Skilaboð mín til Erlings Freys Guðmundssonar

Fúskið á íslenskum fjölmiðlum er löngu hætt að koma mér á óvart svo þótt mér þyki miður að fjölmiðlaveldi 365 segi upp hæfu fólki, get ég ekki sagt að ég sé beinlínis hissa á því.  Ég er hinsvegar furðu lostin yfir því að nokkrum skuli detta í hug að standa að uppsögn á þann hátt sem lýst er í fyrrnefndum pistli Láru Hönnu.

Lára Hanna Einarsdóttir lýsir eftir orði yfir þá hegðun:

að segja upp verksamningi við 57 ára gamlan starfsmann eftir 25 ára starf með 20 daga fyrirvara – með einum tölvupósti.

Mér koma ýmis orð í hug en flest þeirra væri óviðeigandi að birta á opinberum vettvangi.  Ég finn ekki netföng starfsmanna á netsíðu 365 miðla en ég fann Erling Frey Guðmundsson á facebook og sendi honum eftirfarandi skilaboð:

 

Sæll Erling Freyr

Ég finn ekki netföng starfsmanna á vefsíðu 365 miðla og sendi þér þessvegna skilaboð hér.  Erindi mitt varðar pistil Láru Hönnu Einarsdóttur þar sem hún segir frá því hvernig staðið var að uppsögn hennar og annarra þýðenda Stöðvar 2.  Ég geri ráð fyrir að þú hafir lesið hann.

 

Miðla 365 setti verulega niður þegar prófarkalesurum var sagt upp og nú bítið þið hausinn af skömminni með því að reka ágæta þýðendur sem auk þess að vinna skjátexta hafa sjálfir þurft að villulesa textana sína.

Það þarf mikla þjálfun til þess að vinna góðan skjátexta.  Ef þýðendur sem hafa litla reynslu af skjátextagerð verða látnir sjá um mjög krefjandi verkefni og þurfa jafnvel að vinna þau í tímaþröng, getum við reiknað með að textun á klassískum kvikmyndum og fréttatengdu efni verði framvegis álíka vönduð og þýðingar á lífsstílssíðum netmiðlanna.  Það er mörgum áhorfendum raun að lesa vondar þýðingar en einnig ber að hafa í huga að skjátexti er stór hluti þess texta sem börn og unglingar lesa.  Vinsælir fjölmiðlar ættu því að líta á það sem siðferðilega skyldu sína að halda ambögum og innsláttarvillum í lágmarki.

 

Fúskið á íslenskum fjölmiðlum er löngu hætt að koma mér á óvart svo þótt mér þyki miður að fjölmiðlaveldi 365 segi upp hæfu fólki, get ég ekki sagt að ég sé beinlínis hissa á því.  Ég er hinsvegar furðu lostin yfir því að nokkrum skuli detta í hug að standa að uppsögn á þann hátt sem lýst er í fyrrnefndum pistli Láru Hönnu.  Maður sviptir fólk ekki lifibrauði sínu með tölvupósti.  Því síður fólk sem hefur þjónað fyrirtækinu af trúmennsku í áratugi og allra síst þegar það er bæði að takast á við erfiðleika og komið á aldur sem hefð er fyrir að atvinnurekendur líti á sem ókost.

 

Svona gerir maður ekki Erling Freyr og ég lýsi hér með andstyggð minni á þessari framkomu sem ég vona sannarlega að hafi verið vanhugsuð.

Ég á engin viðskipti við 365 miðla sjálf en ég mun hvetja áskrifendur Stöðvar 2 til að segja áskriftinni upp og auglýsendur til að sniðganga alla miðla í eigu 365, þar til Lára Hanna og aðrir þýðendur sem fengu uppsagnarbréf hafa verið beðnir afsökunar og þeim gefinn kostur á að halda áfram án þess að kjör þeirra verði skert eða verkefnum fækkað.

Með kveðju
Eva Hauksdóttir

Eins og kemur fram í bréfi mínu til Erlings Freys er ég ekki í aðstöðu til þess að segja upp viðskiptum við 365 miðla.  Ég ætla heldur ekki að nýta mér „ókeypis“ þjónustu miðla 365 framvegis.  Það eru auglýsendur sem kosta þá þjónustu og ég vil ekki gera neitt til að halda þeim í þeirri trú að það borgi sig fyrir þá að skipta við fyrirtæki sem hegðar sér á þennan hátt.  Mörg þúsund manns hafa nú dreift pistli Láru Hönnu og fréttum Eyjunnar, Moggans og DV af sögu hennar og ég vona að þeir muni allir sem einn sniðganga 365.