Fólksfækkun verður ekkert vandamál

Þótt offjölgun sé meira til umræðu hafa félagsfræðingar líka velt upp þeirri hugmynd að lægri fæðingatíðni muni leiða til þess að hlutfall vinnandi fólks miðað við börn og eldri borgara verði of lágt til að standa undir samfélaginu. Ein breytan er fólksfækkun, önnur sú að fólk lifir lengur og sjúklingar lifa sjúkdóma sína af. Sú þriðja er lengri æska, þ.e.a.s. auknar kröfur um menntun valda því að fólk fer seinna út á vinnumarkaðinn.

Ég held þó ekki að fólksfækkun sé upprennandi vandamál í heiminum. Það eina sem ég hef áhyggjur af varðandi fólksfækkun er að þessi þróun ýti ennfrekar undir æskudýrkun því varla minnkar hún ef ungmenni verða sjaldgæf sjón. Að öðru leyti er fólksfækkun aðeins til góðs, bæði fyrir afkomu og siðferði.

Barnauppeldi verður auðveldara

20070728issuecovUS400Í fyrsta lagi veldur fækkun barna því að auðveldara verður að sjá fyrir þeim.

Auk þess verða börn hamingjusamari þegar þau þurfa ekki að slást við stóran systkinahóp um athygli foreldranna.

Uppeldi verður einnig auðveldara ef börnin eru fá. Í dag höfum við tíma til kenna börnum okkar hvers við væntum af þeim með útskýringum og þolinmæði í stað þess að draga fram vöndinn þegar þeim verður á. Sem er óneitanlega betra siðferði en ofbeldi.

Margt fólk er vinnufært þrátt fyrir fötlun og sjúkdóma

Í öðru lagi gera vísindaframfarir mörgum fötluðum kleift að lifa eðlilegu lífi þrátt fyrir fötlun sína. Því er ekki lengur samasemmerki milli fötlunar og örorku. Auk þess hefur barátta gegn fordómum í garð fatlaðra leitt til þess að margir fá tækifæri sem hefði verið óhugsanlegt fyrir aðeins 50 árum. Marga sjúkdóma sem áður leiddu til örorku er nú hægt að lækna svo öryrkjum hefur fækkað og mun fækka meira á næstu áratugum.

Á móti kemur að einnig er hægt að halda lífinu í fólki sem annars hefði dáið. Ég hef þó ekki áhyggjur af því að það verði gert því nú er hægt að greina ýmsa sjúkdóma og fötlun á fósturstigi og mjög vinsælt að drepa gölluð fóstur. Það verður því lítið um gallað fólk í framtíðinni. Það má vel deila um siðgæði fóstureyðinga en við hljótum að vera sammála um að það sé siðlegt að bæta möguleikar sjúkra og fatlaðra til samfélagsþátttöku.

Fólk verður vinnufært mun lengur

Í þriðja lagi veldur betri heilsuvernd því að enda þótt fólk komi seinna út á vinnumarkaðinn er það vinnufært mun lengur.

Í dag er fólk töffarar og skvísur fram undir sjötugt og ég held því að það sé bara tímabundið ástand að fólk hætti að vinna 65 ára aldur. Um leið og þörfin fyrir vinnuafl eykst, heldur fólk áfram að vinna á meðan það hefur heilsu til þess.

Þegar meðalaldur hækkar og allir verða nógu ríkir til að fá sér bótox í ennið og skreppa í skyndisilikonaðgerð (eða eitthvað hættuminna og fullkomnara sem hefur sömu útlitsáhrif) í hádeginu, munu hugmyndir okkar um elli og æsku einnig breytast og fimmtugt fólk verður ekki miðaldra heldur ungt. Það er svo bara spurning hvort æskudýrkun verður meiri eða minni fyrir vikið.

Þegar eldra fólk verður orðið nauðsynlegt vinnuafl eru ennfremur líkur á því að virðing fyrir eldra fólki aukist aftur og það finnst mér nú bara jákvætt.

Í rauninni er fólksfækkun þannig jákvæð og stuðar að betra siðferði. Auk þess er hún í ágætu samræmi við hina helgu bók. Guð sagði Adam og Evu nefnilega að uppfylla jörðina og erja hana en ekki að yfirfylla hana af hungruðum og veikum börnum.

——–

article-0-0F5C827600000578-378_468x441Þennan pistil birti ég fyrst á annál 6. júní 2004. Af stráksskap mínum hnýtti ég aftan við hann þessari málsgrein: „Fólksfækkun á Vesturlöndum sýnir þannig siðferðilega yfirburði kristinna manna yfir villimönnunum í þróunarríkjunum.“ Ég leyfi mér sjaldan háð af þessu tagi í dag því fordómar eru svo algengir að þeir sem þekkja ekki skrif mín gætu haldið að mér sé alvara.

Share to Facebook

One thought on “Fólksfækkun verður ekkert vandamál

 1. ——————

  Þorkell @ 09/06 11.47

  Já, en sérðu það ekki Eva að þetta er á móti eðli náttúrunnar. Ef færri en 2.1 fæðist á par endar það með því að mannkynið þurrktast út. Þótt þetta sé ekki vandi núna þá gæti það orðið það í framtíðinni.

  ——————

  eva @ 09/06 13.18

  Reikanðu nú út Keli minn, hvað þarf mörg ár miðað við þróun síðustu 50 ára til þess að mannkynið þurrkist út. Heldurðu virkilega að á öllum þeim tíma muni ekki koma að því að barneignum fjölgi aftur? Í alvöru talað, þökkum bara fyrir það að offjölgun skuli ekki lengur vera það vandamál sem menn höfðu logandi áhyggjur af fyrir aðeins 20 árum. Hvetjum ekki fólk til að hlaða niður fleiri börnum en það ræður við að ala upp, allavega ekki á meðan stór hluti heimsbyggðarinnar býr við örbyrgð. Reynum frekar að hvetja íbúa þróunarríkjanna til að nota getnaðarvarnir.

  ——————

  Þorkell @ 09/06 13.23

  Eva segir: „Hvetjum ekki fólk til að hlaða niður fleiri börnum en það ræður við að ala upp.“

  Það er einmitt þetta sem mér finnst svo áhugavert. Við ráðum sem sagt ekki við að ala upp fleiri en 1-2 börn… ergó: Það kemur niður á uppeldi og geði mannkynsins að viðhalda sér! Er ég sá eini sem finnst þetta undarlegt?

  ——————

  Þorkell @ 09/06 13.59

  Nú kann ég ekki formúlu til að reikna dæmið út en ef við gefum okkur að 1.5 barn fæðist á par þá fækkar mannkyninu stöðugt um 1/4. Og þá gefum við okkur að allir pari sig.

  Það eru um 6 milljarðir íbúa á jörðinni, ég viet ekki hversu margir eru í vesturheiminum. En notum bara þessar 6 milljarða. 1/4 af 6 milljörðum er einn og hálfur milljaður. Eftir standa 4.5 milljarður. Svo tökum við 1/4 af þeirri summu sem gefur okkur tæplega 3.4 milljaðrða. Ætli megi ekki reikna með að þetta gerist á svona 40-60 ára stökki. á svona 200 árum hefur okkur því líklega fækkað um helming.

  Þið megið svo skemmta ykkur við að reikna þetta áfram.

  Ég ábyrgist þó ekki að þessir reikningar séu réttir, enda kann ég lítið í stærðfræði.

  ——————

  Eva @ 09/06 15.06

  Já Keli, það kemur niður á uppeldi og geði mannkynsins að ala stóran hluta þess upp við ömurlegar aðstæður. Með aukinni velmegun eignast fólk færri börn en inn í mannfjöldatölum er hið stóra ríki Kína, þar sem fólk hefur verið þvingað til að takmarka barneignir við eitt barn á par. Ég hef enga trú á að við munum í framtíðinni eignast of fá börn, þetta jafnast allt út og á endanum munum við viðhalda mannkyninu. Offjölgun eða offækkun verða bara tímabundin vandamál, eðli hverrar tegundar er að viðhalda sér og svo mun verða.

  ——————

  Ólöf I. Davíðsdóttir @ 09/06 18.47

  Fólki er ekki að fækka heldur fjölga.
  Á heimsvísu fæddi hver kona 2,6 börn skv. tölum Alþjóðabankans. Hugsjúkir geta lagst yfir þessar staðtölur á:
  http://www.worldbank.org
  Ég get ekki betur séð en konur haldi hér vel á spilum og árleg fólksfjölgun var 1,2% árið 2002.
  Það eru heillandi töflur til að skoða á vef Alþjóðabankans og hægt að leita þar eftir upplýsingum frá öllum hugsanlegum sjónarhornum.
  Þar má lesa að 10% eigi einkatölvur og að sex milljón færri flugvélar tóku á loft árið 2002 en árið 2001. Fjórðungur mannkyns hefur síma.
  En svo er líka hollt að bera saman staðtölur ríkra þjóða og snauðra.

Lokað er á athugasemdir.