Af hverju ættu kennarar að fá að græða á nemendum?

books-21849_640-688x451

Í síðasta pistli stakk ég upp á því að háskólakennarar veittu nemendum sínum, og öðrum eigendum Háskóla Íslands, rafrænan aðgang að því námsefni sem þeir útbúa, endurgjaldslaust. Ég hefði reyndar átt að taka fram að ég átti eingöngu við akademíska starfsmenn við ríkisháskóla, það eru auðvitað fleiri sem skrifa námsbækur.

Ég hef margsinnis rætt þessa hugmynd við vini og kunningja og alltaf kemur sama athugasemdin; já en hvernig eiga þá kennarar sem skrifa kennslubækur að fá greitt fyrir vinnuna sína?

Staðan er nú einfaldlega sú að fræðistörf eru hluti af starfi akademískra starfsmanna við HÍ. Með öðrum orðum; háskólakennarar eru á launum, hjá nemendum, foreldrum þeirra og öðrum vandamönnum. Þeir eru búnir að fá greitt fyrir vinnuna sína þegar kennslubókin kemur út.

Nú getur auðvitað verið að laun háskólakennara séu of lág en það væri þá nær að hækka þau laun en að viðhafa fyrirkomulag þar sem viðurkennt er að ríkisstarfsmenn noti vinnutímann til að búa sér til auka tekjulind.  Auk þess er rétt að hafa í huga að það fer mikið eftir greinum hvort akademískir starfsmenn skrifa kennslubækur, margir birta rannsóknir sínar með öðrum hætti án þess að stunda einkarekstur í tengslum við það.

Þegar háskólakennari hefur nánast lokið ritun nýrrar bókar (í sumum tilvikum hefur hann fengið styrk til að skrifa hana) getur ferlið verið á þessa leið:

  • Hann lætur prenta bókina og binda hana í gormahefti sem fjölrit til kennslu. Prófarkarlestri er ólokið, atriðisorðaskrár og önnur hjálpargögn ófrágengin, kannski vantar einhverjar neðanmálsgreinar. Engu að síður er ritið gefið út, enda þörfin fyrir nýtt námsefni aðkallandi. Nemendur kaupa þessi hefti á mörg þúsund krónur.
  • Næsta ár er búið að snurfusa ritið, villulesa það og ganga frá skrám, og þá er það aftur gefið út sem fjölrit. Fínt fyrir næsta árgang en fyrri árgangur getur ekki selt heftið sitt. Sem hentar kennaranum auðvitað vel.
  • Þriðja árið er svo gefin út endanleg útgáfa. Gott mál, fyrir alla aðra en nemendur tveggja síðustu ára sem sitja uppi með gormahefti sem enginn vill kaupa, og nýnema sem geta fengið gormaheftin lánuð en reikna alveg eins með að í nýju, fullkomnu bókinni, séu dýrmætar viðbótarupplýsingar og kaupa hana því, dýrum dómum.
  • Kennarinn, sem notaði vinnutímann sinn að sjálfsögðu til að skrifa bókina, fær hana svo metna til stiga í vinnumatskerfinu og fær launauppbót og eykur um leið möguleika sinn á framgangi, sem einnig hækkar launin.
  • Tíu árum síðar er bókin að hluta til úrelt og brýn þörf fyrir nýtt námsefni. Ef höfundur væri búinn að taka 21. öldina í sátt myndi hann einfaldlega búa til rafbók sem hægt er að uppfæra eftir þörfum. En þess í stað skrifar kennarinn nýja bók, sem er að stórum hluta beint upp úr hinni fyrri. Nemendur kaupa bókina, því þótt þeir geti fengið gömlu bókina á skiptimarkaði eða að láni, vita þeir að prófið verður miðað við nýju bókina.

Hvernig yrði eigendum húsgagnaverkstæðis við, ef þeir réðu húsgagnahönnuð til starfa og hann tæki upp á því að láta sjálfur framleiða og selja stól sem hann teiknaði í vinnutímanum og er metinn honum til launahækkunar? Hversvegna ættu ríkisstarfsmenn, og reyndar bara þröngur hópur ríkisstarfsmanna, að fá margsinnis greitt fyrir sama verkið?

Finnst eigendum Háskóla Íslands í alvöru ekkert athugavert við þetta fyrirkomulag?

 

Myndin er af opnum vef Pixabay

Share to Facebook