Opið bréf til Ögmundar

Sæll Ögmundur

Nú eru liðnir 2 mánuðir frá því að við ræddum saman um mál Mouhameds Lo og enn hef ég ekki fengið vísbendingu um að neitt sé að gerast í því máli frá þinni hlið. Mouhamed er auðvitað löngu orðinn þreyttur á biðinni en nú eru fleiri en hann farnir að undrast hversu langan tíma það tekur ráðuneytið að leiðrétta mannréttindabrot.

Fjölmiðlar hafa vakið athygli á málinu síðustu vikur og í kjölfarið hefur velviljað fólk sýnt Mouhamed margvíslegan stuðning. Fólk sem hann hefur aldrei séð, hefur gefið honum góðan fatnað og kennslugögn og boðið fram ýmsa hluti sem koma í góðar þarfir. Tvær konur hafa boðist til að giftast honum ef það megi verða til þess að hann fái hæli en það er náttúrulega ekki hægt að fara þá leið. Ung kona tók sig til og stofnaði af eigin frumkvæði stuðningssíðu fyrir Mouhamed á facebook. Fjögurhundruð manns hafa „lækað“ síðuna og fjöldi manns hefur skrifað hlýlegar kveðjur til hans. Ungur maður skrifaði af eigin frumkvæði bréf, sem þeim er frjálst að nota, sem vilja lýsa skoðun sinni við yfirvöld en eiga sjálfir erfitt með að stíla bréf eða hafa lítinn tíma. Fjöldi manns hefur haft samband við mig og spurt um undirskriftalista og ef ekkert fer að gerast í málinu mun kannski einhver taka að sér að safna undirskriftum.

Þeir eru auðvitað til sem ekki vilja hjálpa Mouhamed og öðrum fórnarlömbum ofbeldis og mannréttindabrota. Ég býst við að flestir þeirra viti hreinlega ekki hverskonar þjáningar viðgangast í heiminum en þeir eru einnig til sem, að því er best verður séð, stjórnast einfaldlega af kynþáttahyggju.

Hér má sjá nokkur skjáskot af fb síðu Sigríðar Bryndísar Baldvinsdóttur, eins helsta talsmann nýnazisma á Íslandi.

Ef marka má fb síðu Sigríðar Bryndísar er hún dýraverndarsinni en greinilega ekki jafn hrifin af hugmyndinni um að svartur maður eigi að njóta frelsis, öryggis og mannréttinda. Það er varla hægt að skilja þetta á annan hátt en svo að hún álíti Mohammed Lo og aðrar manneskjur í hans stöðu töluvert minna virði en hunda og ketti. Það lítur út fyrir að 6 manns til viðbótar hafi „lækað“ þessa síðu svo hún er greinilega ekki eini rasistinn á Íslandi.

Kæri Ögmundur

Ég veit að hlutverk þitt sem ráðherra er ekki það að bjarga fólki, heldur fyrst og fremst að passa stólinn þinn. Ég veit að það er mikilvægt fyrir þig að hafa sem flesta góða og að það að hætta á óvinsældir bara til að forða einhverjum útlendingi frá pyndingum og þrældómi, er seigur biti að kyngja. Hvað eru eistun á einum negra í samanburði við ráðherrastól?

En sjáðu nú til Ögmundur minn. Það er ekki víst að það yrði neitt agalega óvinsæl ákvörðun að virða mannréttindi Mouhameds Lo. Það er nefnilega fullt af fólki sem finnst það góð hugmynd. Kannski er það meirihlutinn.  Ekki rasistar nei, þeir yrðu ekki hrifnir, það er alveg á hreinu. Ekki Sigríður Bryndís og félagar hennar og sennilega ekki heldur séra Skúli Jakobsson, sem er prestur og eini meðlimur íslensku Sköpunarkirkjunnar, helsti boðberi þeirrar hugmyndar að öllum „skítaskinnum“ (eins og hann kallar fólk af öðrum kynþáttum) beri að útrýma.

Ekki þau nei, þau verða ekki hrifin en sem betur fer eru þau ekki dæmigerð fyrir kjósendur. Þú virðist vera í vafa um hvort þú eigir að hlýða samvisku þinni Ögmundur og þá er auðvitað nærtækt að hlusta frekar á kjósendur. Eru nýnazistar í alvöru það fólk sem þú helst vilt gera til geðs eða ætlar þú að hlusta á þá fjölmörgu sem bera öllu meiri virðingu fyrir mannhelgi Mouhameds Lo?

Share to Facebook

2 thoughts on “Opið bréf til Ögmundar

  1. Ég er svo glöð! Glöð yfir því að sé til fólk eins og þú sem lætur verkinn tala, á meðan fólk eins og ég læt mér nægja að „læka“ á allt það jákvæða sem þið framkvæmið. Ég er líka glöð yfir því að Ögmundur sé ekki óréttláttur og vondur maður. Og hjálpar Mohammed með að festa rætur á landinu okkar. Og síðast en ekki síst er ég glöð yfir að orðið „skítaskinn“ hefur loksins öðlast merkingu í mínum huga 🙂 héðan í frá nota ég orðið yfir fólk með afar skítlegt eðli!

Lokað er á athugasemdir.