Silfurreynirinn líklega friðaður

Kvennablaðið greindi fyrr í dag frá undirskriftasöfnun íbúa við Grettisgötu.

Að sögn aðstandenda undirskriftasöfnunar er talið að trénu sem talað er um í kynningartextanum hafi verið plantað árið 1908, það sé því friðað samkvæmt byggingarreglugerð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íbúar við Grettisgötu mótmæla því að tré séu felld vegna framkvæmda. Í garðinum við Grettisgötu 17 eru fleiri gömul og glæsileg tré og fyrir nokkrum árum stóð til að fella 50 ára gamalt tré vegna skólplagnar en íbúum tókst að afstýra því.

Tré eru menningarverðmæti

Það eru ekki aðeins íbúar við Grettisgötu sem efast um réttmæti þess að fella silfurreyninn sem stendur við Grettisgötu 17. Garðyrkjufræðingurinn Hafsteinn Hafliðason kemst þannig að orði á Facebooksíðu sinni:

„Silfurreynirinn er frískur og fínn. Þarna hefðu borgaryfirvöld átt að setja kvöð um að við þessu tré yrði ekki hróflað. En til vara að ef það væri óhjákvæmilegt, þá skyldi flytja það á fagmannlegan hátt með góðum og faglegum undirbúningi. Og leggja um leið til nægilega stóra lóð fyrir það (a.m.k. 60 fermetra). Aldargömul tré eru menningarverðmæti, ekki síður en annar menningararfur frá gengnum kynslóðum. En heimska, dónaskapur, fáfræði og hugsunarleysi græðginnar hefur víst yfirtökin í þjóðfélaginu um þessar mundir.”

Væri hægt að flytja tréð?

Málið vekur margar spurningar, meðal annars um það hvaða reglur gildi um það hvaða tré megi fella og hvort sé hægt að færa þau. Kvennablaðið leitaði til Vilmundar Hansen garðyrkjufræðings.

Vilmundur  telur að löngu sé orðið tímabært að taka tilit til eldri trjáa við byggingarframkvæmdir enda séu tré hluti að sögunni alveg eins og hús.

Að sögn Vilmundar er mögulegt að flytja svo stórt tré enda séu tré af þessari stærð flutt erlendis með stórvirkum vinnuvélum. Hann segir það þó erfitt verk sem krefjist mikils undirbúnings og tæki líklega um tvö ár í framkvæmd.

Vilmundur segir að til þess að flytja stór tré með góðum árangri þurfi rótarhnausinn að vera mjög stór svo ræturnar skemmist ekki. Helst þurfi að finna lóð á svipuðum slóðum og síðan þurfi að sinna trénu vel með vökvun næstu ár á eftir. Aðspurður segist hann ekki vita til þess að svo stór silfurreynir hafi verið fluttur á Íslandi.

Hægt er að undirrita áskorun til Reykjavíkurborgar hér.

Share to Facebook