Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er sú að samtök sem byggja afkomu sína á merkjasölu þurfa að finna nýjar leiðir til fjáröflunar.

Um langt árabil hefur álfasala SÁÁ verið mikilvæg fjáröflunarleið og um leið tækifæri til vitundarvakningar um vanda þeirra sem ánetjast áfengi og fíkniefnum.

Þótt öldurhús séu lokuð vegna kórónufaraldursins og framboð af ólöglegum fíkniefnum minna en í meðlaári eru fíknsjúkdómar ekki í neinni pásu. Bent hefur verið á faraldurinn auki enn á vanda fíkla, einkum þeirra sem í þokkabót eru heimilslausir. Stundum er hreinlega eins og það gleymist að fíklar eru líka menn.

Margoft hefur verið bent á þá hættu sem langvarandi heimavist hefur í för með sér fyrir marga fíkla. Lögregla hefur lýst áhyggjum af tilkynningum um fólk sem brýtur gegn tilmælum um sókttkví til þess að fara í áfengisverslanir, tilkynningar vegna heimilisofbeldis hafa aldrei verið fleiri og tilkynningum til barnaverndarnefnda vegna vanrækslu og ofbeldis fjölgar einnig. Mjög líklegt er að óhófleg neysla áfengis og annarra vímuefna eigi þar stóran hlut að máli.

Líklegt er að álag á meðferðarstöðvar SÁÁ muni aukast til muna þegar samkomubanni léttir. Fjáröflun skiptir því síst minna máli nú en áður. En auk þess er engin vanþörf á vitundarvakningu. Sú aðferð að selja stafræn eintök álfsins sem fólk getur póstað á samfélagsmiðlum er því stórfín lausn.

Ætla má að hin stafræna útgáfa álfsins verði einnig kærkominn valkostur fyrir umhverfissinna og þá sem ekki vilja safna meira dóti en nauðsynlegt er en vilja engu að síður styrkja álfasölu samtakanna.

Mikið úrval álfa er í boði, sjö flokkar og margir í hverjum flokki. Sjálf keypti ég verkalýðsálfinn. Af því að verkfólk er líka menn. Og af því að fíknsjúkdómar bitna enn verr á láglaunafólki en þeim sem hafa góðar tekjur og góðar tryggingar. Það eru tekjulitlir fíklar sem í örvæntingu nota efni blönduð allskonar ógeði sem geta valdið enn meira heilsutjóni en dýrari efni. Það er heldur ekkert hlaupið að því fyrir láglaunafólk að taka sér langt frí til að fara í meðferð. Hægt er að kaupa verkalýðsálfinn og alla hina álfana hér.

 

 

 

Share to Facebook