Hvaða lausn sérð þú?

Allt stefnir í að Ísraelsmenn sölsi undir sig það litla sem eftir er af Palestínu og drepi réttmæta eigendur landins eða stökkvi þeim á flótta. Engin friðsamleg lausn er í sjónmáli. Ísraelsmenn hafa engan áhuga á tveggja ríkja lausn og það að Hamas skuli njóta stuðnings stafar sannarlega ekki af því að trúarofstæki þeirra og mannréttindabrot gagnvart eigin fólki þyki svo frábær, heldur af því að þeir hafa staðið fast á því að gefa ekki eftir. Í Palestínu ríkir sennilega mjög lítill áhugi á tveggja ríkja lausn þótt það yrði nógu mikil bót til þess að hún yrði samþykkt ef Ísraelar hefðu áhuga á því.

Tveggja ríkja lausn hefur ekki náð fram að ganga á 64 árum og engin ástæða til að halda að hún verði að veruleika. Svo hvað er þá til ráða? Í gær nefndi ég möguleikann á því að þjóðir heims tækju sig saman um að afvopna Ísrael og leysa Ísraelsríki upp. Það mætti ekki gerast nema Ísraelsmönnum yrði boðinn ríkisborgararéttur annarsstaðar. Við getum ekki reiknað með að fólk sem hefur misst land sitt í ræningjahendur og hrakist á flótta, verið hent út af heimilum sínum, fangelsað án réttarhalda og pyntað, horft á ástvini sína myrta og jafnvel verið neitað um að fá að grafa lík þeirra, gleymi og fyrirgefi, þegar óvinurinn heldur ekki lengur á byssu. Ef Ísraelsmenn stæðu uppi vopnlausir í dag yrði þeim einfaldlega útrýmt.

Það eru í alvöru til Íslendingar sem finnst þetta bara allt í lagi

Ekki stóð á viðbrögðum. Hugmyndin um að greiða fyrir þjóðflutningum (einmitt til þess að afstýra þjóðarmorði á Ísraelum) þykir gjörsamlega fyrir neðan allar hellur. Að leysa upp samfélag fólks sem hefur í tugþúsunda tali verið flutt inn frá Bandaríkjunum og Evrópu, sérstaklega í þeim tilgangi að ræna landi, yfirtaka heimili, fremja skemmdarverk og drepa búfénað; að koma því fólki í þá aðstöðu að þurfa kannski að snúa heim til sín; yfirgefa landið sem það rændi; það þykir svo svívirðileg hugmynd að eingöngu Zionistar fást til að ræða hana, og vitanlega ekki með rökum heldur skítkasti.

Annar möguleiki er að halda áfram að ræða málin á meðan Ísraelsmenn henda íbúum Austur-Jerúsalem út á gaddinn, leggja undir sig ólívulönd í nágrenni Nablus og sprengja Gaza aftur á miðaldir. Og hvað svo þegar þeir eru búnir að ná allri Palestínu undir sig? Verða þá allir glaðir? Róast Jórdaníumenn og Egyptar þegar þeir fá fleiri milljónir palestínskra flóttamanna í hausinn til viðbótar við þá sem fyrir eru í löndum þeirra? Hvernig er það annars, er ekki hægt að sanna það með Biblíunni að gyðingar eigi tilkall til Jórdaníu líka? Eða bara að þeir eigi allan heiminn? Væri kannski lausn á þessari deilu að senda Nató í stríð við Mið-Austurlönd og gefa gyðingagreyjunum þau bara öll? Ég meina þeir eru nú einu sinni fórnarlömb helfararinnar.

Svona í alvöru talað, þið sem eruð að kafna af hneykslun á þeirri hugmynd að leysa Ísraelsríki upp; hvað viljið þið gera? Sjáið þið möguleika á því að Ísraelsmenn og Palestínumenn muni búa saman í friði í Palestínu? Hvernig? Hvenær? Eða á alþjóðasamfélagið bara að halda áfram að útvega Ísraelsmönnum vopn?

 

Bendi að lokum á þetta myndband með einlægri frásögn ísraelsks hermanns sem útskýrir hversvegna er ekki hægt að koma í veg fyrir stríðsglæpi með því að refsa bara skúrkunum.

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.