Sorplögguvesen hjá Reykjavíkurborg?

imgname-recycling-innovation-with-invaluable-benefits-blips-on-the-greendar-50226711-containers-thumb-jpgÉg er stödd í blokkarhverfi í Glasgow. Í kjallaranum eru þrír gámar fyrir hvern stigagang. Einn fyrir sorp, einn fyrir gler og einn fyrir pappa, plast og málma.

Ég bjó í pínulitlu smáþorpi í Danmörku í tvö ár. Við hvert einasta hús voru flokkunartunnur.

Ég dvaldi nokkra mánuði í smábæ í Noregi. Í hverri götu voru flokkunartunnur með þriggja-fjögurra húsa millibili.

Ég heimsótti í Hrísey í sumar, þar eru flokkunargámar í hverri götu. Ég veit ekki hversu langt Akureyringar þurfa að rölta með ruslið sitt og væri til í að heyra álit Akureyringa á því hvort þjónustan hafi batnað eða versnað með tilkomu flokkunargáma.

Hversvegna þarf þetta að vera vandamál í Reykjavík? Af hverju eru borgaryfirvöld að reyna að ala fólk upp í umhverfismeðvitund með því að neyða það til að taka sérstaka afstöðu til þess hvernig það losar sig við rusl,  og hrella það með hótunum um að tunnur verði ekki tæmdar, í stað þess að gera umhverfisvænar aðferðir einfaldari og þægilegri? Dettur virkilega engum í hug að þeir sem eiga ekki 6500 kr reyni frekar að fela pappa í gráu tunnunni en að koma pappanum á endurvinnslustöð?  Eða jafnvel að fátæklingar, sem hafa ekki efni á aukatunnu eða aukalosun, safni sorpi upp fyrir utan heimili sín með tilheyrandi hættu á að meindýr laðist að. Hvernig á að fylgja eftir kröfum um engan pappa í sorpið? Er ætlast til þess að sorphirðufólk fari í gegnum ruslið og hvernig á það þá að meta hvort er of mikill pappi í tunnunni? Er nóg að eitt eldhússrúlluhylki og einn eggjabakki sé í tunnunni til þess að hún verði ekki losuð? Hvert er viðmiðið? Er viðmiðið það sama fyrir bróður sorphirðumannsins og óvin hans?

Hversvegna eru flokkunartunnur ekki bara inni í opinberum gjöldum? Hefur borgarstjórn vitneskju um að það fyrirkomulag hafi valdið vandræðum annarsstaðar eða er þetta bara einhver óútskýrður vandræðagangur?

—-
Uppfært:

Ég bendi lesendum á að skoða umræðurnar hér. Af hverju er bæklingi um sorphirðu í Reykjavík dreift í öðrum sveitarfélögum? Þetta er þó ekki útskýrður vandræðagangur?

Share to Facebook