Sendi þessa fyrirspurn til netsíðu Ögmundar í dag
Sæll Ögmundur
Ég hef mikið velt því fyrir mér, í tengslum við mál Mohammeds Lo, hvernig flóttamannasamningur Sameinuðu Þjóðanna og útlendingalögin séu túlkuð hjá ráðuneyti þínu.
Samkvæmt flóttamannasamninun telst sá flóttamaður sem flýr heimaland sitt af ástæðuríkum ótta við ofsóknir á grundvelli kynþáttar, félagsstöðu, trúar eða stjórnmálaskoðana. Einnig er talað um pyndingar, þrældóm og kynþáttamismunun sem þætti sem falli undir ofsóknir.
Telur þú að ég sé að misskilja skilgreiningu flóttamannasamningsins, þegar ég held því fram að maður sem flúði ævilanga ánauð, er af þjóðarbroti sem sætir kerfisbundinni mismunun og jafnvel ofsóknum, og á yfir höfði sér pyndingar og þrældóm ef hann snýr aftur, eigi tilkall til stöðu flóttamanns?
Eftirfarandi er beint upp úr handbók um réttarstöðu flóttamanna, sem gefin er út af Flóttamannahjálp SÞ
„Það er almenn meginregla lögfræðinnar að sönnunarbyrði hvíli á þeim sem leggur fram kröfu. Oft getur umsækjandi hins vegar ekki stutt framburð sinn með skriflegum gögnum eða öðrum sönnunum. Það er undantekning frekar en regla að umsækjandi geti fært sönnur á allan framburð sinn. Oftast kemur sá sem flýr ofsóknir aðeins með alnauðsynlegustu eigur sínar og án persónulegra skjala sinna. Af þessu leiðir að þótt sönnunarbyrðin hvíli á umsækjanda þá er það sameiginleg skylda umsækjanda og viðkomandi stjórnvalds að komast að raun um staðreyndir málsins og að meta þær. Í ákveðnum tilvikum getur það jafnvel verið á herðum stjórnvaldsins að beita öllum tiltækum ráðum til þess að leggja fram nauðsynleg gögn sem styðja umsóknina. Sjálfstæð rannsókn af þessum toga getur þó verið án árangurs en einnig getur verið erfitt að færa sönnur á þann framburð sem fyrir liggur. Við þessar aðstæður ber að láta umsækjanda njóta vafans ef frásögn hans virðist trúverðug nema góðar og gildar ástæður mæli á móti því. “
Sérð þú einhvern annan túlkunarmöguleika á þessu ákvæði en þann að sá sem segist vera að flýja ofsóknir og virðist trúverðugur, eigi að njóta vafans á meðan ekki tekst að færa pottþéttar sönnur á sögu hans?
Hér er svo 45. grein útlendingalaga en hún er í samræmi við 33. grein flóttamannasamningins:
„Ekki má samkvæmt lögunum senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.“
Sérð þú einhvern möguleika á að túlka þetta á þann hátt að þér sé heimilt að stofna öryggi og frelsi Mohammeds í voða, með því að senda hann í klærnar á Norðmönnum sem hafa gefið ykkur það skriflegt að þeir muni senda hann til Máritaníu?
Með kveðju
Eva Hauksdóttir