Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag sagði innanríkisráðherra að minnisblað um tiltekna hælisleitendur samræmdist ekki neinum gögnum sem til séu hjá ráðuneytinu. Eðlilegast er að túlka þessi orð Hönnu Birnu á þann veg að blaðið hafi verið samið utan ráðuneytisins. Hafi hún átt við eitthvað annað, svosem það að blaðið hafi einhverntíma verið til en sé það ekki lengur, er um að ræða útúrsnúning og undanbrögð sem ráðherra eru ekki sæmandi.
DV hefur fjallað ítarlega um lekamálið allt frá að mbl.is vitnað í „óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins“ í nóvember sl. Eins og fram kom hjá Bjarkeyju Gunnarsdóttur í þinginu í dag hefði verið eðlilegt af ráðherra að fara fram á leiðréttingu af hálfu Morgunblaðsins fyrst það var rangt með farið að blaðið væri frá innanríkisráðuneytinu.
Mörður Árnason benti á að blaðið bæri þess öll merki að vera skrifað af starfsmönnum innanríkisráðuneytisins. Sé það rétt að blaðið sé ekki úr ráðuneytinu sé því um grófa en vel heppnaða fölsun að ræða.
Það er áhugavert að innanríkisráðherra, sem telur að einhver önnur stofnun eða óprúttinn einstaklingur falsi gögn með þeim árangri að hver sem þau sér telur víst þau komi frá ráðuneytinu, hvort heldur eru blaðamenn, þingmenn eða leikmenn, skuli ekki hafa kært tiltækið til lögreglu. Eins og Helgi Hrafn Gunnarsson benti á þá eru viðbrögð ráðuneytisins við málinu ekki síður alvarleg en málið sjálft.
Í seinni framsögu sinni sagðist Hanna Birna telja viðeigandi að Mörður Árnason upplýsti hvaðan hann hefði blaðið. Í ljósi þess að minnisblaðinu var dreift á ýmsa fjölmiðla og einstaklinga fyrir mörgum vikum, þá skiptir auðvitað engu máli hvar Mörður fékk það. Það sem skiptir máli er hvernig Morgunblaðið og Fréttablaðið fengu það. Því hefur Hanna Birna enn ekki svarað.