Ótrúverðug mistök

Almennur borgari stendur fyrir undirskriftasöfnun sem stjórnvöldum líkar stórilla. Hann er boðaður á fund ráðherra en fundarboðið einnig sent á yfirmann hans. Þetta þykir að vonum undarlegt uppátæki og menn velta fyrir sér tilgangnum. Aðstoðarmaður ráðherra sendir frá sér yfirlýsingu um að bréfið hafi verið sent yfirmanninum fyrir mistök og biðst afsökunar á óvönduðum vinnubrögðum. Og telja nú margir að þar með sé málið úr sögunni, eins og oftast þegar fólk gerir smávægileg mistök sem ekki hafa neinar afleiðingar og biðst innilega afsökunar á þeim.

En það er ekki smámál ef póstur frá opinberri stofnun er sendur á rangan aðila og þegar við bætist að ekki liggur í augum uppi hvernig það gat gerst er málið stærra svo að hægt sé að afgreiða það með einfaldri afsökunarbeiðni. Skýringa er þörf. Í yfirlýsingu aðstoðarkonu ráðherra koma ekki fram sannfærandi skýringar á því hvernig mistökin urðu og ekki er að sjá að fjölmiðlar hafi gert neina tilraun til þess að fá botn í málið.

Aðstoðarkona ráðherra segist hafa sent tölvupóst á tvö netföng sem hún taldi tilheyra Agnari. Af orðum hennar má ráða að hún hafi fundið netföngin með nafnaleit á netinu. Þegar ég slæ nafnið Agnar Kristján Þorsteinsson inn í leitarvél google fæ ég upp Smugubloggið hans og netsíðu Lýðræðisvaktarinnar en á báðum er gefið er upp netfangið mrx@mi.is. Einnig netsíðu með netföngum starfsfólks reiknistofnunar HÍ og ljósmynd af hverjum starfsmanni. Ekki fann ég fleiri síður þar sem bæði nefang Agnars og yfirmanns hans koma fyrir.

 

Hélt aðstoðarmaður ráðherra að báðar þessar myndir væru af sama manninum? Hversvegna hélt hún að netfangið aj@hi.is sem gefið er upp með nafninu Albert Jakobsson, tilheyrði Agnari Kristjáni Þorsteinssyni? Það er ekki einu sinni trúlegt að hún hafi í flumbrugangi farið línuvillt og afritað rangt netfang. Línurnar liggja ekki saman og hún hefði þurft að setja @-merkið inn í netfangið sjálf og hlyti þá að hafa horft á skjáinn.

Hvað gerðist? Hvernig urðu mistökin? Liggur skýringin í því að til sé önnur síða með sömu netföngum þar sem auðvelt er að fara línuvillt?

Ef ekki koma fram trúverðugar skýringar þá liggur beinast við að fundarboðið hafi vísvitandi verið sent yfirmanni Agnars. Það er ekki bein hótun um atvinnumissi; beinar hótanir eru settar fram á beinan hátt. Það er ekki einu sinni hægt að fullyrða að þetta sé óbein hótun. En hafi þetta verið gert vísvitandi þá er tilgangurinn annarlegur. Mér detttur helst í hug að þarna hafi yfirvöld, sem í einlægni líta á það sem óréttmætan yfirgang að hvetja til andstöðu við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, hugsað líkt og kennari sem lætur foreldra óþekktarorms vita af því að hann hafi verið sendur til skólastjórans, í von um að sú uppákoma reynist ekki sérlega vinsæl heima fyrir.

Og eitt enn, svona fyrst ég er að leggja blessað yfirvaldið í einelti á annað borð; ég hef séð mörg ummæli í þá veru að ráðherrann hafi látið blásaklausan undirmann sinn taka á sig sökina af þessum gjörningi. Ekki ætla ég að fullyrða að Sigurður Ingi Jóhannsson beri ekki einn ábyrgð á þessu. Ekki treysti ég auðlindaráðherra sem hikar ekki við að beita útúrsnúningum til að reyna að sannfæra almenning um að með því að afnema sérstakt veiðigjald á útgerðina sé í raun verið að breyta formsatriðum en ekki lækka eða afnema gjaldið. Ekki treysti ég umhverfisráðherra sem heldur því fram að það sé af einskærri löghlýðni sem hann neitar að undirrita friðlýsingarskilmála vegna friðlands í Þjórsárverum.  En mig langar samt að benda á að aðstoðarmenn ráðherra eru ekki bara skrifstofublækur, hverra hlutverk er aðeins að senda út fundarboð og baka vöfflur með kaffinu. Aðstoðarmenn ráðherra eru þeirra nánustu samstarfsmenn og geta haft áhrif á ákvarðanir sem varða þjóðarhag. Þeir þurfa hinsvegar ekki að taka ábyrgðina á þeim ákvörðunum, það er ráðherra sem gerir það.

Aðstoðarmenn ráðherra eru fólk með mikið áhrifavald en litla ábyrgð og kjósendur hafa engin áhrif á það hverjir veljast í þær stöður. Þegar aðstoðarmaður ráðherra segist bera ábyrgð á gjörningi sem lítur út fyrir að hafa þann tilgang að koma uppreisnarmanni í ónáð hjá yfirmanni sínum, þá ættu fjölmiðar að krefja hann svara um það hvernig mistökin áttu sér stað. Komi ekki fram fullnægjandi svör hlýtur almenningur að álykta að atvikið sé nákvæmlega það sem það lítur út fyrir að vera.

Myndin efst er af bloggi Viggós H. Viggóssonar.

Einnig birt hér