Björgvin E. Vídalín, stjórnarformaður Dögunar í Reykjavík, hyggst á morgun leggja fram kæru til Sýslumannsins í Reykjavík vegna sveitarstjórnakosninga í Reykjavík. Þess er krafist að kosningin verði úrskurðuð ógild og að borgarstjórnarkosningar verði endurteknar.
Fern rök eru færð fyrir því að ógilda skuli kosninguna.
Í fyrsta lagi er krafist ógildingar á þeirri forsendu að oddviti eins framboðanna hafi ekki uppfyllt skilyrði um kjörgengi. Bent er á að málflutningur oddvitans hafi haft ótvíræð áhrif á úrslit kosninganna þar sem framboðið hafi samkvæmt skoðanakönnunum bætt við sig fylgi upp á 8-9 prósentustig eftir að hinn ókjörgengi oddviti fór að beita sér í kosningabaráttu.
Í öðru lagi er bent á að annmarkar á atkvæðatalningu í ráðhúsinu gefi tilefni til að efast um að talning hafi verið laus við mistök eða jafnvel misferli.
Í þriðja lagi dró borgarstjórn of lengi að kjósa yfirkjörstjórn og því telur kærandi ekki hægt að treysta óhlutdrægni hennar.
Í fjórða lagi segir að samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 eigi jafnvel minni háttar gallar að hafa í för með sér ógildingu kosningar, þar með hafi Hæstiréttur sett bindandi fordæmi.
Til vara er þess krafist að kosningin verði ógild á þeirri forsendu að þar sem lögheimilsskráning oddvitans hafi verið ólögleg standist úrskurður yfirkjörstjórnar um kjörgengi hans ekki lög.