þó nein merki um ótta og engum var beinlínis meinaður útgangur.

  Í réttahöldunum kom fram að a.m.k. einn maður hefði farið út, óáreittur og fleiri báru að þeir hefðu aldrei haft á tilfinningunni að þeir væru innilokaðir. Myndband frá aðgerðinni sýnir mótmælendur sitja algerlega passíva á stólum. Það fóru engin átök fram og engar ógnanir.

  Þessi aðgerð fór úr böndunum fyrir klaufaskap. Það er auðvitað slæmt og ég vona að slíkt endurtaki sig ekki en tilgangurinn var aldrei sá að svipta neinn frelsi sínu.

  Eva Hauksdóttir, 24.7.2008 kl. 15:34

Lokað er á athugasemdir.