Hvað er íslamskt við ISIS?

Sverrir Agnarsson hefur svarað pistli mínum frá því í gær á facebook. Rétt er að taka fram að ég hef alls ekki krafið hann svara við mínum pælingum heldur beðið hann og Salmann Tamimi að bregðast skýrt og opinberlega við refislöggjöf Brunei. Það er þó alltaf gaman að fá svör frá fólki sem er vel inni í málunum og sérstaklega þegar svarið býður upp á áframhaldandi umræðu.

Sverrir heldur því fram að þau ritningarvers sem ég nefni hvetji á engan hátt til harðra refsinga. Þetta séu þýðingarvillur og mistúlkun mín. Hin raunverulega merking versanna sé afskaplega falleg og friðsamleg.

Það skiptir ekki minnsta máli hvernig ég túlka þessi vers, heldur hvernig íslamskir kennimenn túlka þau. Það er leitt að íslamskir kennimenn Sáda, Írana, Pakistana, Afghana, Yemena, Nígeríumanna, Indónesíumanna  o.s.frv. skuli vera svo illa að sér í arabísku að þeir taki þessum dulúðlegu versum bókstaflega. Ég setti fyrirvara við eldinn, sem eðlilegt er að túlka sem Vítiseldinn sem bíður syndugra við dauðann, en ég nefndi hann vegna þess að íslamska ríkið, sem einnig hefur á að skipa kennimönnum sem kunna arabísku, túlkar þau vers bókstaflega. Liðsmenn ISIS hafa framfylgt þeirri túlkun og dreift myndböndum af þeim ódæðum á netinu, öðrum múslímum til hvatningar.

 

Eitt af hinum alræmdu myndböndum sem ISIS liðar nota til að heilla fleiri múslíma til fylgilags við hreyfinguna sýnir jórdanskan flugmann brenndan til bana. 

Gremja Sverris yfir því að ég skuli benda á ritningavers sem raunverulega eru notuð til þess að réttæta voðaverk er skiljanleg. Þetta er óþægileg staðreynd. Eitt er þó áhugavert við svar hans. Sverrir bendir á nokkur friðsamleg ritningavers og spyr í ljósi þeirra hvað sé eiginlega íslamskt við Íslamska ríkið.

 

Hvernig ISIS liðar leysa þversagnir

Áður en því er svarað er rétt að spyrja hvernig menn eigi að henda reiður á trúarriti þar sem einn kaflinn boðar frið en annar mælir fyrir um þjóðernishreinsanir, fjöldamorð og pyntingar. (Þarf ekki endilega að vera tímaröð, Kórarinn er ekki línuleg frásögn.) Liðsmenn Íslamska ríkisins líta svo á að friðsamlegu versin hafi verið afnumin. Af hverju halda þeir það? Jú, vegna þess að samkvæmt Kóraninum eru fyrirmæli hans stundum afnumin en aldrei þó nema önnur komi í staðinn (Sjá Kóraninn 2:106) Hadíður innihalda frásagnir þar sem bent er sérstaklega á tiltekin vers sem hafi eða hafi ekki verið afnumin. Auk þess telur Íslamska ríkið að fyrirmæli um heilagt stríð og annan óhugnað séu ekkert torræð og þarfnist ekki túlkunar. Sum vers hafi reyndar dulda merkingu en það sé tilgangslaust að reyna að ráða þau því Allah einn geti skilið þau og þeir sem reyna að túlka þau séu blendnir í trúnni. Þessa afstöðu byggja þeir á trúarritunum sjálfum. (Sjá Kóraninn 3:7)

Ayaan Hirsi Ali telur að stærsta vandamál Íslams sé það að ritningar frá Mekka tímabilinu feli í sér friðarboðskap sem meirihluti múslíma aðhyllist en hinsvegar verði boðun Múhammeðs mjög herská og ofbeldisfull eftir að hann hóf stríðsrekstur sinn í Medina. Hún telur að nauðsynlegt sé að múslímar viðurkenni að þessi vers eru nákvæmlega það sem þau líta út fyrir að vera og hafni þeim eindregið, frekar en að reyna að líta fram hjá þeim.

Liðsmenn Íslamska ríkisins, og aðrir talsmenn heilags stríðs, byggja á ritningargreinum frá Medína tímabilinu. Þeir leysa þversagnirnar með því að líta svo á að þegar friðarboðskapur og ofbeldisboðskapur stangast á, þá sé það versið frá hinu síðara tímabili (eftir að Múhammeð hóf heimsvaldastefnu sína) sem gildir. Þetta er svipuð aðferð og er notuð í þeirri lögfræði sem íslenskur réttur byggir á – yngra ákvæði hrindir því eldra. Svo vitanlega ganga ofstækismenn eins langt í þessari aðferð og mögulegt er. Þar sem trúarrit múslíma fela í sér mikið ofbeldi og óhugnað er mögulegt að ganga mjög langt.

 

Allt sem við höfum séð frá Íslamska ríkinu – brennur, krossfestingar, hýðingar, aflimanir, grýtingar, opinberar aftökur þar sem menn eru hálshöggnir og höfuðin stjaksett – allt á þetta sér réttlætingu í trúarritunum.

 

Hvað fleira er íslamsíkt við ISIS?

Það sem er íslamskt við Íslamska ríkið er einmitt það að liðsmenn þess fylgja trúnni til hins ýtrasta. Það gera flestir múslímar auðvitað ekki, því það er heimskulegt, skaðlegt, þrúgandi og rangt.

Að fylgja bókstaf trúarritanna þýðir t.d. að taka upp kjánalega siði eins og að sleikja á sér hendurnar eftir matinn af því Múhammeð gerði það.

Það þýðir að taka upp heimskulega og skaðlega hegðun eins og t.d. að drekka úlfaldaþvag sér til heilsubótar.

Það felur í sér að lifa undir þrúgðandi kennivaldi sem t.d. bannar tónlist sem flutt er með hljóðfærum þar sem hún leiði til manndrápa og annarra glæpa (bænasöngl er í lagi).

Og það þýðir að pynta, ofsækja og drepa til þess að gleðja Allah og tryggja sér himnaríkisvist með aðgangi að 72 hreinum meyjum.

Auðvitað hunsa flestir múslímar þetta rugl. Það eru hinir sanntrúuðu sem fara eftir því.

 

Ég er ekki að óska eftir samtali um guðfræði

Alveg er ég viss um að Sverrir Agnarsson afgreiðir þetta allt saman sem útúrsnúninga en þetta eru einfaldlega kreddur sem eru teknar beint úr trúarritunum. Þegar menn taka í alvöru mark á spámanni frá 7. öld fer ýmislegt úrskeiðis. Undarlegt verður að teljast að þrátt fyrir endalaust blóðbað í nafni heilags stríðs og fjölda ríkja sem viðhalda og framfylgja forneskjulegum refsilögum, verður ekkert vart við alþjóðlega hreyfingu íslamskra kennimanna sem fordæma „útúrsnúningana“ sem þessar trúarstefnur byggja á.

Ástæðuna fyrir því að Sverrir hefur ekki svarað mér eins ítarlega og hann vildi (ég tel reyndar svör hans ítarleg) segir hann vera þá að það sé svo tímafrekt þar sem ég hafi bara þýtt og afritað texta annarra. Að sjálfsögðu byggi ég það sem segi á ritum og heimildamyndum annarra, það er þannig sem vitræn umræða fer fram. Jafnvel þótt það væri rétt að ég gerði ekkert nema afrita eitthvað af Wikipediu eða hafa eitthvað beint eftir Christopher Hitchens (sem ég hef lesið) eða Sam Harris (sem ég hef ekki lesið) þá er auðvitað ekkert tímafrekara að svara umfjöllun sem ég á að hafa stolið en einhverju sem er eingöngu afurð andagiftar minnar.

Hér sjáum við örfáa öfgamenn í Pakistan krefjast aftöku Asiu Bibi eftir að hún var sýknuð af áburði um guðlast. Er eitthvað íslamskt við það?

En það sem Sverrir virðist ekki skilja er það að ég er ekkert að biðja um guðfræðilegan díalóg (þótt ég fagni allri umræðu). Ég er að biðja hann að taka afstöðu gegn þeim þáttum Íslams sem auðvelt er að nota til að réttlæta mannréttindabrot. Ef Íslamistar væru ekki hættulegir vildi ég helst sjá hófsama áhrifamenn eins og t.d. Sverri segja hreint út: Múhammeð var barn síns tíma og Kóraninn er ekki ómengað orð Allah. Við verðum að hafna ritningarversum og hadíðum sem brjóta í bága við mannréttindi. En það yrði túlkað sem afneitun á trúnni og við því liggur dauðarefsing og það er ekki hægt að mæla með því að neinn setji sig í hættu með því að taka svo afdráttarlausa afstöðu. Það sem hófsamir áhrifa- og kennimenn innan Íslam gætu hinsvegar gert væri að fordæma ríki sem heimila ómannúðlegar refsingar og réttlæta þær með því sem hófsemdarmenn telja útúrsnúninga á Íslam.