Fólk er bara alveg hætt að lesa!

Nú eru bókaútgefendur víst alveg að missa sig yfir þverrandi bóksölu. Það er varla fréttnæmt að dregið hafi úr sölu pappírsbóka, bara það sem við var að búast. Viðbrögð þeirra sem hafa tekjur af bókaútgáfu eru skiljanleg, það er vesen að þurfa að finna nýja tekjulind. Áhyggjurnar af forheimskun lýðsins eru hinsvegar dálítið hjákátlegar. Ályktunin sem dregin er af sölutölum er í hnotskurn þessi: Fólk er bara hætt að lesa! 

Bækur seljast ekki og börn lesa ekki heldur hanga bara í snjallsímanum allan daginn. Fullorðnir hafa það fyrir þeim. Ástandið er alveg voðalegt og myrkar miðaldir framundan. Bókaútgáfa mun bráðlega leggjast af og bókmenntaþjóðin sjálf elur af sér ólæsa heimskingja og menningarsnauða með öllu. Nú er hún Snorrabúð stekkur og allt það. Maður bíður bara eftir því að forsetinn lýsi yfir þjóðarsorg.

Kommon krakkar! Af hverju ætti minnkandi bóksala að vera merki þess að fólk sé hætt að lesa? Dettur einhverjum í hug að þótt dregið hafi úr sölu geisladiska merki það að fólk sé hætt að hlusta á tónlist? Af hverju í ósköpunum ætti fólk að fylla heimili sitt af fokdýrum og fyrirferðarmiklum pappírsbókum þegar er hægt að nálgast sömu upplýsingar og oft sömu texta á netinu fyrir ekki neitt?

Nóg á internetið til af námsefni og fræðilegum ritgerðum í mjög mörgum greinum en fræðibækur seljast samt ótrúlega vel. Útgáfa fræðirita á pappír þrífst nefnilega á vanahegðun eldri kynslóðar nörda og fjárkúgunaraðstöðu háskólakennara. Aldrei í sögunni hefur jafn hátt hlutfall þýðisins notið framhaldsmenntunar og þótt sala fræðibóka dragist saman er fráleitt að álykta að það sé merki um að færri verji tíma sínum í fræðilegt lesefni en áður. Sennilega les þjóðin mun meira af fræðilegu efni nú en fyrir 50 árum.

Sennilega hefur dregið úr lestri fagurbókmennta eða að minnsta kosti skáldsagna. Ljóðabækur seljast illa en það er nú ekkert nýtt. Ljóðið hefur ekki notið almenningshylli mjög lengi, nema auðvitað söngtextar. En líklega les Jói á bolnum að jafnaði færri skáldsögur en kynslóð foreldra hans. Sennilega já, jafnvel þótt rafbækur séu meðtaldar.

Og hvað með það þótt hann Jói á bolnum lesi ekki mjög margar skáldsögur? Heldur einhver í alvöru að mín kynslóð og þær sem á undan komu hafi legið í kviðum Hómers eða einhverju álíka menningarlegu?

Ég var svokallaður „bókaormur“ sem barn og unglingur. Það skýrist hvorki af upplagi mínu né af innrætingu sérdeilis menningarlegra foreldra, heldur frekar af því að lestur var helsta afþreyingin sem var í boði fyrir krakka sem höfðu ekki gaman af útileikjum. Og jújú, ég las alveg eitthvað af Þórbergi og Halldóri Laxness, vegna þess einfaldlega að þær bækur voru í hillunum hjá öllum hinum bókunum en satt að segja las ég miklu, miklu fleiri bækur sem geta ekki flokkast sem neitt annað en drasl. Maður las bara það sem var til í bókaskápnum án þess að velta gæðunum sérstaklega fyrir sér. Ég las David Copperfield (Charles Dickens) af því að hún var í bókaskápnum, sömuleiðis Manninn með stálhnefana (Mac Conan Dickinsson), Ívar hlújárn, Ráðskona óskast í sveit (Snjólaug Braga), Brekkukotslannál, Vandinn að vera pabbi (Willy Breinholts) og ótölulegan fjölda teiknimyndabóka, mismerkilegra barnabóka, ævisögur og rauðu ástarsögurnar, að maður tali nú ekki um tímaritin Eros og Sannar sögur. Ég leyfi mér að efast um að ég hafi menntast neitt meira af þessum samhræringi en ef ég hefði varið þessum tíma til að horfa á sjónvarpsþætti eða spila tölvuleiki.

Áður en við lýsum yfir þjóðarsorg vegna þverrandi bóksölu væri kannski ágætt að velta því fyrir sér hvaða öndvegisrit það eru sem hafa komið út á síðustu árum sem eru svo ómissandi þáttur í menningaruppeldi þjóðarinnar að ekki verði úr því bætt með lesefni sem til er á netinu, sem og fyrirlestrum, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og stuttum myndböndum, tölvuleikjum og öðrum miðlum. Og ef það er sannarlega mikilvægt að við lesum skáldsögur Auðar Övu eða Yrsu Sigurðardóttur, væri þá ekki tilvalið að hið opinbera beitti sér fyrir því að auka aðgengi almennings að þessum verkum á netinu? Internetið er nefnilega bókasafn nútímans og ef er sjálfsagt að fólk geti nálgast bækur sér að kostnaðarlausu á bókasöfnum, af hverju ætti þá ekki að vera alveg jafn sjálfsagt að koma upp vefbókasafni með lágum árgjöldum?

 

 

Share to Facebook