Starfsfólk stofnana er bundið þagnarskyldu og lendir stundum í vandræðum með að svara fyrir sig þess vegna. Fólk sem á samskipti við stofnanir getur sagt sína hlið á sögunni í fjölmiðlum en starfsfólk, t.d. barnaverndarnefnda, sjúkrastofnana, skóla o.s.frv. getur ekki útskýrt það sem kann að vanta á söguna eða einu sinni leiðrétt rangfærslur, án þess að brjóta trúnað.
Ég heyrði einu sinni sögu sem varð til þess að ég fór að velta því fyrir mér hversu langt þagnarskyldan nái. Sagan segir frá aðstandanda langlegusjúklings, konu sem var óánægð með bókstaflega allt sem mögulega var hægt að finna að. Þá á ég ekki aðeins við faglega umönnun, heldur krafðist hún allskyns þjónustu sem var í raun ekki gert ráð fyrir, skáldaði upp sögur af mistökum og átti það jafnvel til að hella sér yfir starfsfólkið fyrir hluti sem það bar enga ábyrgð á. Hún gekk svo langt að hnýta í starfsfólk fyrir útlit þess eða fyrir að vera af erlendu bergi og það með orðalagi sem ekki er hafandi eftir.
Þegar reynt var að setja þessari konu mörk, hótaði hún jafnan að fara með kvartanir sínar í fjölmiðla. Það þótti deildarstjóranum óþægilegt, enda átti hún allt eins von á rangfærslum og hún var skiljanlega í erfiðri aðstöðu til að svara fyrir sig og sitt fólk. En nú var þessi erfiða kona ekki skjólstæðingur, heldur aðstandandi og ég velti því fyrir mér hvaða skyldur stofnunin hafi í slíkum málum. Er eitthvað sérstaklega faglegt við að láta fólk komast upp með hvaða skítaframkomu sem er? Er það virkilega brot á þagnarskyldu að svara tilraunum til að koma höggi á stofnunina og starfsfólk hennar, að segja frá svona framkomu?