Leiðir til lausna 2

Enn hefur enginn tekið að sér að reikna út þær gífurlegu fjárhæðir sem myndu sparast með þeim húsráðum sem ég lagði til í fyrri grein minni; Leiðir til lausna. Ætli ég verði ekki að fá hagfræðing í verkið. Kannski Geir geti reiknað þetta?

Með því að svelta hagkerfið, með fjöldaverkföllum ríkisstarfsmanna og þeirra sem vinna hjá verstu auðvaldspungunum og með því að standa í löngum röðum til að skila inn lyklum að íbúðum okkar og fyrirtækjum, yrði eflaust fljótlegt að koma ríkisstjórninni frá, því hún myndi aldrei fallast á þær tillögur sem ég hef sett fram. Frekar vill hún ‘hagræða’ í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og félagsþjónustunni og seilast í vasa verkamannsins, menntakonunnar, öryrkjans, listamannsins, eldri borgarans, einyrkjans, ófædda barnsins og einstæðu mömmunnar.

Út með köttinn, segi ég. Norska skógarköttinn sem liggur malandi í fangi Davíðs. Út með jólaköttinn sem leggst á fátæka fólkið. Hann er að vísu ekki búinn að éta besta kústinn minn ennþá en hann stefnir á það, horngrýtis hlandfressið.

Og hvað svo? Þegar kattarkvikindið er farið, hvað þá? Það virðist helst standa í fólki að vita ekki almennilega hvað á að gera þegar kötturinn er farinn. Rétt eins og hann hafi einhverjar lausnir! En jæja þá, fyrst þið spyrjið skal Eva frænka segja ykkur hvað svo.

Fyrst af öllu tilkynnum við vinum okkar Bretum að við ætlum ekki að bera skaðann af icesave reikningunum. Enginn hafði leyfi til þess að gefa veð í tekjum mínum og barnanna minna um ókomin ár. Við höfnum líka láni frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, hann er úlfur í sauðargæru og engin von til að við förum vel út úr viðskiptum við hann. Ef þessar aðgerðir hafa þær afleiðingar að vinaþjóðir okkar snúi við okkur bakinu, þá sýnum við þeim fingurinn.

Og jú, við getum það bara víst. Það er nefnilega ekkert til sem heitir vinátta milli þjóða. Milli þjóða ríkja aðeins hagsmunatengsl, ekki vinátta. Ef þjóð snýr við okkur baki þá er það ekki persónuleg höfnun, aðeins yfirlýsing um að viðkomandi ríkisstjórn fíli ekki ákvarðanir okkar í fjármálum. Þær hafa fullan rétt til þess og við erum sjálfstæð þjóð og höfum fullan rétt til að taka okkar ákvarðanir án fulltingis annarra.

Og jújú, við getum vel framfleytt okkur án lána. Við getum kallað það að fara aftur í tímann en sannleikurinn er sá að við vorum aldrei neitt rosalega rík. Það var blekking. Við vorum kannski í svipaðri stöðu og 1980 og það er nú ekkert svo voðalega sorglegt. Við getum komist af án frekari skuldsetninga, við þurfum bara að hætta þessu neyslusukki sem hefur viðgengist hér og byggja upp nýtt hagkerfi, á virkri þáttöku almennings, gegnsæi, hófsemi og heiðarleika í stað valdhroka, leynimakks, neyslubrjálsemi og spillingar.

Ég endurtek, við getum komist af þótt aðrar þjóðir snúi baki við okkur. Við getum lifað af víðtækt viðskiptabann ef einhver hefur smekk fyrir að beita því. Við þurfum ekki á öllum þessum innflutningi að halda. Ef aðrar þjóðir vilja ekki selja okkur epli, þá bara étum við rófur og hananú.

Við stefnum á að verða sjálfbær

-Við getum framleitt allan þann mat sem við þurfum sjálf. Einnig hreinlætisvörur og aðrar helstu nauðsynjar.
-Við höfum næga orku, hita og vatn.
-Nóg húsnæði er til í landinu fyrir okkur öll og ófædd barnabörn líka.
-Við þurfum heldur ekki meira dót og drasl. Við slítum fötunum okkar og gerum jafnvel við þau. Við gerum við gömul tæki og húsgögn í stað þess að henda þeim. Við notum bókasöfnin okkar.
-Við göngum ekki af göflunum þótt sé útsala í BT og tökum ekki jólalán hjá drullusokkafyrirtækjum. Það skaðar börnin okkar ekkert þótt þau fái ekki fleiri jólagjafir en svo að þau geti lagt þær allar á minnið.
-Við hættum að leigja sal og skemmtikrafta þótt krakki verði 7 ára. Bjóðum frekar upp á súkkulaðiköku heima og látum bönrin um að skemmta sér sjálf. Þau eru í alvöru talað ekkert of heimsk til þess.
-Við losum okkur við fjallajeppann, hættum alfarið að henda peningum í tilgangslausa bíltúra og losum okkur við hvunndagsbílinn líka ef við mögulega getum verið án hans.
-Ef við lendum í vandræðum með að fá aðra til að selja olíu, þá myndum við bandalag við eitthvert arabaríkjanna. Látum einhverja kolbrjálaða hryðjuverkamenn (eru þeir það ekki allir?) fá fundaaðstöðu á Miðnessheiðinni í skiptum fyrir olíu.
-Ef Evrópuþjóðir halda áfram að ybba gogg, þá förum við út í stórfellda amfetamínframleiðslu. Framleiðslan yrði eingöngu seld gegn erlendri mynt og trúið mér, útflutningur mun eiga sér stað án þess að við þurfum að hafa fyrir því að gera neina viðskiptasamninga.

Við hjálpumst að

-Sá sem á slátur gefur systur sinni nokkra keppi. Kannski fær hann kartöflur hjá henni í næstu viku.
-Afi gætir barnabarna.
-Unglingurinn skúrar eldhússgólfið hjá ömmu.
-Sá sem á bíl býður stráknum í næsta húsi far í skólann.
-Sá sem kann að gera við tæki býður aðstoð þegar þvottavél nágrannanna bilar.
-Kaupmaðurinn gefur þeim sem eru illa staddir afslátt.


Við látum atvinnuleysi ekki viðgangast

Það er hverju samfélagi hættulegt ef fjöldi fólks upplifir sig sem gagnslaust og fær borgað fyrir að sitja heima í þunglyndi. Það er hægt að skapa næga vinnu og mér er nokk sama þótt það kosti ríkið útgjöld. Atvinnuleysistryggingasjóður er engan veginn í stakk búinn til að takast á við 30% atvinnuleysi svo ríkið myndi sitja uppi með fjölda atvinnulausra fyrr eða síðar hvort sem er. Örfá dæmi:

-Það væri fengur að fá fólk til að hafa ofan af fyrir börnum, föngum, sjúkum og öldruðum. Og kostar ekkert fram yfir launin sem kæmu í stað atvinnuleysisbóta.
-Því fylgdi heldur ekki mikill aukakostnaður að stofna fínasta veitingahús þar sem matur sem ekki selst á síðasta söludegi væri matreiddur handa hverjum þeim sem eta vill fyrir lægra verð en kostar að elda sjálfur. Það væri nú bara gott mál að fara fínt út að borða með þjónustu og öllu fyrir 300 kall. Húsnæði yrði ekkert vandamál. Naustið hefur t.d. staðið autt í marga mánuði og var búið að standa autt á annað ár þegar því var breytt í kínverskan stað með ærnum tilkostnaði. Ríkið gæti nú bara sem best tekið sér afnotarétt af þessu húsi, enda greinilegt að eigandinn hefur enga þörf fyrir það.
-Ríkið gæti borgað áhugaverðum bloggurum fyrir að uppfæra síðurnar sínar daglega. Ég myndi allavega frekar vilja fá borgað fyrir að blogga en að þiggja aumingjabætur.
-Setjum smáaura í ruslatunnur og ráðum fólk til að sækja flokkaða sorpið svo þeir sem hafa losað sig við bílinn, gefist ekki upp á því að flokka sorp.

Reikni nú einhver út hvað almenn hófsemi og hjálpsemi myndi spara okkur mikið árlega. Einnig hvað sparast með því að sjá því fólki fyrir verðugum verkefnum sem að öðrum kosti mun sökkva í þunglyndi og óreglu.

Share to Facebook

One thought on “Leiðir til lausna 2

  1. ———————————————————

    Eins og talað út úr mínu hjarta.

    Posted by: Elías | 8.12.2008 | 7:39:35

    ———————————————————

    Og mínu.

    Posted by: Kristín | 8.12.2008 | 11:08:33

    ———————————————————

    Ná-Kvæm-Leg-A

    Posted by: Sigga Lára | 8.12.2008 | 14:05:27

    ———————————————————

    oh,þetta er svo sætt, minnir mig á Dýrin í Hálsaskógi, Litla húsið á sléttunni og svo jóðl 🙂
    http://www.youtube.com/watch?v=67rc96joOz8&eurl=http://www.facebook.com/profile.php?id=583276161&ref=profile&feature=player_embedded

    Posted by: Guðjón Viðar | 8.12.2008 | 22:10:39

    ———————————————————

    Hvernig ætlarðu að baka súkkulaðiköku í sjálfbæra samfélaginu þínu, ef ekkert er flutt inn? Hvaðan á kakóið að koma? Sykurinn?

    Held að fæstir Íslendingar hafi áhuga á að lifa í samfélagi eins og þú lýsir, aðrir en örfáir VG öfgamenn.

    Posted by: NN | 8.12.2008 | 23:57:26

    ———————————————————

    Rétt er það NN. Fæstir vilja lifa í slíku samfélagi. Það er þægilegra að halda lánasukkinu áfram, lifa áfram í blekkingu um að við séum rík og láta börnin okkar um að lifa, ekki bara í fátækt, heldur sárri neyð.

    Við þurfum ekki að vera upp á Evrópulöndin komin með kakó og sykur. Hvort tveggja er ræktað í öðrum heimsálfum. En þar fyrir þá deyjum við ekkert þótt við fáum ekki súkkulaði.

    Posted by: Eva | 9.12.2008 | 0:59:34

    ———————————————————

    GVV, ég er vissulega undir pólitískum áhrifum frá Egner, því ágæta leikskáldi og anarkista.

    Ég hef t.d. hugsað mér að byggja nýja stjórnarskrá á lögbók Kardimommubæjar; ‘engum sæmir annan svíkja, allan sóma stunda ber, annars geta menn bara lifað og leikið sér’.

    Posted by: Eva | 9.12.2008 | 1:14:44

    ———————————————————

    Ég held að út frá þessari framtíðarsýn þinni mundir þú nefnilega enda eins og Soffía frænka, „sullandi ein í sínu vatni, tandurhrein“:)

    Posted by: Guðjón Viðar | 9.12.2008 | 9:06:06

    ———————————————————

    Ég er heilshugar sammála þér, Eva. Er sjálf búin að vera að leita mér leiða til að verða eins sjálfbær og óháð og hægt er, þó ég hafi tekið þátt í peningafylleríinu með yfirdrætti og þess háttar þvælu.

    Hlakka til að lesa eldri bloggfærslur og fylgjast með í framtíðinni (var að finna þig hér út frá link á mbl blogginu)…

    Vetrarkveðjur,
    Jóna.

    Posted by: Jóna Svanlaug | 9.12.2008 | 12:51:28

    ———————————————————

    Guðjón Viðar þarf greinilega að hressa upp á þekkingu sína á leikbókmenntum. Soffía frænka var ekki ‘sullandi ein í vatni, tandurhrein’. Onei onei. Soffía frænka brást við yfirgangi ræningjanna sem rændu henni í svefni (líkt og útrásarkrimmarnir rændu íslensku þjóðina) með því að skikka þá til að þrífa í kringum sig. Hún tók bæjarfógetann Bastían líka á beinið fyrir linkindina gagnvart þeim. Enda höfðu þeir ekki ástundað neinn sérstakan sóma.

    Að vísu er Soffía frænka full hrifin af lögum og reglum fyrir minn smekk en stundum þarf svona Soffíur til þess að rísa gegn bófum sem starfa í skjóli ljónsins (ljónið táknar vald ríkis eða konungs) að koma á þannig ástandi að hin anarkíska lögbók Bastíans gangi upp.

    Posted by: Eva | 9.12.2008 | 17:35:55

    ———————————————————

    Ég efast samt um að þeir munu læra að meta það man bæði Kasper og Jesper og Jónatan:)

    Posted by: Guðjón Viðar | 9.12.2008 | 21:42:10

    ———————————————————

    Þú hefur rétt fyrir þér gvv og er það ánægjuleg tilbreyting. En rétt eins og ræningjarnir fengu vinnu sem hæfði þeim, getum við útvegað íslenskum ráðherrum störf þar sem hæfileikar þeirra nýtast.
    Árni gæti sjálfsagt orðið ágætur bakari. Björn gæti orðið slökkviliðsstjóri, og fengi að vera í búningi og Geir yrði að sjálfsögðu sirkusstjóri -vanur maðurinn.

    Ég ætla nú samt ekki að giftast Birni.

    Posted by: Anonymous | 9.12.2008 | 21:59:11

    ———————————————————

    Ég er ekki viss um að það sé alltaf óhætt að setja börnin í hendurnar á Afa, þeirri alræmdu pungrottu.

    Posted by: G | 10.12.2008 | 4:29:40

    ———————————————————

    OK í 45 gráður.
    viðbætir eða neðanmál.
    ég hef haldið niðri í mér andanum í nokkra daga
    það sem þú segir B.EVE (Eva) er nákvæmlega það sem Hvítur fáni stendur fyrir. og nákvæmlega það sem er í grunn hugmynd.. LJÓ.Be.
    En til þess þarf skipulagt Strategy, bara eina kennitölu í kerfið með rétt markmið og engva óreiðu og ekkert stjórnleysi. áður en einn stjórnar öðrum verður hann að geta stjórnað sjálfum sér.
    Ég er ekki G. ég hélt þú hefðir verið að byðja mig um að hætta að skrifa hér.. eða hvað?
    Kveðja

    Posted by: garda | 11.12.2008 | 14:34:56

    ———————————————————

    Vá. Þetta er flottur pistill. Og þetta getum við gert. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

    Posted by: Elisabet | 12.12.2008 | 5:43:15

    ———————————————————

    Mikið væri nú heimurinn góður ef allir hugsuðu eins og þú – eða hvað? Ég ætla alls ekki að verja verstu auðvaldspungana, eins og þú orðar það. Endilega, nefndu þá á nafn. Og endilega hafðu þá verstu fyrst. Ef þetta er umræðuefnið, þá skulum við fella slæðurnar og kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

    Posted by: agamemnon | 13.12.2008 | 0:46:37

    ———————————————————

    Nei það eru nú reyndar ekki auðvaldspungarnir sem eru umræðuefnið í þessum pistli, heldur er hann helgaður leiðum til lausna.

    Kannski ættirðu að lesa greinarnar áður en þú svarar þeim.

    Og já, veistu það, ef allir hefðu mínar hugmyndir um hófsemi og hjálpsemi, þá held ég að heimurinn væri betri. Hann myndi þó versna töluvert ef allir hefðu jafn slæma reiðu á bókhaldinu sínu og ég. Þessvegna ætla ég heldur ekkert að skrifa pistil um bókhald.

    Posted by: Eva | 13.12.2008 | 17:35:43

    ———————————————————

    Hinsvegar fyrst þú vilt endilega vita hvaða auðvaldspunga ég er að vísa til, þá getum við byrjað á eigendum Baugs. Ef allir starfsmenn fyrirtækja í eigu Baugs leggðu niður vinnu, þótt ekki væri nema einn dag og enginn verslaði við Baug vikuna á eftir, þá gæti jafnvel farið svo að Jón Ásgeir fattaði að fólk er orðið dálítið pirrað út í hann.

    Posted by: Eva | 13.12.2008 | 17:46:20

Lokað er á athugasemdir.