Hvernig er hægt að hjálpa Mouhamed Lo?

Síðustu daga hafa margir haft samband við mig og spurt hvernig hægt sé að hjálpa Mouhamed Lo. Hann er því miður ekki sá eini sem stendur í baráttu við kerfið og ég vildi að ég kynni einhverja raunhæfari lausn á málum flóttamanna en þá að fremja valdarán í öllum Evrópuríkjum og opna öll landamæri en ég reikna ekki með að sú hugmynd fái fjöldafylgi.

Ef þú vilt hjálpa Mouhamed er samt sem áður ýmislegt sem þú getur gert, bæði til að þrýsta á um úrlausn og einni g til að létta honum biðina. Ekkert þeirra ráða sem mér koma til hugar til að fá yfirvöl til að virða mannréttindi hafa áhrif ef aðeins ein manneskja beitir þeim. Samtakamáttur virkar aftur á móti svo endilega taktu þátt og hvettu aðra til þess líka. Þú getur hringt í Útlendingastofnun 510 5400 og/eða sent tölvupóst utl@utl.is með fyrirspurn um það hvar málið sé statt. Þér verður sagt að þau geti ekki gefið upplýsingar nema þú hafir umboð frá honum en það skapar samt sem áður ákveðna pressu ef margir sýna áhuga á málinu.

Þú getur sent tölvupóst á Ögmund ogmundur.jonasson@irr.is og hvatt hann til að beita sér í málinu. Hann svarar seint og illa og ég veit svosem ekki hvort hann kemst yfir að lesa allan tölvupóst sem hann fær en hann hlýtur allavega að sjá fyrirsagnir. Kannski er betra að senda á Höllu, aðstoðarmann hans  halla.gunnarsdottir@irr.is Hugsanlega er líka áhrifameira að senda löturpóst.

Þú einnig getur haft samband við ljósvakamiðla (t.d. Kastljósið) og spurt hvort standi til að fjalla um málefni flóttamanna og nefnt Mouhamed sérstaklega.

Mouhamed vantar námsgögn. Ómerkilegar verkefnabækur eru fokdýrar og hann hefur engar tekjur.  Á mörgum heimilium eru til hálfunnar bækur grunnskólabarna þannig að ef þú veist um enskukennslu- eða stærðfræðiefni  fyrir 10-12 ára börn, sem stendur til að henda (þ.e. kennslugögnunum, ekki börnunum) þá kæmi það honum vel og eins t.d. ævintýrabækur eða annað lesefni á ensku sem hentar byrjendum. Ef einhver lumar á efni sem hann getur fengið, sendið mér þá póst á eva.evahauksdottir@gmail.com

Mouhamed er mikið einn svo það væri líka frábært ef einhver gæti útvegað honum dægradvöl sem krefst ekki mikillar tungumálakunnáttu.

Þú getur líka farið inn stuðningssíðu Mouhameds Lo á fb og sent honum kveðju þar. Helst á einfaldri ensku. Mouhamed mun sennilega ekki skrifa á síðuna sjálfur á meðan hann er í felum en hann sér hana og getur fengið aðstoð við að lesa og honum er hughreysting í því að vita að fólk standi með honum.

Það hljómar kannski máttleysislega að nauða í stofnunum og ráðamönnum en það er nú samt sem áður staðreynd að sú aðferð hefur bjargað þúsundum mannslífa. Það var almenningur á Íslandi sem bjargaði Pauls Ramses með því að setja nafnið sitt við áskorun um að hann fengi að vera á Íslandi á meðan mál hans væri til meðferðar og með því að beita ritfrelsi sínu til þess að halda málinu vakandi mánuðum saman. Það er vegna þrýstings frá almenningi í mörgum löndum, þ.á.m. Íslendingum sem Sakineh Ashtiane hefur enn ekki verið grýtt til bana. Það er allavega á hreinu að ef við gerum ekkert verður Mohammed á endanum sendur aftur í þrældóm. En kannski eru líka til áhrifaríkari aðferðir og allar hugmyndir eru vel þegnar.

Share to Facebook

6 thoughts on “Hvernig er hægt að hjálpa Mouhamed Lo?

  1. Getur ekki einhver kennt honum að prjóna? Það er góð dægrardvöl og örugglega ekkert mál að fá gefins einhverja garnafganga. Ég bý því miður ekki á landinu en það ætti ekki að vera erfitt að koma þessu í gegn (ef Mohammed hefur áhuga).

  2. Hæ, ég á töluvert magn af lesefni/vinnublöð á ensku, frá 5 ára upp í 14 ára. Mohamed er velkomið að fá þær bækur. Hvernig kem ég þeim til hans?

  3. Ekkert að drepast úr stolti yfir meðferð flóttamanna hér á landi. Íslenzkir ráðamenn eru því miður frekar miklir Rasistar, nema e-n af þeim vanti húshjálp þá breytist allt og viðkomandi farin að skúra áður en dagur er liðinn. Undirskrifta-lista? Er hann kannski til, og þá hvar? Óska manninum góðs gengis, og tek ofan fyrir ykkur sem eyða sínum dýrmæta tíma í svona óeigingjanar aðgerðir.

Lokað er á athugasemdir.