Seinna í dag hitti ég konsúlinn og gef Alþingi skilaboð um álit mitt á stjórnarskrártillögunni. Ég álít hreint ekki að hún sé gallalaus en til þess að ný stjórnarskrá verði tekin upp þarf umræða að fara fram í þinginu. Þessvegna ætla ég að mæla með því að tillaga Stjórnlagaráðs verði lögð til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Þegar ég segi já, merkir það EKKI að ég sé að samþykkja öll ákvæðin nákvæmlega eins og þau eru orðuð af hálfu Stjórnlagaráðs, heldur einmitt eins og stendur á kjörseðlinum að samþykkja að tillögurnar verði „lagðar að grundvelli.“ Ég er með öðrum orðum að samþykkja að þingið taki tillögurnar alvarlega og byggi nýja stjórnarskrá á þeim. Ég er ekki að samþykkja að engar orðalagsbreytingar verði gerðar.
Ég tel ekki að tillaga Stjórnlagaráðs sé fullkomin. Lára Magnúsardóttir hefur bent á dæmi um ónákvæmi í hugtakanotkun og mikilvægi þess að merking orða eins og t.d. virðing fari ekki á milli mála. Hún hefur einnig bent á mikilvægi þess að mannréttindi séu rækilega aðgreind frá ákvæðum um náttúruvernd. Lára vekur athygli á hættunni á því að tekin verði upp ákvæði sem bjóði upp á útúrsnúninga og hún hefur áhyggjur af því að tillaga stjórnlagaráðs sé full byltingarkennd. Hún hefur hvergi sagt neitt sem eðlilegt er að túlka á þann veg sem þessi ómaklega fyrirsögn á pistli Eiríks Bergmann gefur til kynna og það er í meira lagi írónískt að Eiríkur afhjúpar nákvæmlega þann vanda sem Lára er að tala um, þegar hann ætlar að gera lítið úr gagnrýni hennar með því að benda á að virðing geti í senn merkt það sama og ensku orðin dignity og respect. Umræðurnar í framhaldi af pistlinum leiða svo enn betur í ljós hversu óljósar hugmyndir almenningur hefur um þetta hugtak.
Til þess að ný stjórnarskrá verði eins fullkomin og mögulegt er, þyrfti að taka tillit til gagnrýni á borð við þá sem Lára hefur sett fram. Sjálfri finnst mér ekkert ógnvekjandi við þá tilhugsun að stjórnkerfinu verði breytt en ég skil þá sem hafa slíkar áhyggjur og ég hef séð nógu mörg dæmi um óræð lög og skort á hugtakaskilgreiningu í lögum til þess að taka undir með Láru um að ekki megi leika vafi á merkingu hugtaka í stjórnarskrá. Til þess að skýra þau hugtök sem þörf er á og slípa tillöguna til, er þó nógur tími, þar sem tillagan á eftir að fara í gegnum þrjár umræður í þinginu áður en ný stjórnarskrá verður tekin upp.
Til þess að mikilvæg atriði eins og eignarhald á auðlindum og náttúruvernd verði tekin inn í stjórnarskrá, þarf að liggja fyrir að stór hluti þjóðarinnar sé því fylgjandi. Almenningur þarf líka að koma áliti sínu til skila ef hann vill að ekki þurfi að leika minnsti vafi á valdsviði forseta. Hvort sem maður vill aðskilnað ríkis og kirkju eður ei, á maður erindi á kjörstað því þótt núgildandi stjórnarskrá geri ráð fyrir þjóðkirkju þá stendur líka í henni að því megi breyta með lögum. Fleira mætti nefna sem mælir með því að fólk taki afstöðu til tillögu stjórnlagaráðs, jafnvel þeir sem eru breytingum mótfallnir, því þeir geta þá bara sagt nei.
Ég vona að fáir hafni tillögu Stjórnlagaráðs. Það að hún sé ekki fullkomin er ekki frágangssök ef maður er í megindráttum sammála henni, þetta er ekki stjórnarskrá í endanlegri mynd heldur drög sem verður unnið út frá ef nógu margir telja breytinga þörf.
—–
Viðtal Egils Helgasonar við Láru Magnúsardóttur má sjá hér:
þ.e.a.s. ef hinn ömurlegi streymir Ríkisútvarpsins virkar þá en þar er nú ekki á vísan að róa. Það væri auðvitað skemmtilegra ef hægt væri að setja myndbandið beint inn á vefsíðuna eins og youbube myndbönd en RÚV býður ekki upp á þann möguleika. Það væri líka hagræðing að því að hafa myndskeið í viðtalsþáttum aðskilin, en þar sem umsjónarmenn vefvarpsins hjá RÚV hafa ekki ennþá klippt viðtölin í þessum þætti í sundur og sett tengil á hvert og eitt, (ætli þeir séu að bíða eftir þjónustu sjálfboðaliða?) þurfa þeir sem vilja kynna sér rök Láru en hafa ekki áhuga á öðru efni í þættinum að staðsetja viðtalið á tímastikunni. Það hefst þegar 57:46 mín eru liðnar af þættinum.
Hættan er að „jáin“ verði túlkuð sem samþykki við tillögurnar, önnur eins hefur nú túlkunargleðin verið í kringum þetta mál af hálfu stuðningsmanna stjórnar og Stjórnlagaráðs. Allavega mun ég ekki taka þá áhættu með mitt atkvæði og mun annaðhvort sniðganga kosninguna eins og ég sniðgekk kosninguna til Stjórnlagaþings (ásamt flestum) eða mæta og kjósa nei. Ástæðan fyrir minni afstöðu er að þetta mál hefur farið svo oft út af sporinu frá því það kom fyrst til umræðu að það er fátt gott eftir af áhugaverðri hugmynd.
Eins og kannski sést, fannst mér málið strax vera komið í rugl fyrir kosninguna til Stjórnlagaþings enda kosningakerfið gjörsamlega hræðilegt. Stjórnlagaráðið sem kom upp úr kjörkössunum var svo mjög pólitískt einslitt og kom nánast allt frá vinstri hliðinni enda áhuginn á málinu langmestur þeim megin. Meirihluti þjóðarinnar missti traust á ferlinu snemma og tók ekki þátt. Það gengur auðvitað ekki að stjórnarskrá spretti úr pólitískt einslitum farvegi í krafti minnihluta þjóðarinnar. Alveg sama hvað manni finnst um þá sem sátu heima, og alveg sama hvar maður stendur í pólitík, þá er ekki hægt að líta framhjá því að það verður aldrei sátt um slíkt mál, og að stjórnarskrá verður einfaldlega að vera nokkuð óumdeild og með breiðan meirihluta á bakvið sig.
Endanlega útkoman liggur náttúrulega ekki fyrir…en miðað við hvernig málinu hefur síhrakað frá hugmyndastiginu þá er ég ekki sérlega vongóður um að það nái miklum bata úr þessu og sópi til sín meirihlutafylgi. Hvað þá ríflegu.
Af hverju segir þú að stjórnlagaráðið hafi verið pólitískt einsleitt? Hver eru hlutföll þeirra sem staðsetja sig til hægri og vinstri í pólitík?
Ég get ekki gefið þér nákvæm hlutföll kannski en mér finnst þetta bara frekar augljóst af að horfa yfir hópinn. Pawel er líklega sá eini sem myndi skilgreina sig sem hægri mann. Ef þeir eru fleiri í hópnum þá eru þeir fáir. Fjölmargir sem sátu í ráðinu hafa fortíð í vinstri pólitík eða skrifum í þá átt. Áhuginn á málinu frá upphafi, og svo á kosningunum, var miklu meiri vinstra megin.
Það kemur væntanlega í ljós í kosningunum hvort tillagan er of vinstri sinnuð fyrir þjóðina.