Ekki lengur svalur forseti

Ólafur Ragnar er sumsé ákveðinn í að halda áfram. Og alveg búinn að gleyma því að hann bauðst til þess af göfuglyndi sínu að sitja tvö ár í viðbót. (Einar Karl kjarnhreinsaði framboð Ólafs hér, jafnvel Lára Hanna hefði ekki skafið jafn snyrtilega utan af honum.)

Ég hef greinilega ofmetið skynsemi ÓRG. Ég hélt í alvöru að hann myndi draga framboð sitt til baka með þeim orðum að eins og hefði komið fram í áramótaávarpinu væri hann farinn að huga á önnur mið og fyrst væru komnir fram frambærilegir kandídatar, treysti hann því að þjóðin myndi sýna sér skilning.

Þetta hefði verið flott pólitískt múv. Kannski ekki beinlínis hressandi en allavega svona frekar virðulegt. Margir hefðu túlkað það þannig að hann væri „stíga til hliðar“ fyrir óléttri Samfylkingarkonu á meðan hann mældist ennþá með nógu mikið fylgi til þess að eiga möguleika á að vinna, og þar með væri hann orðinn sérstakt göfugmenni. Aðrir hefðu sagt að hann væri svo skynsamur að sjá að nú væri þetta orðið gott. Hann hefði með því að draga sig í hlé núna, gefið þá mynd af sér að hann sé sjálfum sér samkvæmur, jarðbundinn maður sem þekkir sinn vitjunartíma. Það kæmi á allan hátt betur út en að tapa kosningum og enda þótt hann vinni núna, þá er ótrúlegt að hann geti aukið vinsældir sínar með því að sitja eitt kjörtímabil í viðbót.

ÓRG er hressasti forseti Íslendinga hingað til. Hann sýndi ákveðna dirfsku og hristi svona aðeins upp í hugmyndum okkar um það hvernig forsetaembættið eigi að vera. Hann hefur haft pólitísk áhrif og notið töluverðra vinsælda. Hann setti niður með útrásardýrkun sinni en náði endurreisn með því að synja Icesave lögunum staðfestingar. Með því að sækjast eftir embættinu enn eitt kjörtímabilið er Ólafur sennilega búinn að klúðra möguleikanum á því að sagan minnist hans fyrst og fremst sem mannsins sem virkjaði „málskotsréttinn“ en það hefði verið glæsilegur endir á forsetaferli hans. Það er hinsvegar ekki glæsilegur endir að tapa kosningum fyrir manneskju sem hefur ekkert það til að bera sem gerir hana að verðugum andstæðingi.

Ólafur Ragnar var hressi gaurinn í 16 ár. Nú er líklegt að hann tapi fyrir frambjóðanda sem hefur ekkert fram yfir hann og reyndar þann stærsta og kannski eina kost að vera ekki Ólafur Ragnar. Og það er ekki töff ósigur.  Að grenja svo yfir því hvað RÚV hafi farið illa með hann og þræta í þokkabót fyrir að hafa sagt það sem hann sagði, það er ekki svalt heldur. Eiginlega bara mjög vansvalt.

Share to Facebook

10 thoughts on “Ekki lengur svalur forseti

 1. Hversvegna er Þóra ekki verðugur andstæðingur ÓRGs? Gætirðu vinsamlega tilgreint hvað það er sem gerir hana óverðuga? Er það kannski sú staðreynd að hún er kona og móðir? Að hún hefur ekki tekið þátt í pólitík svo neinu nemi? Er ekki rétt að þú bíðir með að klóra úr henni augun þangað til hún er búin að fæða og byrjar að sanna sig?

 2. Hún er ekki verðugur andstæðingur vegna þess einfaldlega að hún hefur nákvæmlega ekkert til að bera annað en það að koma vel fyrir og eini forsetaframbjóðandi sögunnar sem hefur ekki komið vel fyrir er Ástþór Magnússon. Hún hefur enga reynslu nema úr sjónvarpi og sem fréttamaður var hún aldrei beitt. Hún hefur aldrei sýnt neitt sem bendir til að hún hafi bein í nefinu eða ákveðnar skoðanir á einu eða neinu og það sem hún hefur þegar sagt um skoðanir sínar á opinberum vettvangi bendir til þess að hún ætli sér ekki að vera neitt nema puntudúkka. Ragnar Þór Pétursson gerir þessu ágæt skil hér http://maurildi.blogspot.co.uk/2012/04/sameinast-um-frou.html

  Börn hafa áður búið á Bessastöðum, kona hefur áður verið forseti, tvær konur sem eru miklu ákjósanlegri en Þóra eru í framboðið núna. Það að Þóra er kona og móðir kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við enda hefur forseti nógu góðar tekjur til að ráða sér auka heimilishjálp ef á þarf að halda, og þótt nokkrar afturhaldshræður hafi komið fram með það bjánalega viðhorf að mæður geti ekki verið forsetar (þrátt fyrir að fjöldi mæðra vinni mun erfiðari störf) þá segir það ekkert um þau viðhorf sem algengust eru. Stuðningsmenn Þóru hafa hinsvegar gripið hvert tækifæri til að útmála hana sem fórnarlamb feðraveldisins út á nokkur komment sem eru ekki einu sinni svaraverð. Ástæðan fyrir því að Þóra er ekki gott forsetaefni tengist móðurhlutverkinu ekki neitt, konan hefur bara einfaldlega ekkert við sig.

  Og nei, það á ekki að gefa henni neinn sérstakan séns vegna þessarar óléttu. Óléttan gerir hana ekki vanhæfa, hún gerir hana ekki að súkkulaðikleinu heldur. Manneskja sem fer í forsetaframboð ólétt verður bara að standa undir því þótt einhverjir gapi ekki upp í hana.

 3. Afsakaðu ef ég hef þig fyrir rangri sök en ég held að þú þekkir ekki Þóru frekar en ég. Ég leyfi mér hinsvegar að bíða með palladóma og stóryrði þar til hún verður léttari og getur byrjað að standa fyrir máli sínu. Er það til of mikils mælst? Ég er utangátta í umræðunni um feðraveldi, er karlmaður með töluverða reynslu af konum og sýnist þær almennt ekki þurfa að kvarta um valdaleysi. Pistill Ragnars Þórs er marklaust þvaður. Það er ekkert sem Íslendingar þarfnast frekar á þessum tímapunkti í sinni ömurlegu sundurlyndis- og hrakfallasögu en forseti sem heldur friðinn við þjóð sína.

 4. Já það er til of mikils mælst að sérstakt tillit sé tekið til þess að hún er ólétt. Fólk á ekki að fara í forsetaframboð nema vera fært um að standa fyrir máli sínu og reyndar sé ég ekki hvernig ólétta ætti að koma í veg fyrir það. Ólétt kona getur að vísu búist við hormónarugli og álagi vegna þungans og komandi ábyrgðar sem getur gert hana viðkvæmari en ella. Eftir fæðinguna er möguleiki á sængurkvennagráti. Hún getur reiknað með að það sé ákveðið álag að hafa barn á brjósti. Ekkert af þessu er ófyrirséð og ef hún treystir sér ekki til að takast á við það þá bara hefur hún ekkert í forsetaframboð að gera. Forseti er þjónn þjóðarinnar en ekki öfugt. Hann/hún er ekki puntudúkka sem við þurfum að passa að styggja ekki. Það er eðlilegt að taka tillit til þess ef fólk í háum embættum verður fyrir slysi, sjúkdómi eða öðru áfalli en fyrirséð viðkvæmni sem stafar af ástandi sem fólk velur sér sjálft, það er bara ekkert í fyrsta sæti.

  Hvað er „marklaust“ í pistli Ragnars Þórs? Hann nefnir nokkur dæmi um spurningar sem engin svör fengust við, er það „marklaust“ eða finnst þér marklaust að gera þá kröfu til forseta að hann sé ekki algjör froða?

 5. Froðu- og puntudúkkukenningin er alfarið þín. Hún stendur auðvitað óhögguð þangað til Þóra fær tækifæri til að tjá sig án þess að eiga á hættu að barnið fæðist í miðju sjónvarpsviðtali. Mér finnst það bera vitni um óvenjulegt hugrekki, kjark og bjartsýni að fara í forsetaframboð komin á steypirinn. Það er engin puntudúkkubragur á slíku. Ég spái því að hún muni bera sig eins og konur fyrri tíma sem fóru heim í baðstofu til að fæða og héldu síðan aftur ótrauðar á engjar. Hvað varðar þvætting Ragnars Þórs bera fæst orð minnsta ábyrgð. Þóra ætlar að setja embættinu siðareglur og fara eftir þeim. Það nefnir RÞ þjónkun við atvinnulífið, búinn að steingleyma forsetanum sem þjónaði undir glæpamenn í avinnulífinu og sæmdi þá heiðursmerkjum.

 6. Hvaða siðareglur ætlar hún að setja? Það væri kannski fínt að hún kynnti þær.

  Engum sögum fer af því að sjónvarpsviðtöl komi af stað fæðingu. Ef konan missir legvatnið í sjónvarpsviðtali verður henni væntanlega skutlað beina leið á fæðingadeild. Þungun er ekki sjúkdómur og hún þarf ekkert að passa sig að tala ekki vegna óléttunnar. Ef ólétta hefði þau áhrif á konur að þær gætu ekki tjáð sig, þá væri ólétta um leið orðin ástæða til að hindra konur í stjórnmálaþátttöku og halda þeim frá ábyrgðarstöðum.

  Já, það er kannski rétt að taka fram að álit mitt á Þóru kemur ÓRG ekki við heldur. Ég gekk sjálf í hús og dreifði áskorun um að sitja heima á kjördag í mótmælaskyni við slef hans upp í kínverska mannréttindaníðinga fyrir síðustu kosningar.

 7. @caramba: ,,Hvað varðar þvætting Ragnars Þórs bera fæst orð minnsta ábyrgð.“

  Ha?

  Er það orðinn sérstakur ábyrgðarhluti að gagnrýna þvætting?

  Er það ekki heldur ábyrgðarhluti að gera það ekki?

  En caramba á allavega skilinn Thule fyrir að reyna að stinga af með stæl.

Lokað er á athugasemdir.