Miðsvæðis í Reykjavík má reikna með að leiguverð fyrir herbergi með aðgangi að eldhúsi, baði og þvottahúsi sé á bilinu 55-70 þúsund. Tveggja herbergja íbúðir kosta oft á bilinu 160-190 þúsund á mánuði. Algengt er að að fólk, hvort heldur er á leigumarkaðnum eða þeir sem búa í „eigin húsnæði“ (sem venjulega er að mestu leyti í eigu lánastofnana) fari með meira en 60% tekna sinna í húsnæðiskostnað.
Kostnaðurinn er nógu slæmur en íslenskur leigumarkaður býður heldur ekki upp á neitt öryggi. Stærsti hluti þess leiguhúsnæðis sem er í boði er í eigu einstaklinga og það telst sérstök heppni að fá leigusamning til lengri tíma en árs í senn. Leiguherbergi eru oftast inni á heimilum annarra, íbúðir eru leigðar út tímabundið þegar fólk flytur vegna vinnu eða náms en reiknar með að koma heim aftur eftir nokkur ár, eða í sumum tilvikum nokkra mánuði. Þeir sem leigja út íbúð, sem ekki er heimili fjölskyldunnar, eru ekkert endilega tilbúnir til að gera leigusamninga til margra ára, því einhver nákominn gæti lent í húsnæðishraki. Fólk á leigumarkaðnum getur reiknað með stöðugum flutningum og það er ekki bara slítandi að búa við slíkt öryggisleysi heldur er líka dýrt að flytja.
En nú er félags- og húsnæðismálaráðherra, þessi sem ber meginábyrgð á stefnu ríkissins í húsnæðismálum, búin að finna lausnina: Ekki flytja að heiman, og takið lengri tíma í háskólanámið frekar en að taka námslán.
Þetta er í alvöru það sem félags- og húsnæðismálaráðherra landsins ráðleggur ungu fólki; að liggja uppi á foreldrum sínum þar til það lýkur háskólanámi, með seinna fallinu, auk þess að taka strætó og halda tækjakostnaði í lágmarki.
Allt hljómar þetta ósköp skynsamlega og bara gott mál ef Eygló gefur sínum eigin börnum og öðrum áhugasömum þessi ágætu ráð, en þar sem Eygló er ekki bara hver annar bloggari, heldur einmitt valdamesta manneskja landsins á sviði félags- og húsnæðismála, væri æskilegt að hún fjallaði einnig um eftirfarandi:
- Húsnæðismál þeirra ungmenna sem ekki eiga foreldra.
- Húsnæðismál þeirra ungmenna sem eiga fátæka foreldra sem geta ekki séð fyrir þeim og eru kannski ekki einu sinni í eigin húsnæði sjálfir.
- Húsnæðismál þeirra ungmenna sem eiga foreldra sem kæra sig ekki um að búa með uppkomnum börnum sínum, vilja t.d. leigja aukaherbergi út til að hafa tekjur af því sjálfir, vilja ekki lenda í þeirri aðstöðu daglega að þurfa að velja á milli þess að þjónusta fullorðið fólk eða neita að þjónusta það og vilja vera einráðir um það hvaða tónlist er spiluð á heimilinu, hverjir komi í heimsókn o.s.frv.
- Húsnæðismál þeirra ungmenna sem geta ekki búið með foreldrum sínum vegna vandamála á borð við óreglu, ofbeldi eða stöðugt ósamkomulag.
- Húsnæðismál þeirra ungmenna sem eiga börn. Eiga foreldrarnir líka að hýsa barnabörnin þar til unga fólkið er búið að setja 4 milljónir í sparibaukinn? Eða ráðleggur félagsmálaráðherra fólki kannski líka að fresta barneignum þar til hægfara háskólanámi lýkur og á þá sú kynslóð að sætta sig við það fram yfir sextugt að vera með ungmenni á framfæri?
Einnig væri viðeigandi að ráðherra kæmi dálítið inn á ábyrgð ríkisins á almenningssamgöngum. Það er auðvelt fyrir fólk sem aldrei hefur verið bíllaust, á ísaköldu landi, að ráðleggja öðrum að taka bara strætó, en veruleikinn er ekki alltaf svo einfaldur að fólk þurfi bara að ganga út á næsta göruhorn og sitja svo í strætó 10 mínútur tvisvar á dag. Sumir þurfa að sækja börn á leikskóla, stundum þarf að versla til heimilisins eða fara til tannlæknis í öðru hverfi og fáir leggja það á sig að ösla snjóskafla með barnakerru á undan sér, berandi margra kílóa innkaupapoka ásamt skólabókum. Það er einfaldlega auðveldara að taka lán og kaupa bíl. Strætó hentar heldur ekki þeim sem vinna um helgar. Ég veit þess nýlegt dæmi að maður sem ekki á bíl þurfti að hafna vaktavinnu.
Það er alveg áreiðanlegt að bílaeign Íslendinga er mun meiri en ástæða er til og þess væri óskandi að yfirvöld legðu eitthvað af mörkum til að breyta því. Félagsmálaráðherra gæti til dæmis lagt það til að ríkið sjái öllu skólafólki fyrir strætókorti því að kostnaðarlausu. Það væri raunveruleg hvatning fyrir ungt fólk til að fresta bílakaupum. Flestum ungmennum er hinsvegar skítsama um það sem félagsmálaráðherra hefði kannski getað lært af vinum sínum fyrir einhverjum áratugum; alveg jafn skítsama og ungu Eygló var sjálfri.
Ljósmynd eftir Marco Bellucci